Hvers vegna mega hundar ekki borða súkkulaði?

Greinin er unnin í samstarfi við Lifandi Vísindi

Það styttist í jólahátíðina sem þýðir að eldhús Íslendinga eru að fara að stút fyllast af kræsingum af öllu tagi. Ekki bara jólasteikin, hver sem hún kann að vera. Það verða smákökur, konfekt og alls kyns annað gúmmelaði sem við munum sporðrenna langt fram í janúar.

Við herlegheitin eru miklar líkur á því að eitthvað detti í gólfið. Það er margt sem borða þarf og lítill tími til, það er skiljanlegt að frávik eigi sér stað.

Hundafólk veit að það má ekki hvað sem er detta í gólfið, allavega margt sem má ekki eyða of miklum tíma þar, því ryksuga með hjartslátt og fjóra fætur fer nokkuð hratt af stað og gleypir bitann í munninn án þess að hugsa um afleiðingarnar.

Hvort sem það sé kryddaður kjötbiti eða súkkulaði af einhverju tagi, þá er það nokkuð almenn vitneskja að hundar eiga helst að borða hvorugt. En hvers vegna súkkulaði sérstaklega?

Lifandi Vísindi útskýra málið fyrir okkur.

OF MIKIÐ GETUR VALDIÐ UPPKÖSTUM OG ÖRUM HJARTSLÆTTI

Hundar eru sólgnir í sætindi, líkt og við mennirnir, og myndu háma í sig súkkulaði ef þeir fengju leyfi til þess.

Það ættum við hins vegar ekki að leyfa þeim.

Þessi hvutti er fljótur að sækja bitann ef hann dettur í gólfið

Súkkulaði felur nefnilega í sér þeóbrómín sem er eitrað fyrir hunda, sökum þess að þeir brjóta það langtum hægar niður en við mennirnir.

Þetta hægfara niðurbrot hefur slæm áhrif á taugakerfi hunda, hjarta- og æðakerfið, svo og nýrun.

Éti hundur of mikið súkkulaði, gera vart við sig einkenni eins og uppköst, niðurgangur, ör hjartsláttur, aukin þvaglosun, vöðvalömun og eirðarleysi.

Ef um er að ræða mjög slæma eitrun getur súkkulaðiátið haft í för með sér öndunarerfiðleika, hjartastopp og í mjög sjaldséðum tilvikum getur það dregið hundinn til dauða.

Örvæntið þó ekki ef hundurinn ykkar kemst í lítinn mola, því magnið þarf að vera verulegt áður en eitureinkennin gera vart við sig.

Hversu mikið súkkulaði hundurinn þolir ræðst af stærð hans og einnig gerð súkkulaðisins. Dökkt súkkulaði inniheldur t.d. sjöfalt meira magn af þeóbrómíni en mjólkursúkkulaði.

Ekki missa af...