Kristófer um endurkomuna – Erfitt að vera á milli tímabelta: „Við erum að springa úr spennu“

„Það er alveg sjúklega mikil tilhlökkun. Við getum eiginlega ekki beðið. Vikan bara líður ekki nógu hratt, við erum að springa úr spennu.“

Þetta segir Kristófer Jensson, söngvari hljómsveitarinnar Lights on the Highway í samtali við 24. Hljómsveitin heldur tvenna tónleika um helgina eftir þriggja ára hlé. Meira nýtt efni er í vændum og mikil spenna er fyrir tónleikunum, eins og sést.

Tónleikarnir verða 30. og 31. október í Aurora Basecamp nálægt Hafnarfirði. Soffía Björg hitar upp og spilar efni af plötu sinni sem kemur út núna á föstudaginn.

Sjá einnig: Lights on the Highway snýr aftur


LÁ ALLTAF BEINAST VIÐ AÐ TAKA UPP ÞRÁÐINN

Lights on the Highway var stofnuð árið 2003. Fyrsta platan þeirra kom út árið 2005, samnefnd hljómsveitinni. Seinni platan, Amanita Muscaria kom út árið 2009. Þeir voru virkir á tónleikasenunni allt þar til árið 2012 þegar þeir tóku sér hlé. Síðan þá hafa þeir komið saman sjaldan. Árið 2015 spiluðu þeir á Eistnaflugi og árið 2018 héldu þeir tvenna tónleika í Hard Rock og gáfu út þrjú ný lög, þar af tvö á íslensku.

En hvers vegna svona langt hlé?

mynd af hljómsveit
Meðlimir Lights on the Highway eru Karl Daði Lúðvíksson, Kristófer Jensson, Agnar Eldberg Kofoed-Hansen og Þórhallur Stefánsson. / Mynd: Björn Árnason

„Við vorum ekki allir í sömu heimsálfunni, það var eiginlega bara það. Getur verið erfitt að vera á milli tímabelta. Núna erum við allir á sama punktinum og styttra í að hittast og spila. Það lá alltaf beinast við að taka upp þráðinn.“

Kristófer tekur fyrir að hljómsveitin hafi verið stopp. „Við höfum bara legið í dvala, höfum ekkert hætt. Náttúrulega búnir að koma saman nokkrum sinnum, núna síðast árið 2018 þannig að við vorum bara í hléi.“


SPENNANDI STAÐSETNING OG UPPLIFUN

Tónleikastaðurinn er nokkuð óhefðbundinn, en í þetta skiptið er það Aurora Basecamp sem er nokkrum kílómetrum frá Völlunum í Hafnarfirði. „Það er svolítið skemmtileg pæling sem kviknaði einhvern tímann í sumar að búa til upplifun sem er ólík þessari tónleikaupplifun í miðbæ Reykjavíkur. Sviðsetja og búa til svona heildar skynjun. Þessi staður er einstakur til þess.“

Hann segir það mikilvægt að búa til eitthvað sem er ekki alltaf eins. Staðsetningin er vinsæll norðurljósastaður.

„Þetta er mjög spennandi, náttúrulega orðin þrjú ár síðan við spiluðum síðast fyrir fólk, sem er eitt af því skemmtilegasta sem við gerum. Það að gera fyrstu tónleikana okkar eftir þennan dvala á svona sérstökum stað er skemmtilegt.“


NÝTT EFNI Á LEIÐINNI

Tónlistarkonan Soffía Björg hitar upp fyrir Lights bæði kvöldin. Hún mun spila efni af plötu sinni sem kemur út föstudaginn 29. október. Eins og Soffía hefur lýst í samtali við 24 hafði meðlimur Lights samband við hana í gegnum Instagram og bauð henni að hita upp.

Soffía Björg gefur út nýja plötu á föstudaginn. / Aðsend mynd

„Hún er bara að gera frábæra hluti,“ segir Kristófer um valið á Soffíu. „Já, í rauninni bara það. Hún er með áhugaverðan hljóm, fær í því sem hún gerir og er á mikilli siglingu. Hún passar bara vel við okkar hljóm, þetta lá bara beinast við.“

En geta aðdáendur Lights on the Highway hlakkað til nýs efnis? „Já, það er alveg hægt að segja það. Við tókum upp nýtt efni í sumar og erum að vinna að nýrri plötu, ekki nein tímasetning komin á hana en það kemur þegar hún er klár.“

Hægt er að nálgast miða á tónleikana hér.

Ekki missa af...