Ilmandi heimagerður kaffiskrúbbur: dekraðu við þig því þú átt það skilið

Ilmandi og nærandi kaffiskrúbbur sem er bæði ódýr og heimagerður, það hljómar súper vel. Þú þarft ekki að fara út í búð og kaupa rándýran skrúbb til að næra og dekra við kroppinn þinn.

Af hverju kaffi? Jú, kaffi er ekki bara ómótstæðilega ilmandi og ómissandi drykkur fyrir marga. Það er stútfullt af andoxunarefnum líka, sem eru efnin sem húðin okkar elskar! Kaffi inniheldur einnig C- og E-vítamín ásamt öðrum bráðhollum steinefnum. Það þurfti að minnsta kosti ekki að sannfæra mig um ágæti þessarar blöndu enda fátt betra fyrir kroppinn okkar en þau efni sem kaffið leynir í sér.

Til þess að setja svo punktinn yfir i-ið að þá er mjög líklegt að þú eigir hráefnin nú þegar til í skápunum heima hjá þér.

Einfaldlega er 1 hluti af kókosolíu á móti ½  hluta af möluðu kaffi. Þá er hægt að gera t.d. 1 desilítra af kokosolíu og hálfan desilítra af möluðu kaffi. Svo seturðu tæplega hálfan desilítra af púðursykri (aðeins minna en af kaffi) og þá er hann tilbúinn.

Best er að olían sé við stofuhita svo hún sé mjúk. Byrjaðu á að hræra olíuna aðeins og bættu svo kaffinu út í. Hrærðu saman og bættu að lokum sykrinum út í. Tilbúinn! Gæti ekki verið einfaldara.

Ég ber hann á mig með að stíga úr sturtunni og nudda hann inn í húðina í hringlaga hreyfingum og skola svo þegar allir líkamsstaðir eru skrúbbaðir. Mér finnst best að nota grófan sturtuhanska en þú getur notað hendurnar, þvottapoka eða það sem þér finnst best að nota. Til ykkar sem rakið á ykkur fæturnar þá mæli ég með að nota skrúbbinn fyrir rakstur, húðin verður gjörsamlega silkimjúk! Einnig má bera hann í andlitið.

Það má gera skrúbbinn í einhverju magni og geyma hann í krukku eða lokuðu íláti. Passaðu bara að hann sé við stofuhita og að sólarljós nái ekki til hans. Skrúbburinn gæti orðið stífur en mýkist um leið og hann er borinn á húðina.

Einnig finnst mér þetta krúttleg gjöf til einhvers sem á allt. Settu skrúbbinn í sæta krukku og kort með og sú gjöf slær í gegn!

Ekki missa af...