Lögreglukonan með Punisher-fánann trúir ekki öllum – Gerir lítið úr þolendum kynferðisofbeldis: „Full á djamminu.is”

„Full á djamminu.is”

Þetta skrifa Aníta Rut Harðardóttir, varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á Facebook-síðu sinni, sem er opin almenningi, og deilir frétt Mannlífs um Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur. Aníta hefur áður verið kennd við umdeild merki á einkennisbúning sínum, til að mynda Refsarans (e. The Punisher) og áður sætt mikilli gagnrýni fyrir að bera slíkt merki á undirjakka sínum í starfi sínu sem lögregluþjónn.

Höfðu fjölmargir stigið fram og haldið því fram að merkin séu höfð til marks um rasisma og öfgaskoðanir. Merkin sem um ræðir eru annars vegar grænn, svartur og hvítur krossfáni með merki myndasögupersónunnar Punisher og hins vegar krossfáni með láréttri, blárri línu. Sá fyrrnefndi svipar til hins svokallaða Vínlandsfána, en Punisher-merkið þykir afar umdeilt, meðal annars í Noregi. Hermt er að liðsmenn svokallaðrar Telemark-sveitar í norska hernum hefðu málað merkið á búnað sinn, þrátt fyrir að herforingjar bönnuðu notkun þess.

Í færslunni sem Aníta deildi lýsir Þórhildur yfir reiði sinni á yfirlýsingu Arons Einars Gunnarsonar, en hann segist þar hafa ekki beitt neina manneskju ofbeldi.

Þórhildur segir skrif Anítu sorgleg í samtali við 24: „Það er sorglegt að sjá lögreglukonu gefa í skyn að ef þú ert full á djamminu áttu ofbeldi skilið,“ segir Þórhildur Gyða. „Vona innilega að hún sjái ekki um að taka skýrslur brotaþola í ofbeldismálum því það væri grafalvarlegt miðað við viðhorf hennar.“

Mál Þórhildar Gyðu hefur vakið mikla athygli síðustu vikur og mánuði. Árið 2017 sakaði hún landsliðsmanninn Kolbein Sigþórsson um kynferðisofbeldi. Kolbeinn greiddi Þórhildi miskabætur og lagði inn upphæð á reikning Stígamóta. Kolbeinn neitaði í yfirlýsingu að hafa áreitt eða beitt Þórhildi ofbeldi en sagði hegðun sína ekki hafa verið til fyrirmyndar umrætt kvöld.

Hún steig fram og minnti aftur á málið þegar Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði í viðtali við Kastljós að engar tilkynningar um kynferðisbrot hafi komið á borð sambandsins.

Þá hafði hávær umræða verið á Twitter um kynferðisbrot íslenskra landsliðsmanna í fótbolta. Guðni Bergsson sagði af sér formennsku KSÍ vegna ummæla sína og stjórn sambandsins fór sömu leið.

Stendur föst á sínu máli

Aníta stendur sjálf við skoðanir sínar á Facebook í samtali við 24. „Ég kem alveg af fjöllum með þetta mál,“ segir Aníta og kannaðist ekki við neinn meintan usla í kringum orðin sem hún lét falla.

„Ég vil koma því á framfæri að mér finnst að eigi aldrei að þurfa skilyrðislaust að trúa þeim sem stíga fram og kalla sig þolendur. Ég stend alveg föst á því.“

Spurð að því hvort henni þykir þetta samræmast starfi lögregluþjóns var svar hennar stutt og skýrt. „Ég hef ekki mikið álit á þessu máli.“

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Aníta kemst í fréttir vegna vafasamra yfirlýsinga. Hún er lögreglukonan sem saumaði þrjá fána á búning sinn en allir þrír höfðu vafasamar tengingar við öfgahægri. Einn þeirra er flokkað sem haturtákn af Anti-Defamation League, mannréttindasamtökum gyðinga í Bandaríkjunum. Hún hélt vinnu sinni þrátt fyrir það og komu margir lögreglumenn henni til varnar.

Málið kom flatt upp á Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, í samtali við 24. Hann sagði þó að málið muni fara á borð yfirmanns Anítu hjá lögreglunni.

Ekki missa af...