Magnaðar myndir af vesturförum í Kanada: Svona var lífið á Nýja-Íslandi

Fimmtán til tuttugu þúsund Íslendingar fluttu til Kanada á árunum 1870 til 1914. Kanadísk stjórnvöld buðu ókeypis land til að lokka fólk vestur um haf. Þúsundir Íslendinga lögðu líf sitt og limi í hættu í von um betra líf. Árið 1875 stofnuðu Íslendingar í Kanada sjálfstjórnarnýlendu við Winnipegvatn í Manitoba. Fékk nýlendan nafnið Nýja-Ísland.

Hungur og kuldi surfu að fyrsta vetur vesturfaranna og veiði gekk illa. Margir lifðu ekki þennan fyrsta vetur af og  í þeim hópi voru mörg börn.  Þau sem lifðu af stofnuðu skóla, kirkju, gáfu út blöð, héldu úti skemmtanalífi og héldu áfram að berjast.

Hópur íslenskra innflytjenda fær sér kaffisopa

Á fréttavefnum Winnipegg freepress er margar magnaðar myndir að finna af Íslendingum sem dreymdi um betra líf og höfðu flutt búferlum til Kanada. Þar er fjallað af mikilli virðingu um það fólk sem flutti héðan frá Íslandi til Kanada á árunum 1870 til 1914.

Ekki er vitað hvaða kona er þarna með barn sitt.

Ástæða þess að Íslendingar fluttu til Kanada voru margar, fátækt, ófrelsi og hungur. Upphaf vesturferða má rekja til þess að tveir Íslendingar tóku mormnónatrú í Kaupmannahöfn árið 1851. Þeir settust að í Vestmannaeyjum þar sem fleiri tóku trúna. Á árunum 1855 til 1857 fluttu nokkrir þeirra til Utah í Bandaríkjunum. Þeir voru því fyrstu íslensku vesturfararnir.

Bændur í Manitoba

Landsvæðið sem Íslendingarnir völdu sér reyndist erfitt til ræktunar. Ekki aðeins voru landgæði slæm og hrakti fólk í burtu. Á þessum fyrstu árum vesturfara brast á bæði bólusótt og flóð og fjöldi Íslendinga lagði á flótta.

Árið 1887 fór Íslendingum aftur að fjölga og það sama ár varð Nýja-Ísland hluti af Manitobafylki. Gimli er höfuðstaðurinn og þar er haldin árleg Íslendingahátíð.

Í dag eru ríflega hundrað þúsund manns á Manitobasvæðinu sem geta rakið ættir sínar til Íslands.

Hér má sjá pósthúsið Arnes í Manitoba

Um 15 til 20 þúsund Íslendingar fluttu vestur um haf á þessum árum. Fyrst fóru um 350 Íslendingar til Kinmount í Ontario í Kanada árið 1874 en flestir vildu fara annað og var Sigtryggur nokkur Jónsson sem betur er sagt frá hér á eftir, fenginn til að finna fyrirheitna landið sem var í Winnipeg.

Björnsson nokkur átti þennan myndarlega bæ

Líf þessa fólks var afar erfitt fyrstu árin í Kanada. Árið 1876 kom stór hópur frá Íslandi en yfir 100 manns létust í bólusóttarfaraldri sem varð til þess að svæðið var sett í sóttkví í hálft ár.

Fjóla Ólafsson

Það er til marks um dugnað þessa fólks að þrátt fyrir þessar skelfilegu hörmungar stofnuðu nokkrir menn blaðið Framfara. Á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að keypt var prentsmiðja með íslenskum stöfum og fyrsta tölublaðið var prentað í bjálkakofa að Lundi, þar sem nú er Riverton, 1, september árið 1877. Það kom út þrisvar í mánuði og var fjórar síður að lengd.

Gimli í Manitoba

Framfari kostaði 1,5 dollara í Nýja-Íslandi en 1,75 fyrir utan svæðið. Áskrifendur voru 39 á Íslandi, átta í Englandi, einn í Frakklandi, tveir í Noregi og einnig var það sent til Nebraska, Minnesota, Utah, Michigan, Wisconsin, Iowa, Illinois, Nova Scotia og Ontario. Stærsta upplag blaðsins var 589 eintök.

Hótel Manitoba. Þarna gistu eflaust margir Íslendingar

Í fyrsta tölublaði Framfara var fjallað um viðhald máls og þjóðernis og var það talið mikilvægast. Forsendur voru tvær, að mati manna, íslensk nýlenda og útgáfa blaðs á íslensku. Þetta þýddi þó ekki að Íslendingarnir vildu einangra sig, því þeir voru móttækilegir fyrir hinum nýja heimi og vildu laga sig að honum.

Íslenskar stúlkur í þjóðbúningi

Í greininni er rakin saga nokkurra þekktra persóna úr sögu Vestur-Íslendinga. Þar er saga Sigtryggs Jónsonar fyrirferðamest en hann er jafnan nefndur faðir Nýja-Íslands. Hann var einn hinna fyrstu sem fór vestur og átti hann langa og viðburðaríka ævi. Hann fór einn síns liðs til Kanada árið 1872.

Þegar Íslendinga tók að streyma til landsins liðsinnti hann þeim. Hann tók fullan þátt í landnáminu og var þeirra helsti leiðtogi. Til marks um framtakssemi mannsins, þá gerði hann út gufubát á Winnipegvatni, fór til Íslands og hvatti Íslendinga til að stofna eimskipafélag og flytja út ferskan fisk. Hann var ritstjóri Lögbergs og þingmaður Frjálslynda flokksins árið 1896 fyrir Vestur-Íslendinga. Hann var einnig lykilmaður í að fá járnbraut til Nýja-Íslands.

Sigtryggur bjó í Árborg í Nýja Íslandi um skeið, stundaði búskap á Möðruvöllum, gömlu landnámsjörðinni sinni þegar hann var kominn á sjötugsaldur. Síðustu ævi árin var hann mest hjá Percy fóstursyni sínum í Nýja Íslandi. Hann lést árið 1942.

Það var oft kalt í Manitoba
Það er við hæfi að enda þessa myndaseríu á John Blöndal en hann starfaði sem ljósmyndari og tók margar myndir af löndum sínum

Ekki missa af...