Kæru landsmenn, látið bólusetja ykkur, það er ekki bara ykkar líf í húfi!

Guðbjörn Guðbjörnsson skrifar:

Ég hef verið bólusettur þrisvar og trúi almennt á bólusetningar. Bólusetningar gegn Covid eru auðsjáanlega að gera það að verkum að færri smitast, færri veikjast alvarlega og miklu færri deyja.

Þó virðist einnig vera ljóst að aukaverkanir bólusetninga eru einhverjar og hugsanlega nokkuð miklar, en þá hjá mjög fáum. Jafnvel stuðningsmenn bólusetninga verða að viðurkenna þetta.

Málið snýst einfaldlega um að vega og meta hvort sé hættulegra að fara í bólusetningu eða sleppa því. Sannfærandi rök eru fyrir því að allavega fólk yfir 60 ára aldur ætti skilyrðislaust að láta bólusetja sig.

Erfiðara er að færa rök fyrir að yngra fólk láti bólusetja sig. Þó eru til mikilvæg rök sem einnig mæla með bólusetningu fyrir ungt fólk, því það er einnig að veikjast alvarlega og smitar frekar, það sama gildir um börn.

Nágrannaríkin eru öll með öflug sjúkrahús. Engu að síður virðast þau komin að þolmörkum varðandi gjörgæslurými. Þetta gildir auðsjáanlega um Ísland, en einnig ríki með hlutfallslega fleiri gjörgæslurými.

Að mínu mati er ljóst að stjórnmálamenn á Vesturlöndum – hér líka – munu þurfa að taka erfiðar ákvarðanir, sem m.a. snúast um að skerða frelsi þeirra sem ekki eru bólusettir eða hafa ekki fengið sjúkdóminn.

Ég hræðist ekki dauðann eða nokkurn hlut, en af því að ég missti dóttur mína fyrir aðeins 2 árum, hræðist ég að missa einhvern mér nákominn. Dóttir mín dó af því að heilbrigðiskerfið var ekki að standa sig.

Enginn á að missa einhvern sér nákominn, sem hefði verið hægt að bjarga. Þetta á ekki bara við um Covid-sjúklinga, heldur alla þá sem ekki myndu fá læknisþjónustu ef að heilbrigðiskerfið springur.

Ég hef ekki alltaf verið sammála öllum sóttvarnarráðstöfunum og gagnrýnt sumar þeirra opinberlega. Núna er hins vegar ljóst að ríkisstjórnin verður að stíga á bremsuna og grípa til frekar strangra aðgerða.

Kæra ríkisstjórn, hvað sem þið ætlið að gera, ekki gera ekki neitt.

Kæru landsmenn, látið bólusetja ykkur, það er ekki bara ykkar líf í húfi!

Höfundur er yfirtollvörður og óperusöngvari

Ekki missa af...