Hvers vegna má ekki borða þessar kúlur?

Ímyndaðu þér þetta; þú kemur heim eftir vel heppnaða verslunarferð, pokarnir hrynja af þér eins og snjór af þaki og þú byrjar að gramsa. Það er alls kyns nýkeypt að finna þar. Kerti, fatnað, skrautmunir. En það er eitt sem þú bíður eftir að rífa upp og prófa. Par af skóm sem hvílir í allt of stórum kassa.

Skórnir líta dagsins ljós, ásamt óhóflegu magni af óendurvinnanlegum pappír. Með í kassanum er svo lítil pakkning, svona út lítandi:

Ögrandi skilaboð? Sumum gæti fundist það

Orðin á pakkningunni eru fá, en í hástöfum er það skýrt tekið fram að innihaldið má ekki borða. Þú horfir aðeins á pakkninguna, skilaboðin eru skýr, en hvers vegna? Við erum ekki vön því að láta skipa okkur fyrir.

Það er ekki eins og mótþróinn gangi það langt að maður bölvi öllum mannlegum lögum og sturti litlu glæru kúlunum upp í sig, öfgakenndur gjörningur borgaralegrar óhlýðni. Eða hvað?

Textinn, ógnandi eður ei, er þó ekki þarna af ástæðulausu. Það sem um ræðir eru kísilgelkúlur (e. silica gel), þurrkandi efni. Það er alveg gild ástæða fyrir því að það er ekki standur með kísilgelkúlum við hliðina á saltinu og piparnum í mötuneyti Ikea.

HVAÐ GERA KÚLURNAR?

Á sumum pakkningunum er lýst í stuttu máli hver tilgangur pakkningarinnar er. Þetta er þurrkandi efni. Kúlurnar geta dregið í sig gífurlegt magn raka og hentar því vel til að forða því sem þarf að geymast í kassa vikum eða mánuðum saman frá rakaskemmdum.

Þurrkandi efni er líka notað til að geyma alls kyns mat, aðallega þurrkað kjöt. Gæludýraeigendur þurfa að henda svona pakkningu nokkuð oft, þetta kemur með alls kyns beinum og nammi sem gerir dýrum glaðan dag.

KÖFNUNARHÆTTA

Þetta er aðallega vandamál hjá ungabörnum. Kúlurnar einar og sér geta litið út fyrir að vera nammi, sem börn eru oftar en ekki meira en til í að leggja sér til munns án þess að velta fyrir sér afleiðingum.

Kúlurnar minnka ekki við vökvun og það er ekki hægt að tyggja þær. Nammikúlur af ýmsu tagi geta einnig valdið köfnun, en bæði er hægt að bryðja þær í sundur og þær mýkjast og minnka í munnvatni.

Þessi væri alveg til í að borða heilan pakka af kúlum ef það er í boði. Pössum upp á það.

Fullorðið fólk er með stærra vélinda, því er þetta ekki vandamál þar. Það er annað sem fullorðnir þurfa að hafa í huga.

ÞARMATEPPA

Kísilkúlur eiga ekki að vera eitraðar, enda úr hlutlausu efni. Þær eru framleiddar á stöðum þar sem önnur efni eru meðhöndluð, sem geta verið eitrandi fyrir mannfólk. Einnig eru til kúlur sem eru bókstaflega eitraðar, en þær eru lítið notaðar í vörur sem keyptar eru í smásölu.

Annað sem gæti valdið vandamálum er þarmateppa. Kúlurnar eru harðari en hefðbundinn matur sem þýðir að þær geta stoppað í þörmum og valdið teppu.

Á ALLTAF AÐ HENDA ÞEIM?

Ástæðan fyrir því að pakkningin grátbiður um að láta henda sér sem fyrst er til að forðast öll slys sem gætu valdið einhverju af ofangreindu. Betri er krókur en kelda, hugsa pakkningaframleiðendur.

En fyrir þau okkar sem vilja lifa djarft þá er heilmikill tilgangur í þessum litlu kúlum.

Ein svona pakkning hentar vel í líkamsræktartöskuna. Pakkningin bæði dregur í sig raka og lykt. Einnig er hægt að hafa eina pakkningu í sundtöskunni, ef þeytivindan í búningsklefanum er biluð.

Blaut sundföt og handklæði geta eyðilagt góða tösku með óþef. Óæt pakkning af kísilkúlum gæti reddað því!

Það eru ýmis not fyrir þessa litlu pakkningu, en það er alltaf hætta til staðar, sérstaklega þegar börn og dýr eru með í spilinu. Sumir vilja ekki taka sénsinn en aðrir geta ef til haft varann á.

24 tekur það skýrt fram að það er alls ekki mælt með því að leggja sér kúlurnar til munns. Sleppum því alveg. Þó það sé hægt þýðir ekki að maður eigi að gera það. Stundum er best að hlýða bara leiðbeiningum, þó þær séu í boðhætti og ögrandi.

Ekki missa af...