Lausnin að fela kattaklósettið er einfaldari en þú heldur!

Viska er besta vinkona mín, ótrúlega fyndin og skemmtileg týpa. Ofdekruð er hún þó og hún stjórnar mér með fjarstýringu liggurvið, ég geri allt fyrir hana!

Þar sem hún er innikisa þarf að sjálfsögðu að vera kattaklósett, sem er ekkert endilega mjög smart inni á fallegu baðherbergi til dæmis. Síðan ég fékk hana hef ég búið á tveimur stöðum þar sem er ekki sér þvottahús, heldur baðherbergi og þvottahús saman. Algengt er að kattaeigendur geymi kattaklósettið inni í þvottahúsi þar sem hann er ekki fyrir augunum á neinum.

Hvernig í ósköpunum er þá hægt að fela þennan blessaða kassa sem er bæði plássfrekur og ekki flottur í útliti?

Ég fékk þá hugmynd, sem mundi gera það að verkum að við báðar mundum ganga sáttar frá borði.

Ég fór í Kompuna, sem er nytjamarkaður í Keflavík og þar var þessi fína kommóða sem ég fékk á slikk. Hún passaði fullkomlega undir þvottavélina inni á baðherbergi og lúkkaði vel.

Kommóðan fæst ný í IKEA

Ég byrjaði á að styrkja kommóðuna vel með spýtum í öll horn víst að þvottavélin var að fara að sitja ofan á henni. Tók engan séns með að láta kommóðuna hrynja undan vélinni.

Ég sagaði svo með multi sög úr hliðinni á neðstu skúffunni og skápnum sjálfum „hurðargat“.

Multi sög

Hugmyndin var sú að Viska myndi fara undir skúffu innréttinguna við hliðina og þaðan inn um þetta tiltekna hurðargat á kommóðunni.

Ég tók efri skúffurnar tvær úr og festi framan af skúffunum á skápinn svo lofthæðin var fullkomin fyrir Visku þegar hún var inni í kommóðunni. Svo þessar tvær efri skúffur eru ekki alvöru. Þessi op framan á skúffunum hentuðu einnig mjög vel til að það væri ekki svartamyrkur hjá henni.

Viska elskaði þessa nýju klósettaðstöðu um leið.

Ótrúlega ánægð með hversu vel þetta heppnaðist og nýttist. Ég einfaldlega þurfti ekki annað en að draga neðstu skúffuna út, moka og og þrífa kassann hennar og loka aftur. Málið dautt.

Mæli með! 🙂

Ekki missa af...