Karlmenn sem rakka niður konur í leyni: Hulunni svipt af hópnum

Við erum stödd á kaffihúsi. Öll borðin eru þétt setin og málefni líðandi stundar rædd. Við hliðina á klósettinu er herbergi og á bakvið luktar dyr situr hópur tíu karlmanna og gæðir sér á kaffi og bakkelsi. Mennirnir eru allir meðlimir í karlaklúbbi sem telur rúmlega sjöhundruð félaga á öllum aldri og stöðugt fjölgar í klúbbnum. Herbergið er einangrað frá öðrum kaffihúsagestum sem sjá ekki hverjir fara inn og út. Þau heyra því ekki það sem mennirnir láta úr sér.

„Vandamálið er að strákar í dag eiga að hegða sér eins og stelpur,“ segir einn þeirra og fær sér sopa af kaffinu.

„Er búið að nauðga þessu fjósi tvisvar?“ segir annar fastagestur um viðtal sem er á forsíðu blaðs sem hvílir á borðinu. Í áhrifaríku viðtali deilir þolandi kynferðisofbeldis sögu sinni, en frásögnin hreyfir ekki við neinum karlmanni í þessum hóp. Maðurinn tekur því næst upp símann og hlær þegar hann sýnir öðrum í karlaklúbbnum við borðið óviðeigandi grínmyndir á skjánum.

„Þetta eru geðsjúkar drullukuntur,“ segir annar og uppsker hlátur annarra karla.

„Til hvers að vera „sexý“ ef það má enginn „bíta á agnið?“ segir svo einn og allir hrista hausinn.

Ef til vill eru þetta fjarstæðukenndar aðstæður en þetta eru aðeins fáein dæmi um raunverulegar athugasemdir sem hafa fallið í lokaða Facebook hópnum Karlmennskuspjallið. Í hópnum stunda rúmlega 700 karlmenn orðræðu sem einkennist mikið af fyrrgreindum athugasemdum. Konur eru lítillækkaðar og samskipti kynjanna sýnd í staðalmyndum.

Samkvæmt umræðum á hópnum er femínismi óvinur samfélagsins. Þolendur kynferðisofbeldis hafa ávallt önnur markmið en að leita réttar síns. Konur og femínistar vilja ekki jafnrétti, heldur sérstök réttindi um fram karla. Í lýsingu hópsins er sagt að umræðan verði að vera uppbyggileg. Karlarnir á Karlmennskuspjallinu þverbrjóta þessa reglu daglega og ekki er að sjá að nokkur refsing sé fyrir að rakka niður minnihlutahópa. Stjórnendur hópsins eru fimm talsins og sumir þeirra brjóta þessa reglu sjálfir.

Orðræðan á sér djúpar rætur í andfemínisma og vantrausti til kvenna. Þetta kemur heim og saman við öfgakenndari umræðu sem stunduð er af ýmsum hópum kvenhatara, þar á meðal þeirra sem kalla sig incels. Karlarnir tala ötullega gegn tilvist feðraveldisins, mótmæla byltingunni sem varð til með myllumerkinu MeToo og þá hæðast þeir að reynslusögum kvenkyns þolenda kynferðisofbeldis.

Helstu áhugamál þeirra eru, sé tekið mið af þeim ljósmyndum sem deilt er á Karlmennskuspjallinu, bílar, flugvélar og önnur verkfræðiundur. Heimsstyrjaldirnar tvær koma oft við sögu, Jordan Peterson er ein fyrirmynd þeirra og þá hafa þeir gaman að kvikmyndum um kúreka. John Wayne er þeirra maður.

Að minnsta kosti einn virkur meðlimur hópsins bauð sig fram til Alþingis í haust.

Við yfirgefum hið ímyndaða kaffihús og kynnum til leiks Karlmennskuspjallið á Facebook. Hóp þar sem karlmenn ræða á niðrandi hátt um konur, karlfemínista og þolendur kynferðisbrota.

Meðlimir eru rúmlega sjöhundruð og á Facebook-síðunni fer fram svæsin og óvægin hatursorðræða. Á síðustu mánuðum hefur fjölgað stöðugt í hópnum og gengið er sífelt lengra í að tala á niðrandi hátt um hina ýmsu minnihlutahópa.

Hópurinn er lokaður og þarf að sækja um inngöngu. Þá þarf að hafa nokkuð fyrir því að finna hópinn á samfélagsmiðlum.

Hvergi á íslenskri Facebook-síðu er aðra eins orðræðu að finna og orðbragðið er slíkt að rétt er að vara lesendur við áður en lengra er haldið.

Fyndnar myndir og langir pistlar

Þessi mynd, líkt og önnur jörm sem birtast í þessari grein, er tekin beint af hópnum

Í kringum 770 karlar eru í hópnum og þeim fjölgar óreglulega. Umræðan er fjölbreytt en heldur sig í kringum nokkur þemu. Sumir, eins og Arnar Sverrisson, fyrrverandi yfirsálfræðingur geðdeildar á Akureyri, nú eða Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, skrifa langa pistla með hugleiðingum sínum um samskipti kynjanna, trans menningu eða það sem þeir kalla árás á karla og karlmennsku. 

Vinsælt umræðuefni eru fréttir og greinar um málefni líðandi stundar. Mál tónlistarmannsins Auðar, Sölva Tryggvasonar, Ingólfs Sigurðssonar, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, og landsliðsins í fótbolta voru rædd í þaula.

Um slaufumenningu (e. cancel culture) var að ræða í öllum þessum málum samkvæmt meðlimum.

