Karen óttaðist um líf dóttur sinnar eftir vitlausa lyfjagjöf – Orðlaus yfir viðbrögðum apótekarans

Sautján mánaða gamalt barn hefði getað fengið eitrun eftir að hafa fengið vitlaust blandaðan skammt af sýklalyfjum. 

„Ég vildi vekja athygli á þessu, vildi ekki hafa það á samviskunni að segja ekki neitt og annað barn fær vitlaust blandaðan skammt,“ segir Karen Drífa Þórhallsdóttir, íbúi í Mosfellsbæ, í samtali við 24. Sautján mánaða gömul dóttir hennar fékk næstum því eitrun eftir að sýklalyfjaskammtur hennar var vitlaust blandaður af lyfjafræðingi apóteksins.

Karen vakti athygli á þessu innan Facebook-hóps Mosfellinga. Karen hefur tilkynnt málið til Lyfjastofnunar en hún telur nærsveitunga sína eiga rétt á að vita af þessu.

SÝKLALYFJASKAMMTURINN KLÁRAÐIST OF HRATT

Málið var þannig að dóttir hennar var komin á þriðja skammt sýklalyfja eftir þráláta eyrnabólgu. „Hún var oft veik út af leikskólanum og sýklalyfin virkuðu ekki. Það var þriðja sýklalyfið þar sem þetta gerðist. Á fjórða degi af tíu sem hún átti að taka lyfið þá var allt í einu ekki nóg eftir í glasinu, þannig að ég fer upp í apótek og kanna hvort það sé rétt.“

Annar lyfjafræðingur en sá sem blandaði glasið upphaflega tók við henni. Við skoðun á glasinu kom í ljós að lyfið var ekki rétt blandað. Í Facebook færslu Karenar segir hún: „Þetta þýddi að dóttir mín hafði fengið um 8-900mg af sýklalyfi í staðinn fyrir 350mg í 4 daga.“

Haft var samband við eitrunardeild sem bað Karen um að koma á bráðamóttöku undir eins.

„Það var engin eitrun sem betur fer,“ segir Karen. „En hún fékk sveppasýkingu í munninn sem var í marga daga. Það er ekkert óalgengt að börn fái sveppasýkingu eftir að sýklalyf klárast, en við erum ennþá að kljást við þetta.“

ÓRÓI VEGNA VIÐBRAGÐA LYFJAFRÆÐINGS

Dóttir Karenar fékk sveppasýkingu í tannhold vegna lyfsins / Mynd: Karen Drífa Þórhallsdóttir

Hún segir viðbrögð lyfjafræðingsins sem blandaði lyfið hafa ollið mestum óróa. „Hún tók þetta alls ekki til sín, sú sem blandar. Sú sem greindi vandamálið tók þessu mjög alvarlega og sagði mér að koma aftur með glasið í apótekið til að ræða við hina. Ég vildi tala við hana sjálf, ekki til að vera með nein leiðindi, ég samþykki alveg mannleg mistök, en hún var eiginlega með hroka. Fór fram og til baka um hluti sem tengdust því ekki að hafa blandað vitlaust í glasið.“

Karen segist hafa séð hvert samtalið væri að fara og kaus því að taka glasið til baka og ræða frekar við einhvern annan. Samkvæmt Facebook færslunni tilkynnti hún málið til Lyfjastofnunar, en sjálf var hún ekki viss hvað meira hún gæti gert.

Hún setur spurningarmerki við það að næstum öll ábyrgðin með blöndun lyfja sé á herðum eins lyfjafræðings. „Hún er þarna frá opnun til lokunar á meðan sú sem ég talaði við er þarna bara eina vakt í viku.“ Starfið sé ábyrgðarfullt og mikið álag.  

Hún segir einnig að í umræðu á Facebook hópnum Mæðratips hafi þrjár sagt svipaða sögu, lyf var blandað vitlaust og því fylgt alvarlegar afleiðingar.

„Það eru andleg áhrif hjá okkur, hún vill ekki tannbursta sig og þorir ekki að borða svona og hinsegin mat. Hún skilur ekki alveg hvað er að gerast,“ segir Karen og tekur fram að stelpunni hafi hingað til fundist gaman að tannbursta sig.

Ekki missa af...