Kraftaverkið á Þorkeli Mána: „Ég hugsaði alltaf af og til að nú væri þetta bara að verða búið

Í febrúarmánuði árið 1959 bjargaðist áhöfnin á togaranum Þorkeli Mána eftir að hafa lent í ofsaveðri á miðunum við Nýfundnaland. Í þrjá sólarhringa börðu skipverjar ísingu af skipinu án þess að una sér hvíldar og minnstu munaði að skipið hvolfdist í hafið. Á undraverðan hátt lifðu þeir allir af en annar togari, Júlí, fórst með allri áhöfn.

Heyrðu neyðarkall frá dönsku skipi

Togarinn Þorkell Máni RE-205 var keyptur af Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1952 frá bænum Gool í Englandi. Þetta var dýrasti togarinn af átta sem keyptir voru, kostaði rúmar tólf milljónir króna og var nefndur í höfuðið á Þorkeli Mána lögsögumanni, sonarsyni Ingólfs Arnarssonar landnámsmanns. Flestir togarar voru knúnir með gufu á þessum tíma en Þorkell Máni var díseltogari og því öflugri.

Á Þorkeli Mána var 32 manna áhöfn og frá árinu 1956 var Marteinn Jónasson skipstjóri. Þetta var fengsælt skip sem veitt hafði vel þau ár sem Marteinn stýrði því. Í lok janúar árið 1959 hélt skipið á miðin við Nýfundnaland í Kanada til veiða og 4. febrúar var skipið komið á veiðisvæðið en þar voru einstakelga gjöful karfamið.

Ferðin hófst á nöturlegan hátt því á leiðinni út heyrðu skipverjar neyðarkall frá dönsku Grænlandsskipi, MS Hans Hedtoft. Það hafði rekist á borgarísjaka í jómfrúarferð sinni og var á leiðinni niður. Of langt var fyrir Þorkel Mána og önnur skip að koma til aðstoðar og því sökk Hans Hedtoft með 95 manns, þar af fimm börnum, á milli Grænlands og Danmerkur. Eitt versta sjóslys í sögu Danmerkur og Grænlands.

Ofsaveður skellur á

Þorkell Máni var í þrjá daga við Nýfundnaland, veðrið var sæmilegt og veiðar voru góðar. Skipverjar voru kátir og glaðir þó að vinnan væri mikil. Föstudaginn 7. febrúar var skipið orðið drekkhlaðið, ofhlaðið í raun. Tonnin voru orðin 350 talsins og því mikill fengur fyrir bæði útgerðina og sjómennina sjálfa en þetta skapaði hættu sem þeir sáu ekki fyrir. Fleiri togarar voru á veiðum á svæðinu, þar með taldir íslensku togararnir Pétur Halldórsson, Bjarni riddari, Marz og Júlí. Íslensku skipin veiddu öll í hnapp á litlu svæði.

Um leið og Þorkell Máni var fullur skall á óveður. Skipið var gert sjóklárt á laugardeginum og siglt upp í sjó og vind sem jókst stöðugt. Um miðnætti var vindur kominn uppí 12 vindstig, það var frost og mikill sjógangur. Skipstjórinn hafði búist við slæmu veðri en ekki slíkum ofsa. Í bók Óttars Sveinssonar, Útkall: Í hamfarasjó er því lýst hversu hratt óveðrið skall á en Þórður Guðlaugsson, yfirvélstjóri var þá á þilfarinu:

„Skipið okkar var orðið mjög þungt og sigið af aflanum, hundruð tonna voru í lestunum. Þorkell Máni hafði því lítið borð fyrir báru. Veðrið var orðið það vont að okkur tókst ekki að ganga frá trollinu. Það var látið liggja á þilfarinu.

Nú var ekki hægt að binda veiðarfærin upp í síðurnar eins og venjulega. En vírar voru strekktir yfir trollið. Svo fór menn bara inn.“

Skáru björgunarbátana í burtu

Um nóttina frysti hratt og skipið fór að yfirísast svo að það lagðist á bakborðshliðina. Allir skipverjar voru kallaðir út til þess að berja ísinn af skipinu og bakborðsbátunum var sleppt í hafið til að létta það þeim megin. Þegar það tókst rétti skipið við sér en lagðist þá á hina hliðina og losuðu skipverjar þá bátana stjórnborðsmegin. Ekkert gagn var af björgunarbátum í slíku veðri, þeir hefðu týnst og sokkið um leið.

Skipverjarnir máttu hafa sig alla við að berja ísinn af skipinu. Notuðu þeir til þess öll verkfæri sem þeir komust í, sleggjur, spanna, járnbolta og fleira. Engar axir voru um borð, en þær eru bestar til að losa ís.

Marteinn sagði við blaðamenn Morgunblaðsins eftir slysið:

„Skipshöfnin sýndi mikla hörku og dugnað við þetta starf, enda var hún samvalin, allt vanir sjómenn og þrekmiklir. Þrátt fyrir klakabarninginn fékk skipið hvað eftir annað hættulegan halla ýmist á bak eða stjórn og var þá horfið að því ráði að logskera bátuglurnar (eða davíðurnar) í sundur.“

Kraftaverk að enginn skyldi falla útbyrðis

Oft var erfitt að sjá hvar ís var að myndast og stundum mynduðust heilu klakabeltin á göngunum, spilinu og víðar. Í svo mikilli ísingu munaði um hvert kíló því að það þurfti að halda þyngdarpunktinum á réttum stað. Til tals kom að fella möstur skipsins því að ekki tókst að halda þeim íslausum.

