Krísa í Krónunni og fátækir í sárum: Verslunarstjóri gefst upp fyrir pörupiltum, vopnuðum hnetum og tannkremi

„Það er afskaplega sorglegt að geta ekki boðið upp á gefa nothæfar matvörur vegna skemmdarfýsnar nokkurra einstaklinga,“

Þetta segir Matthías Ingi Árnason verslunarstjóri Krónunnar á Selfossi vegna ástands sem upp er komið og þykir ef til vil afar sérstakt. Þar koma við sögu útrunnin gefins matvaram, glerkrukkur, hnetur, rúllustigi og tannkrem. Íbúar á Selfossi eru afar ósáttir við framgöngu þeirra sem ábyrgð bera á skemmdarverkum þeim er orðið hafa til þess að Krónan hefur ákveðið að allar matargjafir verða slegnar út af borðinu.

Krónan á Selfossi hefur nýtt útrunna matvöru til gjafa fyrir hina efnaminni á Suðurlandi. Hægt hefur verið að nálgast matvöruna fyrir aftan kassasvæðið. Nú hefur verslunarstjóri Krónunnar upplýst að tekið verði fyrir slíkar gjafir. Ástæðan? Jú, hún er einföld, matvöruna hefur ódæll ungdómurinn nýtt til ýmissa skemmdarverk og nýta pottormarnir helst tannkremið, glerkrukkur og hnetum er stráð yfir rúllustigann. Kostnaður vegna uppátækjanna mun vera nokkur. Matthías Ingi Árnason verslunarstjóri segir upplausnarástand hafa verið í versluninni og því miður ekki lengur í boði fyrir fátæka Selfyssinga að fá frían útrunninn mat frá Krónunni.  

Ímyndunarafl krakkana er talsvert og segja íbúar að útrunnið tannkrem, gjöf Krónunnar sé dreift um allan bæinn.

Krónan vill vel

Matvöruverslunin Krónan á Selfossi hefur látið gott af sér leiða á Suðurlandi með ýmsum hætti. Yfirlýst markmið er að sýna samfélagslega ábyrgð í verki og þannig hafa íþróttafélög, skólar og björgunarsveitir á Suðurlandi hlotið veglega styrki frá matvöruversluninni. Þá hefur Matthías Ingi Árnason, verslunarstjóri Selfossverslunar Krónunnar, ásamt hans vaska starfsfólki, gefið snauðum Sunnlendingum og þeim er búa við sultarkjör, fría matvöru. Matvörunni hefur verið stillt upp fyrir aftan afgreiðslukassana og viðskiptavinum boðist að þiggja matvöru sem samkvæmt dagsetningu er komin yfir síðasta söludag.

Margir Sunnlendingar, sérstaklega þeir er lifa undir fátækramörkum, hafa nýtt sér dýrmætar matargjafirnar. Félitlir Sunnlendingar hafa tekið frírri fæðunni af djúpu þakklæti og erfið og snúin ákvörðun Matthíasar Inga mun koma verst niður á  þeim er búa við sára fátækt en sumir sem hafa þegið matargjafir krónunnar eru alleysingar er búa við eymdarkjör.

Útrunnin matvara gómsætt hnossgæti

Þó söludagurinn segi að ekki eigi að neyta matvörunnar eftir ákveðin dag er margt af því sem áður endaði í ruslagámnum vel ætt, jafnvel hið mesta hnossgæti jafnvel gómsætur veisluréttur.

Það hefur færst í vöxt að matvöruverslanir hafi tekið upp þann sið að bjóða matvöru er nálgast síðasta söludag fyrir lítið eða gefins líkt og í tilfelli Krónunnar á Selfossi. Matthías Ingi upplýsti hryggur í félagsskap Selfyssinga á samfélagsmiðlum að um sinn yrði ekki í boði ókeypis útrunninn matur.  Róðurinn fram undan verður því þungur fyrir snauðari Selfyssingar og aðra févana Sunnlendinga er notið góðs af þessari gestrisni Krónunnar.  

Tannkrem, hnetur og glerkrukkur nýtt til illra verka

Stutt er í jólamánuð og þeir sem stefna matargjöfinni í hættu að sögn viðskiptavina eru nokkrir pörupiltar. Ódámarnir eru sakaðir um að nota matargjöf Krónunnar til skemmdarverka í húsinu þar sem Krónan, Lyf og heilsa, Nóva og Rúmfatalagerinn eru til húsa. Undir mannvirkinu er feikistór bílakjallari og það er einmitt í kjallaranum sem pottormarnir hafa unnið mörg af sínum spellvirkjum. Glerkrukkum grýta óknyttadrengirnir í veggi.