Þessu til viðbótar deila meðlimir efni eins og myndasögum eða memes, jörmum eins og þau hafa verið þýdd á íslensku. Þetta myndefni er í flestum tilvikum and-femínískt eða niðurlægjandi fyrir konur á einhvern hátt.

Það er sjaldgæft að færslurnar hafi annan tilgang en að lítillækka konur eða upphefja karlmenn og gamla tíma þar sem kjarnafjölskyldan réði ríkjum og hlutverk kvenna var allt annað en við þekkjum í dag.

Karlmennskan í fjölmiðlum

Kristinn Sig
Kristinn er einn virkasti meðlimur hópsins

Nokkrir meðlimir hópsins hafa áður verið umfjöllunarefni fjölmiðla. Þar ber helst að nefna Kristinn Sigurjónsson, en ummæli sem hann lét frá sér á hópnum árið 2018 kostuðu hann lektorsstöðu hjá Háskólanum í Reykjavík.

Á meðal þess sem hann sagði var að konur skemmdu vinnustaði fyrir körlum. Hann vildi helst að vinnustaðir yrðu aðgreindir á milli karla og kvenna. Þar hafði kristinn þetta að segja:

„Vandinn er bara að konur reyna alltaf að troða sér þar sem karlmenn vinna, og um leið og þær eru komnar inn, þá byrja þær að eyðileggja hann, því allir karlmennirnir eiga þá að fara að tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti og ef sagður er neðanbeltisbrandari, svo ég nefni ekki klámbrandari, þá er það kynferðisofbeldi.“

Kristinn leitaði réttar síns en hafði ekki erindi sem erfiði, hvorki í Héraðsdómi né Landsrétti.

mynd af ragnari önundarsyni
Ragnar gagnrýndi Áslaugu fyrir að sýna „kynveru sína“

Ragnar Önundarson var gagnrýndur fyrir ummæli sem hann lét falla um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, þáverandi þingkonu, árið 2017. Áslaug birti mynd af sér á Facebook sem Ragnar deildi og skrifaði með:

„Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig.“

Hann skrifaði svo pistil á Facebook til að útskýra mál sitt betur en þar sagði hann að Áslaug hafi „[…] sýnt á sér hlið sem allir hafa, kynveruna, en sem opinberar persónur þurfa að stilla sig um að flagga.“ Hárið hennar Áslaugar var aðeins rakt á myndinni, annars var um að ræða hefðbundna sjálfu.

Arnar Sverrisson var lengi pistlahöfundur á Vísi. Hann skrifaði pistla um sínar eigin túlkanir á ýmsum málefnum, en flestir þeirra tengjast femínisma á einhvern hátt, eitthvað sem hann kallar kvenfrelsun.

Hann vill meina að femínistar neiti að tala um afbrot kvenna og beini frekar allri slíkri umræðu að afbrotum karla. Í löngum pistli um málið vitnar hann meðal annars í nokkra kvenkyns morðingja.

Einnig er honum trans málefni hugleikin, en hann heldur fram að kynröskun sé vel þekkt og margar tegundir til af henni.

„Öllu afdrifaríkari og alvarlegri er sú vitund, tilfinning eða sannfæring, að kynið sér rangt og öfugsnúið. Slík sannfæring getur stuðlað að ásetningi um kynbreytingu eða kynskipti,“ sagði Arnar. Í næstu efnisgreinum tengdi hann kynröskun við alls kyns aðra sjúkdóma eins og geðveiki og geðklofa.

Pistlarnir hans voru birtir vikulega á Vísi.is allt til 18. ágúst árið 2020.

„Hún er andlegur nauðgari og níðingur, það er bersýnilegt“

Eitt algengasta þema hópsins eru umræður um þolendur kynferðisofbeldis. Í einu tilfelli deilir einn tveggja ára gömlu viðtali Stundarinnar við Brynhildi Yrsu Valkyrju. Í viðtalinu lýsir Brynhildur kynferðislegri misnotkun í æsku ásamt því að hafa verið nauðgað eftir Tinder-stefnumót á fullorðinsárum.

Sigfús Atli Unnarsson deilir viðtalinu og veltir fyrir sér málinu í samhengi við ásakanir á hendur Ingó Veðurguðs, en mál hans var að ná hámarki á þessum tíma. 

„Í sambandi við Ingó veðurguð. Hafið þið lesið sögurnar um hann? Þurfa sögurnar ekki að vera trúverðugar til að trúa? Að mínu mati virðast margar sögurnar mjög reifarakenndar og engu líkara en að sama manneskjan skrifi þær margar. Þær minna mig margar á eina sögu sem ég las á Stundinni fyrir tveim árum síðan. Þessi valkyrja er í forsvari fyrir Öfgar. Ég mana ykkur til að lesa þessa grein til enda og lesa svo yfir sögurnar um ásakanirnar á Ingo.“

Mynd af Andresi
Andres Zoran var framjbóðandi Frjálslynda Lýðræðisflokksins

Viðbrögðin meðlima eru öll á sama veg. Eldur Deville, einn af stjórnendum hópsins segir:

„Finnst einhvernveginn líklegra að Brynhildur eigi erfitt með pabba komplexa og höfnun.“

Ríkharður Egilsson segir: „Þetta er svakaleg lesning, en undirstrikar eina ferðina enn gallann á „fræðum“ feminismans um að nauðgun sé algerlega skilgreind út frá upplifun þess er fyrir henni verður.“

Arnar Sverrisson segir: „[…] gæti virst vera atvinnufórnarlamb, menntuð í skóla Stígamóta, og heiðruð þar eins og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.“

