Mætti á tökustað Dune en fékk ekki hlutverkið

Stórleikarinn Tómas Lemarquis var ekki fjarri góðu gamni við tökur á hinni geysivinsælu Dune sem sýnd er í kvikmyndahúsum um þessar mundir. Aftur á móti virðist leikarinn hafa hvorki ratað á hvíta tjaldið né endanlega í tökuliðið, líkt og leikarinn gefur sjálfur upp.

Um veraldarvefinn hafa birst ýmsar stillur með svonefndum konseptlistaverkum (e. concept art) sem unnin voru fyrir kvikmyndina Dune. Til að mynda má þar finna eina teikningu af Tómasi, eða nærskot af honum, í fullu gervi. Á kvikmyndavefnum IMDb er einnig greint frá aðkomu Tómasar á tökustaðnum og eru jafnvel orðrómar um að framleiðendur Dune séu með leikarann í huga fyrir framhaldsmyndina, verði hún að veruleika.

Tómas blæs þó á þær kjaftasögur en í samtali við 24 segist leikarinn ekki hafa fengið hlutverk í myndinni þó áður hafi það staðið til.

Segir Tómas að skipulagsárekstrar hafi leitt til þess að tökuferli hans hafi ekki farið lengra.

„Ég var fenginn í lítið hlutverk, en svo raðaðist dagskráin þannig að það gekk ekki upp,“ segir leikarinn. „Ég er þannig í rauninni ekki í myndinni né hluti af tökuliðinu í raun þó ég hafi mætt þarna aðeins í heimsókn.“

Tóm­as nýt­ur vel­gengni sem leik­ari, líkt og fyrri daginn, á Íslandi, í Evr­ópu og víðar, en hann hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að því að skjóta upp kollinum í erlendum kvikmyndum samhliða heimsfrægum stjörnum. Á meðal þeirra mynda sem mætti telja upp ber að geta Snowpiercer, 3 Days to Kill, X-Men: Apocalypse og Blade Runner 2049 frá Denis Villeneuve, leikstjóra Dune. Þá fór Tómas með eitt aðalhlutverkið í myndinni Touch me Not sem hlaut Gullbjörninn á Berlinale hátíðinni 2018.

Tómas stundaði fyrst leiklistarnám í París við skólann Cours Florent. Eftir það hélt hann aftur til Íslands þar sem hann læri myndlist í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 2003. Á meðan myndlistarnáminu stóð bauðst honum titilhlutverkið í myndinni Nói Albinói. Sú mynd hlaut fjölda alþjóðlegra verðlauna. Tómas var í kjölfarið tilnefdur til Evrópsku kvikmyndaverðlaunana og hlaut Edduverðlaunin á Íslandi. Ári síðar var hann svo tilnefndur sem Shooting Star fyrir íslands hönd hjá European film promotion.

Hver leynist undir brúnni?

Hver leynist undir brúnni?

Engar hryllingssögur

Birtu bara bréfin Drífa

Lífið í miðjunni

Ekki missa af...