Leiguverð í Reykjavík hækkar og hækkar

Ólafur Margeirsson skrifar:

Leiga er byrjuð að skríða upp á við á ný á höfuðborgarsvæðinu, eins og við mátti búast samhliða lægra atvinnuleysi og hækkandi tekjum fólks.

4-herbergja íbúðir eru þannig komnar aftur upp fyrir 250þ. á mánuði og þá er leiguverðslækkunin á 3-herbergja íbúðum, sem var mjög tímabundin, öll gengin til baka. Eins og við mátti búast var lækkunin hvað minnst á þeim gerðum íbúa sem hvað mestur skortur er á, þ.e. tveggja herbergja íbúðum en leiga á þeim hefur verið stöðug í kringum 175-180þ síðan 2019.

Markaðurinn með stúdíóíbúðir er svo því miður svo lítill – langmestur fjöldinn er vestan við Kringlumýrarbraut og sérstaklega ætlaður námsmönnum – að erfitt er að henda reiður á hver dýnamíkin er á þeim markaði, önnur en að leiga hefur hækkað frá miðju ári 2020, eða um það leyti þegar efnahagsbatinn byrjaði.

Þá er athyglisvert að leiga á höfuðborgarsvæðinu hefur verið mjög stöðug, á heildina litið, frá 2019. Ein mikilvæg ástæða er stóraukið byggingarmagn.

Rétt að taka það fram að grafið sýnir nafntölur en ekki rauntölur. Ég set rauntölurnar í mánaðarlega efnahagsyfirlitið sem ég birti á Patreon síðunni minni um miðja næstu viku eða svo.

Höfundur er doktor í hagfræði.

Ekki missa af...