Líf Fúsa var eymd, sársauki og drulla: „Takk fyrir lífgjöfina og ég elska ykkur“

„Í stuttu þá komst ég að því að 99% af allri eymd og drullu í mínu lífi var mér að kenna en að sama skapi lærði ég að það var til lausn á vandamálinu sem var ég….“

Þetta segir Sigfús Sigurðsson, fisksali og fyrrverandi atvinnumaður í handbolta. Sigfús var lengi í landsliðinu og einn okkar besti línumaður en í dag fagnar hann 23 árum án áfengis.  11. janúar 1999 er stór dagur í lífi Sigfúsar.  Þá gekk hann brotinn á líkama og sál inn á Vog í þeirri von að hann myndi komast að því hvað það væri sem myndaði tómarúmið innra með honum. Tómarúm sem stækkaði og stækkaði.

„ …  hvort hægt væri að minnka vonleysið og sársaukann í sálinni og hvort ég væri þess verðugur að eiga líf. Í stuttu þá komst ég að því að 99% af allri eymd og drullu í mínu lífi var mér að kenna en að sama skapi lærði ég að það var til lausn á vandamálinu sem var ég….“

Þegar Sigfús náði þeim merka áfanga að vera án áfengis í 20 ár opnaði hann sig um glímuna við veikindin. Árið 2013 var fjallað um það í DV að Sigfús hefði selt silfurmedalíuna sem hann fékk í Peking. Sigfús átti í miklum fjárhagserfiðleikum á þeim tíma. Sigfús sagði í samtali við Fréttablaðið:

„Vegna medalíumálsins voru fáir sem vildu ráða mig og ég fann fyrir miklum fordómum. En þá kynntist ég Fiskikónginum, Kristjáni Berg. Hann bauð mér í atvinnuviðtal og við ræddum saman í næstum þrjá klukkutíma. Ég lagði spilin á borðið og daginn eftir hóf ég störf hjá honum. Við græddum báðir á þessu því ég fékk vinnu og hann auglýsingu út á mig. Hann aðstoðaði mig mikið og ég er afar þakklátur fyrir það.“

Sigfús starfaði í fjögur ár hjá fiskikónginum áður en hann ákvað að opna Fiskbúð Fúsa.

„Ég mæti snemma og er flottur og hreinn á morgnana. Um hádegið er ég farinn að lykta eins og gamall sokkur“.

Sigfús segir á samfélagsmiðlasíðu sinni að hann hafi snúið við blaðinu með aðstoð fjölskyldu og vina og kveðst Sigfús ekki endast ævin til að endurgjalda sínum nánustu þá gjöf sem líf hans er í dag. Sigfús segir:

„Ég geri en þann dag í dag endalaust af mistökum en hef tækin og vopnin innra með mér til að taka á þeim þegar þau gerast. Þið sem stóðuð þétt við bakið á mér, takk fyrir lífgjöfina og ég elska ykkur af allri minni tilvist.“

Ekki missa af...