„Maður kæmist ekki langt ef maður væri ekki vel giftur“

Það var hægara sagt en gert að ná tali af Óla Jóhanni Daníelssyni, þegar svo stutt er til jóla. „Það er unnið aðeins meira en myrkranna á milli þessa dagana,“ segir hann í samtali við 24. Hann rekur Gullsmiðju Óla í Hamraborginni og vitaskuld er nóg að gera í jólavertíðinni.

„Það eru alls kyns pantanir, sérsmíði og það sem við erum með frammi í búð. Við værum ekki að verða 29 ára á næsta ári ef það væri ekkert að gera.“

Óli hefur áratugareynslu af gullsmíðum og gullviðgerðum og hefur starfrækt verslanir á Íslandi og Danmörku. Hann rekur verkstæði og verslun með konu sinni, Eygló Sif Steindórsdóttur og þremur dætrum sem allar koma að rekstrinum.

ÁKVÖRÐUN TEKIN YFIR RAUÐVÍNSGLASI

Óli fluttist til Danmerkur árið 1985 og byrjaði þar að læra leturgröft. Það var lítið um gullsmíðanám á Íslandi á þeim tíma, ýmist komst einn eða jafnvel tveir nemar inn og sum ár komst enginn. „Það var hjá fyrirtæki þar sem meistarinn stundaði stálgröft, eitthvað sem var ekkert það sem ég hafði áhuga á.“

Hann segir að námið sé eftirsótt í Danmörku og tveir eða þrír komist inn á ári hverju. „Ég var held ég sá fyrsti sem segir nei við því.“

Síðar kynntist hann gullsmið sem rak einn verkstæði fyrir utan Árósa. Óli varð hans fyrsti lærlingur á sérhæfðu viðgerðarverkstæði. „Ef einhver gullsmiður treysti sér ekki í eitthvað verk þá fór það til meistarans míns og hann tók það að sér. Ég naut mjög góðs af því þarna, þetta var mjög góður skóli.“

Hann kláraði árið 1990 og fluttist heim til að vinna í tvö ár. Þau fluttu aftur búferlum og opnuðu gullsmíðaverslun á Strikinu í Árósum. „Við vorum búin að vera með hana í eitt ár þegar við fréttum af plássi sem losnaði í Hamraborginni, þar sem mig langaði til að opna. Tókum spjall eina kvöldstund yfir rauðvínsglasi og ákvörðun var bara tekin. Við pökkuðum saman og opnðum svo 19. júní árið 1993.“

Gullsmiðja Óla var fyrsta gullsmíðaverslunin sem opnaði í Kópavoginum.

FJÖLSKYLDUFYRIRTÆKI FYRST OG FREMST

Þegar þarna er komið við sögu áttu þau hjónin tvær litlar stelpur, Unni Kristínu og Hönnu Rún. Sú yngsta, Eygló Mjöll, kom svo seinna. „Þegar þær eru að alast upp þá hjálpuðu þær alltaf til, í jólavertíðinni og svona, bara eins og góðum dætrum sæmir,“ segir Óli. Hann segir verslunina alltaf hugsaða sem fjölskyldufyrirtæki. „Maður kæmist ekki langt ef maður væri ekki vel giftur.“

„Elsta dóttirin, Unnur, lærði gullsmíði og fór líka í einkaþjálfarann. Hún hefur verið að vinna sem einkaþjálfari en kemur alltaf til að hjálpa pabba þegar það þarf. Hanna Rún sér um að koma okkur áfram á samfélagsmiðlum, hún er mjög dugleg þar. Svo heldur hún utan um búðina á meðan ég er á bak við. Maður veit bara að ef við þurfum að skreppa frá þá er búðin í góðum höndum.“

Verslunin flutti svo í Smáralind en verkstæðið þurfti að vera heima þar sem enginn bakútgangur var í plássinu. Óli segir það ekki hafa hentað að þurfa fara svo mikið fram og til baka. Eftir hrun var ekki grundvöllur til að halda úti búð í verslunarmiðstöðinni og reyndu þau að komast aftur í Hamraborgina.

„Þetta var árið 2010 og litla plássið sem við byrjuðum í losnaði árið 2013, þegar verslunin var orðin tuttugu ára.“ Tveimur árum síðar fluttu þau í núverandi pláss sem er hinum megin við vegginn frá gömlu versluninni.

GULLSMIÐURINN Á HORNINU

Hamraborgin stækkar hratt og segja má að Óli sé orðinn hluti af menningunni, líkt og kaupmaðurinn á horninu forðum daga. „Það sem breyttist líka við að fara úr Smáralindinni er að fullt af þessu eldra fólki sem vill oft bara tala við gullsmiðinn sem er að gera verkið fyrir þau, kom allt til baka þegar við fluttum í Hamraborgina. Fólk bankaði á dyrnar og stakk hausnum inn til að segja Velkominn heim Óli minn.“

Það eru margir fastir viðskiptavinir sem versla við Óla. Hann lýsir heimilislegri stemmingu og nýtur þess að taka spjall við fólk sem kemur inn. „Ég man eftir einni sem kom inn og ég sagði við hana, vá hvað það ilmar vel, varstu að baka pönnukökur? Hún sagði já, finnst þér pönnukökur góðar?Mér finnst pönnukökur með rjóma og sultu alveg geggjaðar þannig að ég sagði henni það, nokkrum vikum síðar kemur hún með disk alveg hlaðinn af pönnukökum og rjóma.“

SÉRSMÍÐAÐ OG INNFLUTT

Óli býður upp á viðgerðir, sérsmíðað skart og ýmis konar annað. „Við smíðum líka úr gömlu fyrir fólk þar sem gullið hefur tilfinningalegt gildi. Þú ert kannski að koma með hring sem pabbi þinn eða afi hefur átt, í staðinn fyrir að selja hann þá er betra að láta smíða kross úr honum eða eitthvað, nota gullið áfram þó það sé á öðru formi.“

Einnig er mjög vinsælt að láta sérsmíða úr gulli.

„Í þessum bransa er ekkert mikið af tískubylgjum. Eins og er í svo mörgu öðrum, það koma bólur inn á milli en við erum ekkert að eltast við einhverjar bylgjur sem endast í styttri tíma. Við erum bara með þetta á þessum klassísku nótum.“

Ekki missa af...