Skipverjar fengu sjóinn yfir sig þar sem þeir reyndu að berjast við ísinguna í myrkri og hríðarbyl. Klakakrap fór innan á stakka þeirra og ofan í stígvélin. Menn reyndu að skiptast á að fara inn og þurrka sig en það var erfitt því að rafmagnsofnanir biluðu sem og flest annað. Inni var líka frost og lítið sást út um gluggana. Skipskokkurinn Sigurgísli sá þó til þess að menn fengju orkumikið kjöt að borða allan tímann.

Skipverjar ríghéldu sér en hentust engu að síður til og frá í ölduganginum og oft mátti litlu muna að þeir færu útbyrðis. Í raun var það kraftaverk að enginn skyldi fara í sjóinn.

Gefið var út neyðarkall til nálægra báta. Skipverjar á Júní svöruðu fyrst, síðan á Bjarna riddara og Marz en það reyndist erfitt að finna Þorkel Mána og komast nálægt honum. Ekkert var hægt að gera annað en að berja linnulaust, án hvíldar og án svefns. Önnur skip áttu einnig í baráttu við veðrið og ísinguna. Af og til höfðu skipin samband sín á milli til þess að sjá hvernig gengi og hvort hægt væri að komast nær.

Einn slasaðist og annar bugaðist

Á sunnudagsmorgninum kom stór gusa á skipið og annar stýrimaður, Sigurður Kolbeinsson, sem stóð frammi á hvalbak að berja, fékk hana yfir sig. Féll hann og lenti á bakinu þannig að hann slasaðist illa. Var hann borinn inn í hásetaklefa og búið að honum.

Oft varð ísingin slík á sunnudeginum að Þorkell Máni seig á aðra hvora hliðina og einu sinni sýndi hallamælirinn 60 gráðu halla. Olíu var dælt milli síðutanka til að reyna að rétta skipið af og skipstjórinn sýndi ótrúlega lagni og útsjónarsemi við að stýra skipinu. Stundum virtist skipið vera að rifna í sundur við átökin.

Ástandið reyndi líka mikið á skipverjana andlega og vonleysið heltók þá. Þórður yfirvélstjóri sagði:

„Ég hugsaði alltaf af og til að nú væri þetta bara að verða búið. Næsta alda sem kæmi yrði sú síðasta, hún myndi færa okkur á kaf… Mér fannst þetta vonlaus staða.“

Sumir misstu kjarkinn tímabundið og aðrir alveg. Einn var sendur inn í herbergi vegna þess að hann var algerlega gagnslaus og brotinn. Þetta var neyðin í sinni tærustu mynd. Ofan á hræðsluna við dauðann og óttann um fjölskyldurnar heima bættist svefnleysið, þreytan og kuldinn.

Bryggjan troðfull

Um klukkan átta á sunnudagskvöldið heyrðist í síðasta skiptið í Júlí og gekk þá ágætlega hjá þeim. Svo sást loks ljós frá Marz. Ræddi Marteinn þá við Sigurgeir Pétursson, skiptstjóra Marz, um björgun á mönnum ef til þess kæmi. Myndu þeir þá setja gúmmífleka yfir af öðru hvoru skipinu.

Á mánudeginum hafði veðrið batnað örlítið og á þriðjudagsmorgun var hægt að sigla í áttina að Íslandi. Sigldu Þorkell Máni og Marz þá í samfloti en þá var áhöfnin á Þorkeli Mána úrvinda eftir tvo og hálfan sólarhring af barningi. Þar að auki var botnfreðið í öllum vatnstönkum nema einum.

Marteinn Jónasson á blaðamannafundi. Tíminn 17. febrúar 1959.

Aðfaranótt sunnudagsins 15. febrúar, klukkan hálf þrjú, kom Þorkell Máni til hafnar í Reykjavík. Þá var enn ís á þilfarinu. Bryggjan var troðin af fólki en þar ríkti dauðaþögn því ekki höfðu öll skipin á Nýfundnalandsmiðum skilað sér í höfn. Sjúkrabíll var á bryggjunni til að sækja hinn slasaða mann og þegar skipverjarnir stigu í land föðmuðu þeir ástvini sína þéttingsfast með tár á hvarmi.

Þjóðarsorg

Ekkert meira heyrðist frá togaranum Júlí eftir klukkan átta á sunnudagskvöldið viku áður. Júlí var í eigu Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og á honum þrjátíu manna áhöfn. Í viku eftir óveðrið var leitað að togaranum á skipum og flugvélum en ekkert fannst. Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Sovétmenn tóku þátt í leitinni. Þriðjudaginn 17. febrúar tilkynnti útgerðin að Júlí væri talinn af með allri áhöfn.

Um 300 Íslendingar voru á veiðum við Nýfundnaland þessa febrúardaga og mikil lukka að flestir skyldu snúa til baka. En þjóðarsorg ríkti vegna mannanna 30 sem fórust með Júlí og vegna annars slys sem varð daginn eftir að tilkynnt var að Júlí var talinn af. Þá fórst vitaskipið Hermóður með tólf manna áhöfn við Reykjanes.

Ekki missa af...