Andres Zoran Ivanovic, ferðaskipuleggjandi og frambjóðandi Frjálslynda lýðræðisflokksins í síðastliðnum Alþingiskosningum, kemur með nokkrar athugasemdir. Hann svarar ofangreindri athugasemd Arnars:

„Með tinder áhugamál. Spurning heldur hvernig í hvaða tilgangi hennar Tinder notendanafn er notað..“ Hann segir svo sjálfur í annarri athugasemd; „Ég sterklega hugsa að konan er nauðgari sjálf á öðrum vettvangi.“

Már Jóhannsson svarar honum: „já rétt, hún er andlegur nauðgari og níðingur, það er bersýnilegt.“

Simmi Halls segir: „Er búið að nauðga þessu fjósi tvisvar?“ Andres Zoran Ivanovic bregst við þessari athugasemd með hláturskalli.

Simmi er ekki áminntur fyrir ómálefnalega umræðu. Á Karlmennskuspjallinu, þar sem umræðan á að vera uppbyggileg, vekja slík ummæli lukku.

Slaufumenningu beitt á meinta gerendur

Mál frægra manna sem ásakaðir hafa verið um kynferðisbrot eru einnig fyrirferðarmikil hjá hópnum. Þegar Sölvi Tryggvason tók viðtal við þáverandi lögfræðing sinn um þær ásakanir sem á hann voru bornar sagði Simon Wiium, einn stjórnandi spjallsins, að mál Sölva minnti á ástand í alræðisríki.

„Ég hef gjarnan líkt ástandinu í kynjaumræðunni á Íslandi sem andstæðuna við Sádí-Arabíu en þar eru orð kvenna einskis metin en hérna á Íslandi er það akkurat öfugt,“ skrifar hann og bætir við:

„Á sama tíma er verið að reyna að halda uppi blekkingum að hérna sé „nauðgunarmenning“ og „feðraveldi“. Ef nú aðeins annað hvort væri rétt þá hefði nú Sölvi ekki þurft að hafa miklar áhyggjur og þeir hundruðir feðra sem ekki fá að sjá börnin sín myndu ekki vera í þeirri stöðu sem þeir eru í.“

Stungið er upp á því að setja af stað undirskriftarlista með hvatningu til Sölva.

Öll önnur orðræða um þessi mál er á sama veg og í annarri umræðu um kynferðisbrot. Þolendum er ekki trúað. Á körlunum í Karlmennskuspjallinu má skilja það sem svo að ef meintur kynferðisbrotamaður er frægur hafi konurnar fjölbreyttari ástæður til að stíga fram með falskar ásakanir. Konur eru þá að eltast við frægð og fjármuni. Mál Ingó Veðurguðar er engin undantekning.

Það vekur athygli að Ingó var ræddur í hópnum fyrir um tveimur árum síðan. Þá var þessari frétt deilt, en þar er vitnað í tíst eftir Hildi Lilliendahl þar sem hún segir veðurguðinn reyna við unglinga. Viðbrögðin eru eins og búast mátti við, karlarnir hneykslast á Hildi og öfgafemínisma. Magnús Bjartur Sólveigarson skrifar þó: „Ég tek nú undir það að þessi gæji er fokking kríp.“ Guðbjartur Nilsson spyr hann frekar út í athugasemdina.

Þegar Þjóðhátíðarnefnd afbókaði Ingó Veðurguð var svipað upp á teningnum. Meirihluti þeirra sem tjáðu sig voru sótillir með þá ákvörðun. Það var helst nafnleysi ásakenda sem var gagnrýnt og viðbrögð þjóðhátíðarnefndar vöktu ekki mikla lukku heldur. Nefndin var sökuð um að beygja sig í þágu slaufumenningar.

Það var þó einn meðlimur, Geir Ágústsson sem gekk gegn umræðunni og velti fyrir sér sannleiksgildi málsins.

„Þetta er margslungið. Ég á dóttur sem verður 15 ára eftir 12 ár, og fer þá að sækja böll með veðurguðum. Séu þeir veðurguðir líklegir til að nálgast mína, jafnvel áreita, jafnvel grípa í hana, þá vil ég vita af því strax og taka viðeigandi ráðstafanir. Jafnvel á grundvelli orðróma. Þar til annað kemur í ljós.

En séu þetta staðlausir stafir sem dómsvald fleygir í ruslið þá er það líka verðmætt. Viðkomandi fær þá að hreinsas sig af ákærum og allir halda áfram. […]“

Líkt og með fyrri umræðuna þá vakti þessi athugasemd enga athygli.

Ef þær myndu spila fáklæddar mættu þær hækka töluvert í launum.“

Þann 15. september síðastliðinn var það kynnt að Bandaríska knattspyrnusambandið myndi gera einn samning við bæði karla- og kvennalandsliðið um laun fyrir spilun. Hingað til hafa tveir mismunandi samningar verið gerðir fyrir sitt hvort kynið og því mótmælt mjög af kvennaliðinu.

Kristinn Sigurjónsson deildi fréttinni og lét í ljós óánægju sína. „Hlutdrægni og þöggun fjölmiðla eru þeim lítil takmörkum háð, þegar kemur að kynjamálum þá eru takmörkunin engin. Það er eins og eigendur, ritstjórar og allir fjölmiðlamennirnir séu öfgafeministar. það er ekki minnst einu einasta orði á það hvers vegna kynin fá mismunandi laun í boltaíþróttum, en það er vegna gríðarlegs munar í tekjum, það má ekki minnast á það.“

Viðbrögð meðlima voru neikvæð og gagnrýnin. Ýmist vildu menn sniðganga boltann, eins og Guðmundur Pálsson:

„Það er nú einfalt því hann er ekki spennandi og ég nenni ekki að horfa á hann.“ Gústaf Níelsson tekur undir þessi orð. „Það er ekkert varið í þennan kvennabolta, þar sem konur reyna að leika karla. Mér finnst þetta hálfgerður hallærisbolti.“

Meirihluti athugasemda voru þó á þann veg að stinga upp á fækkun fata eða annars konar klámvæðingu á íþróttinni.

