Hvernig á að stela kosningum á Íslandi?

Björn Birgisson skrifar:

Enn tala margir íhaldsmenn um að forsetakosningum í Bandaríkjunum hafi hreinlega verið stolið – ásökun sem vafalaust er kolröng, enda hefur hún ekki verið studd neinum haldbærum rökum.

Geðveikislegir hugarórar er líklega rétta lýsingin.

Hér á eftir verður hins vegar rakin sú hörmungarsaga þegar hinn íslenski Sjálfstæðisflokkur hreinlega stal kosningum á Íslandi með dyggri aðstoð fulltrúa sinna í Hæstarétti landsins – rétt eins og Trump  ætlaði að gera en tókst ekki.

**********

Kosningar til stjórnlagaþings á Íslandi 2010 voru haldnar þann 27. nóvember 2010.

Hver og einn kjörgengur Íslendingur gat kosið 25 frambjóðendur og raðað þeim í forgangsröð.

Ráðgefandi stjórnlagaþing, skipað 25 fulltrúum átti síðan koma saman í síðasta lagi þann 15. febrúar 2011 til þess að endurskoða stjórnarskrá Íslands.

Kjörsókn var 36,77% og þurfti hver frambjóðandi 3.200 atkvæði til þess að ná kjöri.

Kosið var í fyrsta sinn með svokallaðri Forgangsröðunaraðferð (e. Single transferable vote).

Mikil andstaða var við þetta ferli innan Sjálfstæðisflokksins.

Hæstarétti bárust síðan kærur frá Sjálfstæðismönnunum Óðni Sigþórssyni, Skafta Harðarsyni og Þorgrími S. Þorgrímssyni, en augljóst var að þær kærur voru samdar í Valhöll.

Lutu þær að ýmsum ágöllum sem kærendur töldu vera á framkvæmd kosningarinnar.

Hæstiréttur fann fimm annmarka á framkvæmd kosningarinnar, þar af tvo verulega annmarka.

Hæstiréttur ógilti síðan kosninguna til stjórnlagaþings með ákvörðun þann 25. janúar 2011.

Sex hæstaréttardómarar fjölluðu um kærur vegna kosningarinnar.

Þeir voru: Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Úrskurður Hæstaréttar Sjálfstæðisflokksins var þessi:

1. Strikamerking kjörseðla með númeri í samfelldri hlaupandi töluröð, var talin verulegur annmarki á framkvæmd kosningarinnar og þótti brjóta í bága við ákvæði laga um leynilegar kosningar sbr. „grundvallarákvæði stjórnarskrárinnar um opinberar kosningar“.

2. Pappaskilrúm sem notuð voru við kosninguna, þóttu ekki fullnægja áskilnaði laga um að kjósendur skyldu kjósa í kjörklefum. Var notkun þeirra talin annmarki á framkvæmd kosningarinnar, „þar sem unnt var að sjá á kjörseðil kjósanda, sem nokkurn tíma hlaut að taka að fylla út ef allir valkostir voru notaðir, var það til þess fallið að takmarka rétt kjósanda til að nýta frjálsan kosningarétt sinn ef maður, sem hann var háður, fylgdist með honum eða kjósandi hafði raunhæfa ástæðu til ætla að svo gæti verið“.

3. Ekki var fylgt ákvæði kosningalaga um að menn skyldu brjóta saman kjörseðil sinn áður en hann var lagður í kjörkassann, en sú regla hefur það að markmiði skv. Hæstarétti „að tryggja rétt og skyldu kjósanda til leyndar um það hvernig hann ver atkvæði sínu“. Meiri hluti Hæstaréttar taldi þetta annmarka á framkvæmd kosningarinnar. Hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Viðar Már Matthíasson voru á annarri skoðun um þetta atriði og töldu það ekki brjóta gegn ákvæði laga.

4. Kjörkassarnir uppfylltu að mati Hæstaréttar ekki skilyrði laga um að hægt væri að læsa þeim. Þá taldi Hæstiréttur kjörkassana „þeirrar gerðar að unnt var án mikillar fyrirhafnar að taka þá í sundur og komast í kjörseðla. Þessi umbúnaður kjörkassanna var því til þess fallinn að draga úr öryggi og leynd kosninganna“. Þótti þetta annmarki á kosningaframkvæmd.

5. Samkvæmt túlkun Hæstaréttar á kosningalögum átti landskjörstjórn að kveða til „valinkunna menn“ til að fylgjast með framkvæmd kosninganna. Hæstiréttur taldi að í ljósi þess að upp kom vafi um hvernig skilja bæri skrift á 13-15% atkvæða við kosninguna, hafi verið sérstök þörf á nærveru slíkra fulltrúa við kosninguna til að gæta réttinda frambjóðenda. Taldi Hæstiréttur þetta verulegan annmarka á framkvæmd kosningarinnar.

