Kulnaðir áhrifavaldar

Brynjar Níelsson skrifar:

Ég hef oft verið spurður að því hvort ég hafi engin önnur áhugamál en almenn leiðindi. Því er til að svara að ég hef eitt annað áhugamál, sem eru íslenskir áhrifavaldar. Það má segja að þetta áhugamál sé að breytast í þráhyggju enda oft mjög áhugavert fólk sem telst til áhrifavalda.

Ég tek eftir því að ég er ekki einn með þetta áhugamál. Íslenskir fjölmiðlar gefa okkur daglega góða innsýn í líf þeirra.

Starf áhrifavaldsins hefur breyst mikið á skömmum tíma. Í upphafi voru þetta bara Bubbi og nokkrar fegurðardísir, sem birtu myndir af sér léttklæddum og fræddu okkur um tísku og skemmtanalífið.

Nú eru þessir sömu áhrifavaldar orðnir aktívistar í loftslagsmálum, femínisma og útilokunarmenningu. Eins og í öðrum erfiðum störfum er farið að bera á kulnun og kvíða hjá áhrifavöldum. Og við sem höfum glímt við kulnun og kvíða fengum skýr skilaboð frá áhrifavöldum:

„Það er alveg óþarfi að mæta í vinnuna þegar við erum þreytt og leið.“

Hvernig væri líf okkar eiginlega ef við hefðum ekki þessa áhrifavalda?

Eftir Brynar Níelsson. Höfundur er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Ekki missa af...