Þetta er ekki einsdæmi um hlutgervingu kvenna á hópnum

Einn af þeim er Kristinn sjálfur, en hann svarar athugasemd Gústafs Níelssonar.

„Gæti verið að þær fengju meira áhorf ef þær færu að stunda drullubolta. Það gæti orðið drjúgur tekjustofn.“

Kristinn Sigurjónsson heldur áfram og talar um brottrekstur sinn frá Háskólanum í Reykjavík í sama athugasemdaþræði.

„Ég stakk upp á því að aðskilja konur og menn og sagði að konur væru alltaf að troða sér inn á (vinnu)staði karla, þarna átti ég aðalega við um orkufyrirtækin en svo má bæta við allar karlareglurnar eins og Lions, Oddefellow og frímúrara.“

Hann segir svo að femínistar hafi ekki þolað sannleikann og séð til þess að hann yrði rekinn úr starfi sínu.

„Þetta er þaulskipulögð herferð femínista og hún er bara rétt að byrja

Mál landsliðsins í fótbolta hefur skapað miklar umræður á hópnum. Andres Zoran Ivanovic deilir bloggfærslu af vefnum Fréttin.is þar sem meðal annars Gylfi Sigurðsson er kallaður „fórnarlamb slaufumenningarinnar.“ Hann tekur undir orð færslunnar og segir sjálfur að enginn sé öruggur. 

Kristinn Sigurjónsson hefur einnig margt að segja um málið.

„RÚV getur ekki verið að sýna afrek einhverra misyndismanna, það verður að klippa þá út,“ skrifar hann og deilir frétt RÚV um að Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem sakaði Kolbein Sigþórsson um kynferðisofbeldi, segist vita um sjö landsliðsmenn sem sakaðir hafa verið um ofbeldi. „Þetta stefnir í að íþróttaþættirnir verði lítið meira en kynningin, kannski verður ekki hægt að segja hversu mörg mörk voru skoruð og hverjir skora.“

Femínismi snýst ekki um jafnrétti samkvæmt orðræðu hópsins.

Hann heldur áfram í athugasemdakerfinu: „KSÍ fundar um það hvort ekki verði að mæla testosteron í liðsmönnum, það gengur ekki að hafa einhverja spræka fola í liðinu, því það komið á daginn að framistaðan á vellinum er orðin aukaatriði. Eftir þetta verður enginn munur á karla og kvenna íþróttum og feministarnir glaðir.“

Viðbrögð KSÍ við málinu eru einnig umdeild. „KSÍ/landsliðinu skulu færðar sérlegar þakkir í dag fyrir að hafa fært öfgafemínistum enn einn sigurinn á silfurfati. Fæðingarhálfvitar.“

Þessi færsla kemur sama dag og Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður KSÍ. 

Eldur Deville, einn af stjórnendum hópsins, telur ásakanir Þórhildar og afleiðingar þeirra vera samsæri. Máli sínu til stuðnings hefur hann auglýsingu um morgunverðarfund dagsettan 21. febrúar 2018. Þar voru framsögur á dagskrá með þemanu Sjúk Ást. Á meðal mælenda voru Hanna Björg Vilhjálmsdóttir og Þórhildur Gyða.

Hann hefur átta punkta útskýringamynd með heimildum þar sem hann lýsir því að Hanna Björg og Þórhildur hafi verið saman í ráðabruggi sínu. Ásakanir Þórhildar eru úr lausu lofti gripnar og hann hugleiðir hvort Kolbeinn Sigþórsson hafi einfaldlega greitt henni sex milljónir í miskabætur til að „[…] losna við allt vesen, hver veit?“

Samkvæmt Eldi er það „[…] fjarstæðukennt að þær þekkist ekkert á þessum tíma og hafi ekki borið saman bækur sínar. Hanna Björg, vinkona Þórhildar, vissi ekki af máli hennar þegar hún tók að gagnrýna KSÍ. Hversu trúverðugt er það?“ 

Niðurstaða Elds er þessi. „Þetta er þaulskipulögð herferð femínista og hún er bara rétt að byrja. Hanna Björg leiddi Guðna Bergs í gildru, vitandi um mál vinkonu sinnar Þórhildar.

Þær kunna þetta.“

„Hún er slúðurber sem styður við dómstól götunnar og aftöku saklausra einstaklinga“

Viðtal Sigríðar Hagalín Björnsdóttur við Guðna Bergsson, þáverandi formann KSÍ, þann 26. ágúst síðastliðinn, vakti mikla athygli. Huginn Þór Grétarsson fór mikinn um viðtalið í langri færslu.

„Sést alveg hvers konar áróður hún stundar og vitnar í Hönnu, kennara í Borgarholtsskóla. Tanja Ísfjörð forsvarskona Öfgar segist hafa orðið femínisti í náminu hjá henni, en áður glímdi sú unga og ómótaða kona við mikil andleg veikindi. Ekki gott ef hanna er að ala upp fólk sem forherðist í að úthrópa fólk án þess að veita því rétt til andsvara.“

Hann segir að hún notist við gróusögur í viðtalinu sem ekkert lá fyrir um. „Hún er slúðurber sem styður við dómstól götunnar og aftöku saklausra einstaklinga.“

Athugasemd Hugins í heild sinni.

„Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg“

Aron Einar Gunnarsson varð til umræðu á sama tímabili varðandi mál sem átti sér stað árið 2010. Aron þvertók fyrir að eitthvað ofbeldisfullt hafi átt sér stað og vildi mæta í skýrslutöku.

Huginn Þór Grétarsson var mjög ósáttur. „Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg,“ sagði hann í færslu þar sem hann deilir frétt um málið. „Í dag fékk ég enn einn úrskurð frá eftirlitsnefnd á Íslandi sem starfar í anda femíniskra áhrifahópa.“

Hann heldur áfram og tekur fram að ef Aron verði dæmdur fyrir brot; „þá gott og vel, en þangað til þá er þetta klikkun.“

Í annarri athugasemd við sína færslu segir hann:

„Ég er gjörsamlega brjálaður. algjör aumingjaskapur. Lúffarar. Þvílíkir aumingjar að standa ekki í lappirnar. Dómstóll götunnar hefur tekið völdin.“

„Stígamót eru mafía, sem stundar fjárkúgun“

Ef til vill er umræða hópsins um Stígamót besta birtingarmynd á viðhorfi hópsins til þolenda kynferðisofbeldis. Andres Zoran Ivanovic deilir mynd sem hann tók sjálfur fyrir utan Bauhaus, þar sem tveir sjálfboðaliðar söfnuðu undirskriftum fyrir samtökin. Hann skrifar; „Stelpurnar tvær bjóða undirskriftasöfnun fyrir Stígamót. Áhugavert að engin, jafnvel konur vilja ekkert taka þátt.“

Arnar Sverrisson fagnar þessu. „Uppörvandi! Vonandi er fólk að vakna til vitundar um, hvers konar samtök er um að ræða.“ Annar skrifar; „Styðja karlahatur og einelti gagnvart karlmönnun ?? … KKK Íslands.“

Sveinn Geir Sigurjónsson skrifar; „Stígamót hafa verið vinsæl í T’ALMUNARM’ALUM, gista þar um tíma og þykjast búa við ofbeldi.“

Ragnar Önundarson deilir svo þessari mynd og uppsker mikinn hlátur. Gústaf Níelsson gerir athugasemd:

„Það er að koma í ljós að Stígamót eru mafía, sem stundar fjárkúgun. Best væri að ríkisendurskoðun bankaði á dyrnar hjá þeim og kíkti í bækurnar, enda meira og minna rekið fyrir skattfé almennings, auk fjárkúgunar.“

Stígamót voru einnig til umræðu tengd KSÍ umræðunni hér fyrir ofan. Eins og hefur verið staðfest þá greiddi Kolbeinn Sigþórsson þrjár milljónir króna til samtakanna ásamt því að greiða Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur fyrir að hafa brotið á henni.

Meðlimir hópsins ræddu þetta mál mjög mikið. Baldur Garðarsson, kennari, veltir fyrir sér hvort Kolbeinn sé það stæður að hann finni ekki fyrir greiðslunum; „[…] og geri þetta til að fá frið. Og etv er þetta bara lúmsk fjáröflunarleið fyrir Kvennaathvarfið ?? Maður hugsar ýmislegt.“

„Women have been aggressively fucked over and duped by feminism.

Orðræðan er and-femínísk á marga vegu. Það er nokkuð algeng skoðun í hópnum að femínismi og jafnréttisstefna séu tvær ólíkar stefnur. Að þeirra mati snýst femínismi um að konur fái réttindi umfram karla og að karlar verði á endanum undir í samfélaginu. Sumir vilja meina að karlmenn séu þegar fórnarlömb kerfisbundins ójafnréttis samanbornir við konur. Við inngöngu í hópinn þarf að svara fyrir það hvort maður skilgreini sig sem femínista og hvers vegna.

Meðlimir nýta tækifærin öll til að deila skoðun sinni á femínisma. Til að mynda deildi Frissi Jóns tísti frá sjálftitluðum and-femínista að nafni Anthony Dream Johnson. 

And femínískt tíst
Margir tóku vel í þessa skýringu

Þrettán meðlimum líkaði við færsluna, þar á meðal tveir stjórnendur. 

Umræðan í kringum Sjómannadaginn á Ólafsfirði í sumar sýndi fram á afstöðu hópsins til femínisma og aktívisma á vegum hans. Þar sendi Tanja Ísfjörð Magnúsdóttir ábendingu á skipuleggjendur sjómannadagsins vegna þess að engir kona var á meðal þeirra sem skemmta áttu á deginum. 

Meðlimir tóku allir afstöðu gegn Tönju.

„Þetta stoppar ekki fyrr ekkert fyrr en við hættum að leyfa þeim að stjórna okkur. Þær eiga það til að haga sér eins og smákrakkar, ef þú réttir þeim litlaputta þá tæta þær þig í sig,“ skrifar Sigfús Atli Unnarsson. Palmar Magnusson segir; „Snögg andlitsgreining [á Tönju] það er mjög veikt grey þarna á ferð.“

Rúnar Olsen segir: „Hann ætti bara að græja það að þessari Tönju yrði boðið pláss á frystitogara eða línubát svo hún gæti noti jafnréttisins til fulls.“ Hann fær svar frá Hannibal Sigurvinssyni, en hann gefur eitthvað annað í skyn: „Svo hún gæti notið þeirra allra meinarðu hehe.“

„Það vill enginn knúsa skítugann femínista

Afslappaður andfemínisminn birtist á marga vegu í daglegu spjalli meðlima. Það er helst í formi mynda, myndasagna og jarma. Meðlimir eru duglegir að deila sín á milli myndum sem eiga að vera fyndnar.

