Klámfengið efni rataði í Strumpana: „Algjörlega óviðeigandi að öllu leyti“

Í janúarmánuði árið 1992 fengu Neytendasamtökin inn á borð til sín óvenjulegt mál sem átti eftir að verða nokkuð áberandi í fjölmiðlum, svokallaða Strumpaklámsmál. Í dag telja margir þetta vera flökkusögu en þetta er hins vegar dagsatt og er hermt að klámefni hafi ratað inn á myndbandsspólur með Strumpaþáttum.

Í Þjóðviljanum 22. janúar þetta árið segir frá foreldrum sem í sakleysi sínu fór út á myndbandaleigu og leigðu spóluna Strumparnir 1 fyrir börnin. Spólunni var rennt í tækið fyrir börnin en þegar hún var búin komu börnin fram og sögðu við foreldrana að það væri „eitthvað ljótt á spólunni líka.“

Málið olli miklu umtali á sínum tíma og fengu neytendasamtökin í heildina tvö sams konar mál inn á borð til sín og fólu í kjölfarið lögmanni sínum að kæra Steinar Berg Ísleifsson, sem gaf út Strumpana á spólum á þeim tíma.„Neytendasamtökin og ríkisfjölmiðlar láta eins og það hafi verið ætlunin að selja börnum klám með því að lauma því aftan við Strumpamyndir!“ skrifaði Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins og fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, en hann gagnrýndi fjaðrafokið í kringum málið á sínum tíma. Í pistlinum hélt hann áfram og sagði:

„Krossferð hefst út af þremur eintökum með þessum hætti. Steinar sökkva í delluna með því að reyna að benda á einhvern annan í stað þess að játa bara mistökin. Þjóðfélagið fer á hvolf við að finna Bláa-Strump.

Eina jákvæða við þetta er að nú vitum við fyrir víst að klám er fjölfaldað hér á landi, sem gerir þjóðhagsútreikninga nákvæmari.“

Krakkarnir óvenju hljóðlátir

Steinar Berg Ísleifsson.

Steinar Berg var mjög lengi lykilmaður í íslensku tónlistarlífi, en hann átti til að mynda hljómplötuútgáfuna Steina hf., sem gaf út margar af perlum íslenskrar popptónlistar. Stofnað var nýtt fyrirtæki á rústum Steina, Spor ehf., árið 1993 og svo fór að Skífan keypti það fyrirtæki nokkrum árum síðar.

Í samtali við DV í febrúar árið 2018 sagðist Steinar hafa verið staddur í Cannes í Frakklandi þegar skandallinn með Strumpaspólurnar skall á við upphaf tíunda áratugarins. Hafi hann aldrei séð klámefnið sem um ræðir né orðið vitni af mistökunum sjálfur.

Um var að ræða þáttaspólur með 45 mínútur af efni. Spólurnar sjálfar voru 60 mínútur og átti síðasta korterið að vera autt. „Þetta voru ein eða tvær týpur af spólum og einhverjar 100 eða 200 af þeim sem við vissum nákvæmlega hvert höfðu farið. Þetta var ekki lengi í umferð,“ sagði Steinar við áðurnefndan miðil en þar sló hann á létta strengi og hló að málinu, sem hann taldi jákvætt að hafi ekki dregið í för með sér alvarlegri eftirmála.

„Fólki fannst þetta fyndið, þannig séð. Sérstaklega þegar skýrðist hvernig þetta átti sér stað. Það heyrðust einhverjar sögur um að krakkarnir hefðu verið óvenju hljóðir,“
sagði Steinar. „Þetta hafði enga slíka eftirmála en [málið] var leiðinlegt og algjörlega óviðeigandi að öllu leyti.“

Hætti í viðskiptum skömmu síðar

Hafi ástæðan fyrir þessu klúðri skrifast á þann einstakling sem framleiddi spólurnar fyrir Steinar. „Við fengum umboð til að framleiða Strumpana sem við vissum að við gátum gert í talsvert miklu magni. Við fengum tilboð í framleiðsluna á vídeókasettur og aðilinn sem framleiddi þetta fyrir okkur hafði greinilega notað spólurnar áður, upp að einhverju magni, í einhverja klámmyndaframleiðslu. Við höfðum ekki hugmynd um þetta,“ sagði Steinar.

Steinar sagðist ekki muna hver framleiðandinn var en það var innlendur aðili sem var að reyna að hasla sér völl á myndbandsmarkaðinum. „Við vorum að framleiða gríðarlega mikið af kvikmyndum og slíku og fengum tilboð í þetta verkefni frá þessum aðila sem við höfðum aldrei skipt við áður. Hann skilaði þessu svona og við tókum framleiðsluna og settum hana út í leigur,“ sagði Steinar.

„Við innkölluðum þessar spólur og sendum aftur til hans og fengum lagfæringu á þessu. Við skiptum auðvitað ekki við hann aftur og aðilinn hætti í viðskiptum skömmu eftir þetta.“


Strumparnir, líkt og mörgum er kunnugt, voru teiknaðir af hinum belgíska Peyo í myndasögunni um Hinrik og Hagbarð. Á Íslandi námu þeir land 1979 og tveir bræður tóku þá að sér að tala fyrir kvikindin, Halli og Laddi.

Halli var Haraldur í Skrýplalandi á samnefndri plötu sem kom út það ár og Laddi talsetti svo strumpana í gríðarlega vinsælum teiknimyndum stuttu síðar. Þar talaði hann eins og frægt er orðið fyrir allar persónur Strumpanna.

Ekki missa af...