Íslendingar björguðu Hildi undan leigusala frá helvíti: „Hann þvingaði kósíkvöldi á mig“

Hildur Sigurðardóttir, sem er nýhafin við nám í listaháskólanum Catalyst í Berlín, getur þakkað Íslendingasamfélaginu þar ytra að hún býr ekki lengur hjá leigusala sem má með sanni segja að hafi verið frá helvíti. Hildur lýsir hegðun hans í samtali við 24 sem bæði furðlegri og óþægilega kynferðislegri. Hún óskaði eftir aðstoð landa sinna á Facebook:  

„Ég er í frekar óþægilegri stöðu. Maðurinn sem ég leigi af er helmingi eldri en ég og hann hefur í nokkur skipti verið frekar óþægilegur við mig. Til að mynda byrjaði hann algjörlega óumbeðinn að gefa mér fótanudd eitt kvöldið og hefur nokkrum sinnum síðan þá boðið mér upp á heilnudd til að „láta mér líða betur.“ Hann sefur í stofunni þar sem ég er að leigja eina svefnherbergið og á það til að ganga um íbúðina nakinn.“

Ferðalag Hildar til Þýskalands átti heldur óvenjulegt upphaf, líkt og færslan gefur til kynna og biðlaði hún til annarra Íslendinga í hópnum Borgin mín, Berlín um ráð til að finna sér nýtt athvarf í ljósi aðstæðna. 

Í samtali við 24 segir Hildur að frásögn hennar í Facebook-hópnum gæfi aðeins upp brot af stærri sögunni. Þá segir hún að upphaflega hafi staðið til að dvelja hjá umræddum leigusala fyrstu önn sína, eða í um þrjá mánuði. Eftir að hafa upplifað óviðeigandi hegðunarmynstur mannsins í hálfan annan mánuð var henni nóg boðið. Á þessum tíma reyndi Hildur eftir fremsta magni að halda sér utan heimilis og vildi hún eyða sem minnstum tíma með leigusalanum nema í brýnustu neyð. 

„Ég fraus og vissi ekkert hvað ég átti að gera“

Fullyrðir Hildur í samtali við blaðamann 24 að leigusalinn hafi við fyrstu sýn gefið þau merki um að vera heilsteyptur og almennilegur.

„Vinkona mín kom með mér þegar ég fór fyrst og skoðaði íbúðina. Við vorum báðar á því að hann virkaði voða indæll og voru engin rauð flögg sjáanleg,“ segir Hildur. „Svo gerðist það um viku síðar, þegar ég sat á svölum íbúðarinnar og þá ákveður hann að bjóða mér rauðvínsglas og bauðst til þess að elda handa mér kvöldmat. 

Þetta þótti mér skrýtið en síðan annað skiptið kemur hann með ilmkerti, kveikir á því og nær í tölvuna sína. Hann byrjar að spila einhverja bíómynd, talsetta á þýsku og settist hjá mér. Hann þvingaði kósíkvöldi á mig.“

Að sögn Hildar fór þá leigusalinn afsíðis til að sækja nuddolíu þegar hálftíminn var búinn af kvikmyndinni. „Hann kemur svo til baka og byrjar að nudda á mér fæturnar. Ég fraus og vissi ekkert hvað ég átti að gera,“ segir Hildur. „Loksins þegar myndin var búin þá stóð ég upp, þakkaði fyrir mig og fór inn í herbergið mitt.“

Útilokaði ekki upptökubúnað

Hildur segir að listinn sé ekki tæmandi hvað furðuhegðun þessa leigusala varðar, en hafi andrúmsloftið tekið óvænta stefnu þegar hann fór að ganga títt um án spjara. „Ég reyndi sem minnst að eiga samskipti við manninn. Eitt skiptið var ég með kvef og hann heyrði mig hósta eina vikuna. Þá býðst hann til þess að láta renna í bað fyrir mig og bauð mér upp á heilnudd, sem ég vissulega afþakkaði,“ segir hún. 

Hafi þó óþægindin fyllt mælinn þegar hann gekk inn í herbergið hennar á meðan hún svaf. „Þegar ég vaknaði við hann sagðist hann vera að taka ruslið mitt, en ég var eiginlega kjaftstopp,“ segir Hildur. „Ég myndi ekki einu sinni gera bestu vinkonu minni það að labba inn til hennar í slíkum aðstæðum.“

Aðstæður voru orðnar svo slæmar samkvæmt Hildi að hún var farin að kanna hvort væru faldar myndavélar staðsettar í íbúðinni. „Mér þótti reyndar sérkennilegt hvað voru margir speglar þarna hjá honum, meira að segja á salerninu. Ég var farin að athuga hvort væri þarna tvísýnt gler eða upptökubúnaður.“ 

Íslendingar sýndu samstöðu

Þegar Hildur útskýrði aðstæður sínar fyrir öðrum Íslendingum í áðurnefndum hópi á Facebook segir hún viðbrögðin hafa farið fram úr sínum björtustu vonum. Hafi þarna náungakærleikurinn heldur betur sýnt sig og voru margir hverjir fljótir að veita henni tillögur sem boð um bráðabirgðahúsnæði. Hildur þáði annan kost með þökkum og flúði íbúð sína tafarlaust. Þegar spurð að því hvernig samskiptin við leigusalann fóru fram við flutninginn sagðist hún vera fegin að hafa ekki mætt honum undir fjórum augum. 

„Ég sendi honum bara skilaboð um að ég ætlaði að flytja út strax næsta dag. Ég gaf honum enga ástæðu en afsakaði stutta fyrirvarann. Ég er ótrúlega glöð að hafa fengið þann stuðning sem ég fékk og fyrir utan þetta tímabil hefur dvöl mín í Berlín gengið eins og í sögu.“

Ekki missa af...