Tístið lýsir algengum hugsunarhætti and-femínismans

Einn meðlimur setur inn myndasyrpu af karlmönnum sem hann telur líta út eins og gamlar lesbískar konur. Þar á meðal er David Hasselhoff, David Lynch, Steven Tyler, Ricky Gervais og Dana Carvey. Þetta uppsker mikinn hlátur. 

Í bland við að kitla hláturtaugar hvers annars deila meðlimir einnig myndefni sem ýtir enn frekar undir and-femínisma og fortíðarþrá. Það er þeirra skoðun að femínismi hafi gert meira til að eyðileggja hag kvenna en laga.

„Samt vilja þær losna við okkur

Sumir ganga lengra með hugmynd sína um femínismann. Stefnan snýst ekki bara um það að konur fái réttindi um fram karlmenn, heldur að þær vilji losa sig við karlmenn algjörlega. Arnar Loftsson, fasteignasali, setur inn samsetta mynd af ýmsum fyrirsögnum og öðru fréttnæmu efni þann 5. nóvember 2019.

samsett mynd
Jafnrétti kynjanna þýðir hér ofsóknir á karlmenn.

Arnar skrifar undir myndina:

„Stríðið gegn karlmönnum. Það er á öllum sviðum samfélagsins, áróður og árásir á karlmenn. Öfgafemínistar hafa tekið völdin í þessu þjóðfélagi. Ísland hefur verið valið í 9 ár í röð land með mesta jafnrétti í heiminum. En það er ekki nóg, heldur vilja þær helst losna við karlmenn. En hvað myndi gerast ef allir karlar myndu hverfa? Þær gætu ekki rekið þjóðfélagið einar. Það gætu hins vegar karlar.“

Máli sínu til stuðnings vitnar Arnar í nokkrar fréttir í myndinni.

Umræðan undir myndinni er á sama veg. Arnar og Hakur Ericsson velta fyrir sér afleiðingum þess að karlar verði undir í s amfélaginu. „Þær gætu ekki rekið landið nei miðað við hlutfall staðgreiðsluskatta á landinu.. Svo eru öll fyrirtækin, mest megnis, í eigu karlmanna, þannig að nei, það dæmi færi ekki langt.“ 

Arnar svarar þessari athugasemd: „Píparar, rafvirkjar, bifélavirkjar, og svo margt annað sem karlar gera og konur gera ekki.. Þær færu fljótt í þrot.. Samt vilja þær losna við okkur…“

Baldur Ás stingur upp á því að hafa karlafrídag. „Fordæmið höfum við fyrir okkur,“ skrifar hann. 

Aftur er skilgreining hópsins á femínisma dregin upp. „Femínistar eru svoldið að vinna með „einhliða jafnrétti“ sem gengur út á að koma karlmönnum úr öllum áhrifastöðum og skipta á harðkjarna femínistum sem hata drengi, karlmenn og sérstaklega feður,“ skrifar Eyjólfur Vestmann Ingólfsson.

Sojasnáðar sem vilja kaupa sér drátt

Þrátt fyrir að hópurinn heiti Karlmennskuspjallið og að yfirlýst markmið þar sé að ræða karlmennsku, þá er kynið ekki nóg til að veita inngöngu. Eins og áður kom fram þarf að svara fyrir það hvort maður skilgreini sig sem femínista. Blaðamaður fékk ekki inngöngu í hópinn með svarinu „Ég er opinn fyrir öllu, halla hvorki í eina átt né aðra.“

Karlkyns femínistar eru undirgefnir konum í einu og öllu að mati meðlima.

Hópurinn dregur mjög skýra línu gegn karlkyns femínistum. Þeir eru kallaðir soja strákar eða sojasnáðar sem eru undirgefnir konum í einu og öllu. Hlauparinn Arnar Pétursson fór í viðtal í hlaðvarpsþættinum 24/7 og sagðist þar vera til í að hafa einungis konur á Alþingi í nokkur kjörtímabil. Meðlimir hlóu mikið af þessu og einn kallaði hann sojasnáð sem vildi kaupa sér drátt. Fleiri dæmi eru um slík viðbrögð, að karlar væru einungis að tjá sig opinberlega um femínísk málefni til að vinna sér inn hjá hinu kyninu. 

Kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson, umsjónarmaður Karlmennskunnar, er oft ræddur og aldrei á jákvæðan hátt. Meðlimir deila fréttum um hann eða eftir hann, færslum sem hann gerir fyrir Karlmennskuna og ræða í þaula.

Líkt og með aðra karlkyns femínista er Þorsteinn sakaður um að hafa önnur markmið með aktívismanum. „Þessi er bara að koma sér í mjúkin við konur til að fá oftar á „broddinn“. Dapurt þegar karlar leggjast flatir fyrur femenistum í von um að fá drátt í þeim herbúðum,“ skrifar Sveinn Geir Sigurjónsson. Michael Reich tekur í svipaðan streng: „Just another leftist nut job trying to get laid by some leftist chick.“

samsett mynd af facebook athugasemdum
Nokkrar af athugasemdum meðlima um Þorstein

Sveinn Geir Sigurjónsson skrifar aðra athugasemd þar sem hann gefur í skyn að Þorsteinn sé einungis að leitast eftir kynlífi að launum. „[…] plottið hjá honum gæti verið að ganga í augun á vissum tegundum kvenna til að auka valkosti í kynlífi, hver veit, ekki hugsaðist mér slík snilld ef snilld getur kallast. ‘A mínum mælikvarða telst hann samt kexruglaður.“

Aktívismi Þorsteins gerir hann að svikara kynbræðra sinna og dregur úr honum alla karlmennsku, samkvæmt hópnum. Simmi Halls, sem hefur komið fram hér áður, deilir frétt þar sem Þorsteinn segir frá grænkeramataræði sínu með yfirskriftinni „Og hann er vegan……….“

Halldór Fannar Sigurgeirsson, einn af stjórnendum hópsins, skrifar einfaldlega „„hann““ við færsluna. Gústaf Níelsson kallar hann stelpustrák og menn keppast við að tala gegn flestu sem hann segir.

