Íslenskur tölvuleikjamarkaður stækkar ört

Síðustu ár hefur verið mikil gróska í tölvuleikjaiðnaði á Íslandi. Fyrirtækjum í geiranum fjölgar ört, allavega sextán fyrirtæki eru hluti af IGI, Icelandic Game Industry. Fjölbreyttur hópur fólks vinnur hér á landi við tölvuleikjagerð, ýmist sjálfstætt eða í fyrirtækjum sem framleiða stóra leiki fyrir alls kyns spilara.

Tæknin við að gera tölvuleiki er að verða aðgengilegri sem þýðir að smærri teymi geta framleitt stóra leiki fyrir nýjustu leikjatölvurnar. Framtíðin er spennandi fyrir íslenska geirann, en á næsta ári kemur út leikur sem gerist á 17. öld á Íslandi og inniheldur alls kyns vísanir í íslenskar þjóðsögur, eins og nornir, huldufólk og furðudýr. Annar stór ævintýraleikur er á döfinni frá öðru fyrirtæki.

Fjölbreytt fyrirtæki með fjölbreytta leiki

Elsta starfandi tölvuleikjafyrirtæki Íslands er CCP, en það var stofnað árið 1997. Frægasta útgáfa fyrirtækisins er fjölspilunarnetleikurinn EVE Online, en hann kom fyrst út árið 2003. Í gegnum átján ára sögu leiksins hefur hann haldið sér á meðal vinsælustu leikja sinnar tegundar, það sem kallað er MMO, eða massive multiplayer online.

logo ccp
CCP er elsta starfandi tölvuleikjafyrirtæki Íslands / CCP Games

Slíkir leikir hafa hundruði ef ekki þúsundir spilara í leik hverju sinni, sem þýðir að samfélag myndast af virkum spilurum á hverjum tíma. Árið 2020 var EVE tólfti mest spilaði leikur sinnar tegundar, með rétt rúmlega 7,5 milljónir spilara. CCP hefur framleitt fleiri leiki tengda EVE, eins og skotleikinn Dust 514 sem kom út árið 2013. Fyrirtækið er einnig að framleiða leiki fyrir sýndarveruleika.

Árið 2013 gaf íslenska fyrirtækið Plain Vanilla út spurningaleikinn QuizUp fyrir snjallsíma. Leikurinn varð einn af vinsælustu snjallsímaleikjum allra tíma. Aðeins nokkrum mánuðum eftir útgáfu var búið að spila meira en milljarð af umferðum í leiknum í 197 löndum. Fyrirtækið Teatime Games náði einnig góðum árangri með leiknum Trivia Royale árið 2020.

Flóra leikjanna er fjölbreytt enda um mörg fyrirtæki að ræða. Nokkur fyrirtæki framleiða einungis leiki fyrir snjallsíma, enda er það ört vaxandi markaður. Einnig eru leikir í framleiðslu sem verða spilanlegir á öllum helstu leikjatölvum, þá borðtölvum, Playstation 5 og Xbox Series X.

Fyrirtækið Parity Games tilkynnti nú á dögunum að þeirra leikur, Island of Winds, muni koma út einhvern tímann árið 2022. Sá leikur er byggður á íslenskri náttúru og þjóðsögu og mun gerast á 17. öld.

Galdrafárið á sautjándu öld innblástur

María Guðmundsdóttir, stofnandi Parity, ræddi um tilurð fyrirtækisins og um leikinn í viðtali við Tölvuleikjaspjallið. Hún hætti að vinna hjá CCP árið 2014 eftir tólf ára feril. „Ég bjó í þrjú ár í Shanghai, var þar að vinna að Dust 514 skotleiknum. Svo kem ég til baka til Íslands og það var svolítið eins og að koma til fortíðar, að fara í eitthvað sem ég var búin að gera. CCP auðvitað æðislegt fyrirtæki en mín saga var að klárast þar.“ Hún stofnaði Parity árið 2017.

Leikurinn Island of Winds byrjaði í þróun stuttu eftir það. „Island of Winds tekur innblástur frá sautjándu aldar Íslandi. Við fórum í hugmyndavinnu og vildum segja sögu sem við könnuðumst við og vildum spegla okkur í. Okkur datt í hug Ísland og galdrafárið á Íslandi og einhver sterk kven hetja sem er samt full af göllum.“

Leikurinn er fyrir einn spilara og er sögu drifinn ævintýraleikur. Aðal persóna leiksins er nornin Brynhild sem ferðast um landslag Íslands sem er yfirtekið af dularfullum göldrum. Hægt er að hlusta frekar á umfjöllun Tölvuleikjaspjallsins um leikinn og fyrirtækið í þessum tveimur þáttum.

Dularfullur leikur með íslenskum leikurum

Fyrirtækið Myrkur Games var stofnað árið 2016. Stofnendurnir kynntust í námskeiði við Háskólann í Reykjavík þar sem þeir áttu að gera tölvuleik á þremur vikum. Þar er verið að framleiða leikinn Echoes of the End. Ekki er búið að ákveða útgáfudagsetningu. Halldór Snær Kristjánsson, einn af stofnendum fyrirtækisins, ræddi um fyrirtækið og leikinn í viðtali við Tölvuleikjaspjallið í nóvember 2020. Þá var leikurinn kallaður The Darken.

mynd úr stúdíói myrkur
Aldís Amah Hamilton og Karl Ágúst Úlfsson leika aðalhlutverkin / Myrkur Games

„Tækni í leikjaiðnaði núna, ég held að ekki allir skilji hversu miklar framfarir hafa orðið á bara seinustu tveimur eða þremur árum, frekar en síðustu fimm til tíu,“ segir Halldór. Hann bætir við að tæknin til að skanna fólk og umhverfi inn í tölvuleiki er einnig að verða aðgengilegri og notendavænni. Flestir tengja stóra tölvuleiki ef til vill við risastór framleiðslufyrirtæki. „Tæknin var akkúrat á þessum vendipunkti þar sem minni fyrirtæki gátu verið að gera meira.“

Halldór minnist á að leikurinn Hellblade: Senua’s Sacrifice hafi komið út á þessum tíma og fullvissað þá félaga um að lítið teymi gæti gert stóran leik, en einungis rúmlega 20 manns komu að gerð leiksins. Þeir fóru á fullt með að stofna fyrirtækið, fara áfram með hugmyndavinnu og búa til hreyfiföngunartæknistúdíó til að vinna með.

Aldís Amah Hamilton og Karl Ágúst Úlfsson leika aðalhutverkin. Aldís ræddi leikinn í hlaðvarpsþættinum Bíóblaður í ágúst síðastliðnum. „Það er náttúrulega svo ótrúlega öðruvísi,“ segir hún um muninn á að leika í bíómynd eða tölvuleik. „Það er orðið miklu svalara, af því að núna eru leikarar að leika og hreyfingarnar eru raunverulegar. Bara fyrir tíu árum þá byrjuðu leikarar að talsetja en voru ekki að leika, hreyfa sig.“

„Þessi tölvuleikur er þannig að karakterinn er með minn líkama að mestu, mitt andlit að öllu, mína rödd og mitt hár. Þetta er bara ég í tölvuleikjaformi. Það er ekkert svo algengt. Það eru leikarar sem eru bara í þessum heimi. “

Aldís Amah Hamilton í viðtali við Bíóblaður

Ekki mikið meira er vitað um leikinn en hann verður spilanlegur á allar helstu leikjatölvur.

Ekki missa af...