Hæstiréttur vísaði til þess að það væri hlutverk löggjafans að setja skýrar og ótvíræðar reglur um framkvæmd opinberra kosninga þar sem tekið væri réttmætt tillit til aðstæðna sem leiða af sérstöku eðli þeirra. Það væri á hinn bóginn ekki á færi stjórnvalda að víkja frá skýrum fyrirmælum laga um framkvæmd kosninga vegna fjölda frambjóðenda eða nýs verklags sem hentugt þætti vegna rafrænnar talningar atkvæða.

Þá vísaði Hæstiréttur til fordæmis fyrir niðurstöðu sinni. Vísaði hann til þess að í réttarframkvæmd hefðu kosningar verið ógiltar þegar framkvæmd þeirra hefur verið í andstöðu við lög og til þess fallin að rjúfa kosningaleynd.

Þannig hefði til dæmis kosning í Helgafellssveit um sameiningu sveitarfélaga verið ógilt. Með þeim dómi var komist að þeirri niðurstöðu að kosningin skyldi ógilt þar sem kjörseðill var þannig úr garði gerður að skrift sást í gegnum hann þótt hann væri brotinn saman.

……….. og Hæstiréttur Sjálfstæðisflokksins hélt áfram:

Annað fordæmi er til úr réttarframkvæmd þar sem kosningar hafa verið ógiltar vegna brests á kosningaleynd.

Hreppsnefndarkosningar í Geithellnahreppi 25. júní 1978 voru ógiltar.

Líkt og í fordæminu sem Hæstiréttur vísaði til í ákvörðun sinni um stjórnlagaþingskosninguna, voru kjörseðlar þeir sem notaðir voru við þessa kosningu úr svo þunnu efni að skrift sást í gegn um þá þegar þeir höfðu verið brotnir saman!

**********

Meirihluti Alþingis sýndi Hæstarétti Sjálfstæðisflokksins svo fingurinn!

Nokkru eftir ákvörðunina umdeildu skipaði meirihluti Alþingis, Vinstri stjórnin, svokallað stjórnlagaráð, sem skyldi vera ráðgefandi um nýja stjórnarskrá.

Stjórnlagaráðið nýja var skipað flestum þeim er kosnir voru til stjórnlagaþingsins og tók til starfa um vorið – og samdi nýja heildstæða nútímalega Stjórnarskrá sem 52% þjóðarinnar styðja heilshugar að verði sett í gildi samkvæmt nýlegri könnun.

Hæstiréttur Sjálfstæðisflokksins var einfaldlega tekinn í bakaríið!

Fulltrúar í Stjórnlagaráði komu úr ýmsum áttum og flokkum og voru því ágætt þversnið af þjóðinni og þjóðarviljanum!

Þeir voru:

• Andrés Magnússon, læknir, Kópavogi

• Ari Teitsson, bóndi, Þingeyjarsveit

• Arnfríður Guðmundsdóttir, trúfræðiprófessor, Kópavogi

• Ástrós Gunnlaugsdóttir, nemi og stjórnmálafræðingur, Garðabæ

• Dögg Harðardóttir, deildarstjóri í Íslandsbanka, Akureyri

• Eiríkur Bergmann, dósent í stjórnmálafræði, Reykjavík

• Erlingur Sigurðarson, fv. forstöðumaður Húss skáldsins og kennari við MA, Akureyri

• Freyja Haraldsdóttir, framkvæmdastjóri og nemi, Garðabæ

• Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, Kópavogi

• Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Reykjavík

• Illugi Jökulsson, blaðamaður, Reykjavík

• Inga Lind Karlsdóttir, fjölmiðlamaður og háskólanemi, Garðabæ

• Katrín Fjeldsted, læknir, Reykjavík

• Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur, Reykjavík

• Lýður Árnason, læknir og kvikmyndagerðarmaður, Hafnarfirði

• Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður, Reykjavík

• Pawel Bartoszek, stærðfræðingur, Reykjavík

• Pétur Gunnlaugsson, lögmaður og útvarpsmaður, Reykjavík

• Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ, Reykjavík

• Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og aðjúnkt við HÍ, Reykjavík

• Vilhjálmur Þorsteinsson, stjórnarformaður CCP, Reykjavík

• Þorkell Helgason, stærðfræðingur, Svf. Álftanesi

• Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, Reykjavík

• Þórhildur Þorleifsdóttir, leikstjóri, Reykjavík

• Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur, Reykjavík

**********

Þetta fólk samdi drög að Stjórnarskrá sem tekur ágætlega á klúðri eins og varð við talninguna  í Norðvesturkjördæmi.

Eftir // Björn Birgisson

Höfundur er fyrrverandi ritstjóri og kennari

Ekki missa af...