Þorsteinn deildi í vor færslu þar sem hann talaði um jákvæða karlmennsku. Huginn Þór deildi færslunni og hafði þetta að segja:

„Nú er Þorsteinn eitthvað að reyna að draga sig frá upphaflegri neikvæðri umræðu, „eitruð karlmennska“ o.s.frv. og talar um jákvæða karlmennsku. Vissulega strax skárra en ristir ekki djúpt á þeirri gleði, UN Women ummæli bera með sér að feðraveldið verði fyrst að bæla niður svo jákvæð karlmennska fái að þrífast … “

Viðhorf hópsins til karlmennsku er skýrt.

Algengt er að kalla karlkyns femínista sojasnáða eða soyboy, eins og það er á ensku.

„Lose some weight you fat bitch, yeah“

Aðrir aktívistar eru títt nefndir á hópnum, þar á meðal er Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu. Hringbraut gerði frétt úr þessu tísti hennar um að Auðunn Blöndal væri í forsíðuviðtali hjá DV, en fréttinni var deilt á hópinn.

„Voðalega er þessi gella alltaf geðvond…“ er fyrsta athugasemdin og aðrar eru á sama veg. Hún er sögð vera með athyglissýki, afbrýðisemi eða leynda þrá í Auðunn. „Hana vantar líklega bara einn granít“ skrifar annar meðlimur.

Fleiri athugasemdir gera út á útlit Töru heldur en skoðanir. „Hún er bara sár því hún kemst ekki fyrir á einni forsíðu.“ segir einn og annar segir henni einfaldlega að fara í megrun.

Eldur Deville, einn af stjórnendum hópsins, segir:

„Lose some weight you fat bitch, yeah.“

Einn meðlimur talar gegn þessari orðræðu. „Mig langar til að hvetja meðlimi hópsins til að vera ögn málefnalegri.“

Þorgeir Ragnarsson svarar honum:

„Nú eru skrif Töru bæði ómálefnaleg og órökstudd, full af innibyrgðri öfund, reiði og biturð. Er eitthvað að því að hún sé rassskellt með háði fyrir?“

Eldur Deville tekur undir og kallar þetta speglun. Hann bætir svo við að ef einhver á eitthvað erfitt með það þá „veit hann hvar hurðin er.“

Sjaldan stangast skoðanir á

Ofangreint dæmi um Töru Margrét er eitt af fáum þar sem meðlimir hópsins eru raunverulega ósammála um orðræðu og gagnrýna hvor annan fyrir.

and femínískt meme
Ein af fáum myndum sem skapaði tvíhliða umræður á hópnum

Myndin hér til hliðar var nokkuð vinsæl og vakti kátínu flestra, en tveir meðlimir hópsins skrifuðu niður efasemdir sínar.

Haraldur Magnússon skrifar: „Þetta er að gefa í skyn að karlmenn hafi haft núll virðingu fyrir konum áður. Erum við ekki allir sammála um það að það er nú ekki (vonandi) rétt og þetta er þá ósmekklegt comment. Segi ég sem finnst allt þetta öfgafeminisma dót líka ósmekklegt, en það er ekki bætt með að vera jafn ósmekklegur sjálfur.“

Hann fær svar frá tveimur þar sem honum er tjáð að þetta er ekkert nema brandari. Simmi Halls, sá sem setti myndina inn segir:

„Þetta er brandari. Ef menn eru svona húmorslausir þá verða menn að eiga það við sjálfan sig.“

Eyþór Árni Úlfarsson: „Já og hvenær er brandari í lagi og hvenær ekki og hvenær er brandari fynbdinn og hvenær ekki og er alltaf bara í lagi að smella miða á eitthvað „þetta er brandari“ og þá sjálfkrafa er allt í góðu …. Innihald skiptir máli og samhengi. Er þetta brandari sem á við hérna inni á þessari síðu?“

Simmi svarar honum líka: „Sem betur fer ert þú ekki mælikvarðinn á hvað er fyndið og hvað ekki. Meðan vefstjóri gerir ekki athugasemd er málið dautt.“

Eyþór Árni svarar: „Við þurfum alls ekki að fara í rifrildi. Ég var ekki að segja að þetta væri ófyndið – ég var í raun bara að spyrja „er þetta vettvangurinn fyrir svona djók? Ekkert annað. Og já ef admin finnst þetta ok þá ætla ég ekki að þrasa um það, en þetta var bara svona skoðun og eins og við vitum er nóg af þeim út um allt.“

Í öðru tilfelli setur Sigurður Þórólfsson Welding mynd af John Wayne í einni af kvikmyndum sínum deilt með yfirskriftinni; „5000 kall ef þú útskýrir fyrir þessum herramanni, hvað „hán“ er.“

Tuttugu meðlimir líka við myndina, þar af þrír stjórnendur.

