Landvernd lýsir yfir neyðarástandi: Aðgerðir ekki tilgreindar hjá ríkisstjórn

„Eitt er að setja sér framsækið markmið, annað að tilgreina nauðsynlegar aðgerðir til að ná því markmiði.“ 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í yfirlýsingu Landverndar um sáttmálann en þar hallar á náttúruvernd og aðgerðir eru ekki tilgreindar í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar.

Í sáttmálanum segir að loftslagsmál verða sett í forgang og að Ísland setji sér sjálfstæð markmið um losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt yfirlýsingunni liggur þó ekki fyrir um hvað skal gera með umræddum aðgerðum.

„Stjórnarsáttmálinn er bæði fáorður og óljós um leiðir að þessu markmiði. Fáein ár eru til stefnu og því mikilvægt að uppfæra fyrirliggjandi aðgerðaráætlun fljótt og vel og leggja fram sannfærandi tímasettar aðgerðir og áfanga að þessum markmiðum. Ríkisstjórnin verður einnig að útskýra hvað felst í „kolefnishlutleysi“ Íslands gagnvart landnýtingu og losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Loftslagsmál snerta marga málaflokka og því er það fagnaðarefni að forsætisráðuneytið skuli fá það hlutverk að samræma allar stjórnvaldsákvarðanir er lúta að markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda,“
segir í yfirlýsingunni.

ENGIN SÉRSTÖK STOFNUN NÁTTÚRUVERNDAR

Ein helsta gagnrýni Landverndar er um umhverfisráðuneytið sjálft, en Guðlaugur Þór Þórðarson verður ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Í yfirlýsingunni er það sagt slæmt að skipulagsmál séu slitin úr samhengi við náttúruvernd, en þau verða færð yfir í nýtt innviðaráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Í yfirlýsingunni segir að fara þarf varlega í uppbyggingu vindorkuvera á landinu, en í stjórnarsáttmála stendur að greiða eigi götu þeirra með sérlögum. Samkvæmt Landvernd eiga vindorkuver að vera hluti af rammaáætlun, annað dragi úr faglegri ákvarðanatöku.

Fyrri ríkisstjórn hafði unnið að náttúruverndarstofnun sem er ekki talað um í sáttmálanum. Samkvæmt Landvernd mun náttúran eiga undir högg að sækja.

Einnig er erkkert minnst á áherslur um að draga úr óhóflegri neyslu, sem þýðir að ekki er stefnt að skilvirku hringrásarhagkerfi. Það sé mikilvægt að framfylgja stefnu í úrgangsmálum og fara í átt að hringrásarhagkerfi.

LÝSA ÞARF YFIR NEYÐARÁSTANDI

Í lok yfirlýsingarinnar eru ellefu atriði sem Landvernd telur mikilvægt að setja í forgang. Hið fyrsta er að lýsa þurfi tafarlaust yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.

Þar á meðal er það lögfesting á markmiðum í loftslagsmálum með stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsalofttegunda. Því er bætt við að þetta megi ekki auka á misskiptingu í samfélaginu.

Einnig þarf að innleiða ákvæði um umhverfis- og náttúruvernd í stjórnarskrá.

Áfram er lögð áhersla á stofnun þjóðgarðs til að vernda hálendið.

Síðast en ekki síst er það að koma böndum á umhverfisáhrif fiskeldis í sjókvíum.

11 nauðsynlegar aðgerðir í framhaldinu

Stjórn Landverndar kveðst vilja nýta þessi tímamót til að tilgreina þau mál sem samtökin telja að eigi að hafa forgang og hvetur ríkisstjórnina til að veita þeim stuðning í starfinu sem framundan er.


1. Lýsa strax yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og bæta stjórnsýslu loftslagsmála tafarlaust.

2. Setja fram framkvæmdaráætlun um Jarðefnaeldsneytislaust Ísland 2035 og bann við innflutningi á bensín- og díselbílum frá 2023, sem lagt yrði fyrir Alþingi á næsta löggjafaþingi.

3. Lögfesta markmið í loftslagsmálum og koma stighækkandi gjaldi á alla losun gróðurhúsaloftegunda – en tryggja um leið að gjaldið auki ekki á misskiptingu í samfélaginu (á næsta löggjafaþingi).

4. Lögbinda ákvæði Árósasamningsins um réttindi umhverfissamtaka, samræma lög um mat á umhverfisáhrifum skv. alþjóðlegum skuldbindingum og innleiða ákvæði um umhverfis- og náttúrvernd í stjórnarskrá (fyrir árið 2024).

5. Heimila sveitarfélögum að leggja gjöld á nagladekk í þeim tilgangi að draga úr notkun þeirra og bæta þannig loftgæði og heilsufar íbúa (á næsta löggjafaþingi).

6. Stofna þjóðgarð til að styrkja vernd hálendisins, auka öryggi og bæta aðgengi gesta, endurskipuleggja stjórnsýslu náttúruverndar til að efla hana og hagræða,

7. Að fylgja eftir vinnu við rammaáætlun, og setja á ótímabundið bann við frekari virkjunum á hálendinu (á þarnæsta löggjafarþingi).

8. Gera stórtækt átak til endurheimtar vistkerfa svo sem eins og votlenda og stöðva beit á illa förnu landi. Bæta og fylgja eftir lögum og reglum um framandi ágengar tegundir og lögum er varða lausagöngu búfjár (fyrir árslok 2022).

9. Innleiða umbætur á styrkjakerfum svo tryggja megi sjálfbæra landnýtingu og matvælaframleiðslu (fyrir árslok 2023).

10. Framfylgja af krafti stefnu í úrgangsmálum „í átt að hringrásarhagkerfi“ og opna með lagabreytingum aðgengi almannahagsmunasamtaka að stjórn Úrvinnslusjóðs (á næsta löggjafaþingi).


11. Koma böndum á og stöðva neikvæð umhverfisáhrif fiskeldis í sjókvíum með nauðsynlegum umbótum á lögum og reglum sem um það gilda (fyrir árslok 2022).

Ekki missa af...