Önnur óhæfuverk felast í að hinir ungu skálkar kreista líka tannkrem á veggi og klína og maka á yfirborðsfleti. Matthías Ingi segir hina ungu syndaseli ekki láta þar við sitja og sakar þá um að smyrja tannkremin líka á gler. Þau sem glímt við að ná tannkremi af yfirborðsflötum salerna  vita hvað slík þolraun útheimtir og nokkur glíma að fjarlægja klístrað og límkennt tannkrem sem náð hefur að herðast og er líkast steypu sé það ekki fjarlægt undir eins.  

Bílastæðakjallarinn þar sem ýmis ódæðisverk eru framin

Selfyssingar segja foreldrana sökudólga

Einn Selfyssingur segir hina ungu kóna svara með kjaftbrúk og þá eru krakkarnir sakaðir um að nýta búðarkerrur sem leikföng. Segir sá sami íbúi að bíll hans hafi orðið fyrir skemmdum og kallar eftir að öryggisvörður verði fenginn til að standa vaktina. Annar íbúi upplýsti með hryllingi að ekki aðeins væri tannkremi dreift í og við verslun Krónunnar. Sá Selfyssingur kveðst hafa orðið var við að tannkremi væri dreift og klístrað út um „allar koppagrundir á Selfossi.“ Viðkomandi bjó ekki yfir vitneskju hvort hinir ungu kumpánar hefðu farið á flakk og látið til skarar skríða utan bæjarmarkanna. Bætti íbúinn við að sauðirnir væru margir á Selfossi og allir svartir og þá þyrfti að fræða og endaði á að segja að „sjaldan væri góð vísa of oft kveðin.“

Aðrir íbúar vilja setja upp eftirlitsmyndavélar og að „mikið klúður“ að ekki séu fleiri til að filma fyrir yfirvöld í bænum. Flestir vildu meina að þarna væri við foreldra prakkarana að sakast. „Það er ekkert uppeldi,“ segir einn íbúanna á meðan annar bætir við að ekki megi segja eitt orð við börn  í dag og engar líkur á að foreldrar barnanna taki á vandamálinu og subbuskapnum.

Bómullaruppeldi sökudólgurinn

„Svona er bómullaruppeldið,“ segir Selfyssingur og telur suma foreldra búa til vesalinga. Sá hinn sami fullyrðir að ef um hans barn væri að ræða myndi hann senda son sinn að þrífa upp skítinn og væri „drullsama þó fólk teldi hann stunda barnaþrælkun.“

Þá stinga íbúa á Selfossi uppá að lögreglan gangi í málið og taki það föstum tökum. Ribbaldahætti villinganna er einna helst skellt á foreldrana og fær ágætan hljómgrunn þegar stungið er uppá að lögreglan ræði við börnin á meðan annar íbúi telur það ekkert gagn gera að láta pjakkana þrífa upp eftir sig og segir: „Foreldrarnir gera það pottþétt ekki og ef einhver fullorðinn hastar á þessa grislinga þá er það lögreglumál.“

Illt í efni fyrir efnaminni

Matthías Ingi og annað starfsfólk eru nánast úrkula vonar að leysist úr þessu leiðindamáli en vill alls ekki gefast upp svo fátækir megi nóta matargjafanna.

„Kostnaður og tími (hefur) farið í þrif og viðgerðir eftir að maturinn sem ætlaður var meðal annars fólki sem á ekki mikið á milli handanna, var þess í stað bruðlað af fólki með skemmdarfýsn.“

Það er því illt í efni fyrir hina efnaminni á Suðurlandi. Matthías Ingi segir að um tímabundna ákvörðun sé að ræða. Þá tekur verslunarstjórinn fram að  algjörlega sé óhætt að neyta matvörunnar þó dagsetning segi annað.

„Við munum finna aðrar leiðir til að gefa vörurnar frekar en að farga þeim,“ segir Matthías Ingi og vonar að um fámennan hóp sé að ræða. Þá óskar verslunarstjórinn þess að skemmdarvargarnir sjái að sér og láti af ódæðisverkum sínum. Matthías Ingi segir það afskaplega sorglegt að geta ekki, sökum skemmdarverka nokkurra ungra kóna. Mattías ítrekar að leitað verði logandi ljósi að lausn. Verslunarstjórinn bætir við að hann vonist til að málið leysist svo verslunin og starfsfólk hennar geti haldið áfram að láta gott af sér leiða.

„Það er afskaplega sorglegt að geta ekki boðið upp á gefa nothæfar matvörur vegna skemmdarfýsnar nokkurra einstaklinga.“

Ekki missa af...