Smári Gissurarson skrifar athugasemd við myndina:

„Hvernig á að útskýra eitthvað fyrir þessum herramanni yfirleitt ? Ég veit ekki betur en að hann hafi verið dauður í 40 ár. Þar fyrir utan var hann ekki það hörkutól sem hann lék alltaf í kvikmyndum, sem dæmi þá var hann aldrei í herþjónustu.“

Hann fær svar frá Sigurði Þórólfssyni.

„Ég veit ekki betur en að karlmenn með órakaða píku séu ekki leyfðir inn á þessum spjallþræði..“

Hann er ekki áminntur fyrir að vera með ómálefnalega umræðu.

Fortíðarþrá til gulltímans

Ýtið á myndina til að stækka.

Það má greina ýmist úr því efni sem meðlimir deila sín á milli. Þema sem einkennir margt af þessu er fortíðarþrá til „gulltímans“ sem er títt nefndur innan hópsins. Þetta er óljóst tímabil en leiða má líkur að því að um sé að ræða miðbik síðustu aldar. Myndir af bílum þess tíma og af konum í kjólum tíðarandans eru vel metnar.

Fortíðarþrá eins og þessi er eitt af þemum and-femínisma, á þann hátt að allt var betra þegar karlar réðu yfir heimilinu og hlutverk kvenna voru einfaldari.

Það eru ýmsar ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi má nefna að aukið frelsi kvenna hefur leitt af sér byltingar á borð við #MeToo, #FreeTheNipple og #konurtala. Afleiðingar þessara byltinga eru meðal annars vitundarvakning um að byggja þolendavænna samfélag. Eins og greina má úr orðræðu hópsins þá er það neikvæð þróun að þolendur kynferðisofbeldis fái að njóta vafans.

Í öðru lagi er það meint markmið femínismans að kollvarpa mannlegu samfélagi eins og við þekkjum það í dag. Eins og greint hefur verið frá er orðræðan á þann veg að femínistar vilja öðlast réttindi um fram karlmenn, tortíma fjölskyldueiningunni, skilgreina alla karlmennsku sem eitraða og í öfgakenndustu dæmunum hneppa karlmenn í þrældóm.

Þetta myndar svo þá skoðun að femínistar hafi í raun rænt karlmenn draumnum um kjarnafjölskyldu og hamingjusamt líf. Slíkur hugsunarháttur er algengur á meðal and-femínista, þá sérstaklega í þeim öfgakimum sem hreyfingar eins og incels finnast.

Kaffihúsið lokar

Segjum að ímyndaða kaffihúsið sem lýst var í byrjun sé raunverulegt. Það er læst fundarherbergi í horninu þar sem einungis karlar í klúbbnum Karlmennskuspjallið mega nota. Engir aðrir gestir mega koma inn, né vita hvað á sér stað þarna inni. Sumir vita ekki af herberginu og pæla því ekkert í því. Aðrir vita af herberginu en eru ekki viss hvað það nákvæmlega gerir. Hvað myndi gerast ef einn venjulegur kaffihúsagestur heyrði hvað á gengi á í herberginu?

Aðstæðurnar eru vissulega fjarstæðukenndar og ýktar. Það er enginn rekstrargrundvöllur fyrir sérstöku herbergi á almenningsstað þar sem menn geta stundað slíka orðræðu óáreittir.

Upprunalega átti hópurinn að vera svæði fyrir karlmenn til að ræða karlmennsku og hvað annað sem því tengist. Það þarf ekki nema stutta viðveru þarna inni til að sjá að það er alls ekki staðan.

Umræðan hefur breyst, gerjast og orðið öfgakennd. Þolendum kynferðisbrotamála er í engum tilfellum trúað. Konur og hlutverk þeirra eru lítillækkuð með niðurlægjandi grínmyndum.

Þetta er Karlmennskuspjallið á Facebook, vettvangurinn þar sem meðlimir fá óáreittir að spúa hatri sínu og niðrandi ummælum.

Samskipti kynjanna eru smættuð niður í ýktar staðalmyndir. Svo deila menn myndum af bílum og harma ágang femínismans á mannlegt samfélag.

UPPFÆRT 22. OKTÓBER MEÐ UMMÆLUM HUGINS ÞÓRS GRÉTARSSONAR, EN ÞAU VORU EFTIRFARANDI:

„Sést alveg hvers konar áróður hún stundar og vitnar í Hönnu, kennara í Borgarholtsskóla. Tanja Ísfjörð forsvarskona Öfgar segist hafa orðið femínisti í náminu hjá henni, en áður glímdi sú unga og ómótaða kona við mikil andleg veikindi. Ekki gott ef hanna er að ala upp fólk sem forherðist í að úthrópa fólk án þess að veita því rétt til andsvara.“

„Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg.Í dag fékk ég enn einn úrskurð frá eftirlitsnefnd á Íslandi sem starfar í anda femíniskra áhrifahópa.“

„Ég er gjörsamlega brjálaður. algjör aumingjaskapur. Lúffarar. Þvílíkir aumingjar að standa ekki í lappirnar. Dómstóll götunnar hefur tekið völdin. “

„Nú er Þorsteinn eitthvað að reyna að draga sig frá upphaflegri neikvæðri umræðu, „eitruð karlmennska“ o.s.frv. og talar um jákvæða karlmennsku. Vissulega strax skárra en ristir ekki djúpt á þeirri gleði, UN Women ummæli bera með sér að feðraveldið verði fyrst að bæla niður svo jákvæð karlmennska fái að þrífast … “

Ekki missa af...