Íslendingar eru þegar byrjaðir að fagna brottför minni

Dagur 877 – Bogga.

Skrapp á kaffihús í gær og hitti eina af mínum uppáhalds frá níunda áratugnum eða frá árunum frá því áður en ég flutti til Svíþjóðar og þar sem Bogga var á meðal minna fremstu stuðningsaðila og áttum við gott tveggja tíma samtal um liðna tíð, enda var nóg að ræða um eftir að hafa ekki hist í nokkur ár.  Það fer vissulega engum sögum af því sem okkur fór á milli, en það var nóg að ræða um, ýmsar sögur bæði að fornu og nýju og við töluðum ekki niður til nokkurrar manneskju enda á opinberu kaffihúsi þar sem einhver gæti verið að taka upp á símann sinn.

Kaffihúsið er reyndar vel þekkt meðal fjölskyldunnar enda fæddist móðir mín á hæðinni fyrir ofan, en móðurforeldrarnir byggðu húsið ca 1921, en átta af níu börnum þeirra fæddust þar. Húsið var selt eftir að afi minn lést árið 1965, byggðar tvær hæðir ofan á það og viðbygging að auki. Húsið að Lokastíg 28 sem hýsir Kaffi Loka er fyrir bragðið ekki líkt sjálfu sér frá því það var í eigu fjölskyldunnar.

—–

Hún varð heldur betur endasleppt afmælisveislan hennar Erlu sonardóttur minnar. Um miðjan dag í gær greindist einhver á leikskólanum hennar Katrínar, yngstu dóttur sonar míns, með Cóvið og þar með lenti Katrín í sóttkví og fjölskyldan með henni og ekkert varð af veislunni. Ég náði samt að heilsa upp á afmælisbarnið úr tveggja metra fjarlægð og náði að lauma lítilli afmælisgjöf að henni, því öfugt við kóvitana, tekur fjölskylda sonar míns á ástandinu af festu og alvöru. Ástandið verður vonandi orðið betra í sumar þegar þau koma til Paradísar og ég er strax farin að hlakka til.

—–

Ég sé og heyri að Íslendingar eru þegar byrjaðir að fagna brottför minni, allavega ef dæma má af sprengjulátunum og flugeldunum sem voru í gangi í gærkvöldi. Mér finnst samt óþarfi að byrja að fagna svona snemma. Ég fer ekki fyrr en á laugardag og veðurspáin er slæm svo að það er nóg að fagna þegar ég verð farin. Að auki bilaði ein vél frá Icelandair í gærmorgun og ég þakka fyrir að hún bilaði ekki í háloftunum þegar ég sat í henni á annan dag jóla. Samt ágætis vél og nýleg. Á laugardagskvöld get ég vonandi einnig fagnað brottför minni og samglaðst Íslendingunum, þó úr öruggri fjarlægð suður í höfum.

Eftir Önnu Kristjánsdóttur þjóðfélagsrýni

Ekki missa af...