Lights on the Highway snýr aftur – Soffía Björg hitar upp: „Rosa mikið af fólki sem bjó til COVID barn, ég bjó til COVID plötu“

Hljómsveitin Lights on the Highway snýr aftur eftir langt hlé með tónleikum dagana 30. og 31. október. Tónleikarnir verða við Aurora Basecamp, sem er vinsæll norðurljósastaður. Ásamt Lights mun tónlistarkonan Soffía Björg koma fram og flytja efni af nýrri plötu sinni, sem kemur út 29. október.

Lights on the Highway varð til árið 2003 og spilar hljómsveitin melódískt rokk. Hún var virk frá stofnun til ársins 2012 en tók þá hlé og hefur spilað slitrótt síðan. Hljómsveitin syngur á ensku en gaf út lagið Leiðin heim á íslensku árið 2010 sem náði nokkrum vinsældum.

Bandið gaf út tvær plötur, samnefnda árið 2005 og svo Amanita muscaria árið 2009. Síðari platan var tilnefnd sem Plata Ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum.

Þeir spiluðu víða á þessum tíma og voru meðal annars ein af átta hljómsveitum sem spiluðu á opnunarhátíð Hörpu árið 2011. Sveitin tók sér hlé árið 2012 og hefur komið saman einstaka sinnum síðan þá. Síðast héldu þér tónleika á Hard Rock árið 2018 við góðar undirtektir.


ÞEKKTI ENGAN AF ÞEIM

Soffía Björg Óðinsdóttir, söngkona, laga- og textahöfundur, kláraði tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands árið 2014 og gaf út sína fyrstu plötu árið 2017. Hún hitar upp fyrir Lights en það kom til á óvenjulegan hátt.

„Það var bara í skilaboð á Instagram frá einum þeirra. Þeir fíluðu lagið sem ég gaf út í sumar og spurðu mig hvort ég vildi hita upp fyrir þá. Ég þekkti engan af þeim.“

Hún þekkti þó tónlistina þeirra og líkaði við. „Ég var bara mega til í þetta. Það að vera á þessum tónleikastað, þetta hljómar eitthvað svo brjálæðislega vel. Mínar bestu minningar er þegar maður spilar á svona biluðum stað. Ég hef spilað á alls konar skrýtnum stöðum. Það er eitthvað sem maður man eftir,“ segir Soffía Björg sem er sjálf að gefa út plötu og ætlar að spila lög af henni fyrir áhorfendur.

„Það er rosa mikið af fólki sem bjó til COVID barn, ég bjó til COVID plötu. Ég hafði mikinn tíma í faraldrinum og byrjaði að spila á píanó, hef alltaf verið meira á gítar. Samdi plötuna alla eiginlega á píanó. Þetta verður algjörlega nýtt.“

Hægt er að nálgast miða á tónleikana hér.

Ekki missa af...