Hvað snýr fram eða aftur í The Witcher?

Fyrsta serían af The Witcher þáttunum lenti í heilu lagi og allri sinni dýrð á Netflix þann 20. desember árið 2019. Þeir vöktu skiljanlega mikla athygli enda var mikil spenna fyrir útgáfunni. Þættirnir byggja á skáldskap pólska rithöfundarins Andrzej Sapkowski en bækurnar hans hafa verið þýddar á nærri því fjörutíu tungumál og hafa notið hylli um heim allan.

Bækurnar hafa einnig verið nýttar sem grundvöllur geysivinsælla tölvuleikja. Pólska tölvuleikjafyrirtækið CD Projekt Red framleiddi fyrsta leikinn árið 2007. Árið 2015 kom út sá þriðji, sem bar heitið Witcher 3: The Wild Hunt. Sá er margræddur sem einn besti tölvuleikur allra tíma og nýtur enn mikilla vinsælda í dag.

Henry Cavill vakti mikla lukku sem hinn lágmælti Geralt / Mynd: Netflix

Leikaraval þáttanna vakti líka athygli. Einn eftirsóttasti leikari okkar tíma, Henry Cavill, hreppti aðalhlutverkið.

Þrátt fyrir frábærar viðtökur er ekki hægt að horfa framhjá því að fyrsta serían er svolítið ruglandi. Um er að ræða sögusvið þriggja karaktera sem tvinnast saman.

Önnur serían kemur út 17. desember næstkomandi og því er upplagt að hámhorfa á þá fyrstu. Hér að neðan ætlum við hjá 24 að skýra tímalínuna og setja atburðina í samhengi, svona til að hita upp.

Ef það er ekki orðið skýrt núna þá er gott að taka það fram að stór Höskuldarviðvörun fylgir þessari grein. Ef þú hefur ekki séð fyrstu seríuna þá skalt þú bíða með að lesa meira. Horfa fyrst, lesa svo.

SÖGUHEIMUR SKRÝMSLA

Þættirnir snúast um þrjá megin karaktera – Geralt, Yennefer og Ciri. Bæði Geralt og Yennefer eru stökkbreytt sem þýðir að þau lifa talsvert lengur en hin venjulega manneskja. Þau virðast einnig ekkert eldast sem gerir tímalínurnar einstaklega ruglandi. Saga Ciri hins vegar gerist á um tveimur vikum. Það auðveldar útskýringar á söguþræðinum mjög mikið.

Sagan gerist á árunum 1206 til 1263 á landmassa sem heitir Heimsálfan (e. the Continent). Menn, dvergar og álfar lifa þar í ósátt og engu samlyndi við ókindir af ýmsu tagi, vampírur, uppvakninga og skrýmsli. Söguhetjan Geralt er nornari (e. witcher), en þeir eru stökkbreyttir einstaklingar sem ferðast á milli bæja og leysa skrýmslavandamál gegn greiðslu. Eins konar meindýraeyðir með samvisku.

Allsvakaleg breyting – enda kostaði hún sitt / Mynd: Netflix

Næsta söguhetja er Yennefer, seiðkona sem lærði fræði sín í galdraskólanum Aretuza. Bræðralag galdrafólks þjálfar þar ungt fólk sem hefur tök á göldrum til að aðstoða hirðir hinna ýmsu konunga.

Sú síðasta er Cirilla Riannon, eða bara Ciri, prinsessa ríkisins Cintra.

Saga Ciri gerist á einungis tveimur vikum / Mynd: Netflix

Söguþráður seríunnar er í raun samtvinnun þessa þriggja karaktera. Uppbyggingin er þó ágætlega löng og einmitt, ruglandi.

SAGAN Í TÍMARÖÐ

Byrjunarpunktur tímalínunnar er þegar Yennefer er seld á fjórar merkur til Tissaia og endapunkturinn er bardaginn við Sodden. Það ætti að ramma þetta ágætlega inn.

Til samanburðar þá var hægt að kaupa svín frá sama býli á tíu merkur / Mynd: Netflix

Þættir tvö og þrjú segja frá þróun og vegferð Yennefer. Hún lærir að beisla glundroðagaldurinn sinn og breytir útliti sínu allsvakalega.

Hún kemur sér fyrir við hirð konungs Aedirn konungsríkisins í staðinn fyrir að vera send í hið óvinsæla Nilfgaard. Samnemandi hennar Fringilla fer til hins síðarnefnda, sem hefur stórkostlegar afleiðingar. Þessi sögupunktur er að klárast í kringum árið 1210.

Fyrsti þátturinn gerist tuttugu árum síðar, árið 1231. Þá er sagt frá slæmri reynslu Geralt af bænum Blaviken. Seiðskrattinn Stregobor reynir að sannfæra hann um að drepa málaliðaforingjann Renfri. Hún reynir að sannfæra Geralt um að hjálpa sér að drepa Stregobor.+

Geralt reyndi eins og hann gat að vera óháður en það gerði því miður allt talsvert verra / Mynd: Netflix

Það endar með því að Geralt hlýtur uppnefnið Slátrari Blaviken (e. the Butcher of Blaviken), eitthvað sem fylgir honum næstu áratugi.

Árið 1240 gerist tvennt. Í þætti tvö kynnist Geralt söngvaskáldinu Jaskier sem fylgir honum til að finna djöful sem hafði herjað á bæinn Posada. Djöfullinn reynist vera álfakonungurinn Filavandrel sem þráir það að leysa fólk sitt undan ofsóknum manna. Geralt sannfærir hann um að fara með fólk sitt og byrja upp á nýtt.

Geralt og Jaskier er sleppt og brothætt vinátta þeirra hefst. Jaskier syngur og trallar um ævintýri Geralt, honum til mikils ama.

Jaskier elskar að syngja. Geralt er ekki hrifinn / Mynd: Netflix

Sama ár gefst Yennefer upp á því að vera við hirðina eftir þrjátíu ára starfsferil. Hún hættir og ákveður að verða flakkaraseiðkona. Frá þessu er sagt í þætti fjögur.

Í þætti þrjú er sagt frá bardaga Geralt við bölvaða prinsessu í formi striga skrýmslis í konungsríkinu Temeria. Þar fáum við einnig ógnvænlega innsýn í hin duldu frávik konungshirðar.

Árið 1249 er svo óumdeilanlega mikilvægasti punktur sögunnar, þegar Geralt óvart tryggir sér föðurhlutverkið. Það þarf ekki að þylja upp atburði þáttar fjögur, enda nóg sem gerist, en þar eru óvæntulögin útskýrð.

Eist, leikinn af Birni Hlyni, er einn af þeim sem reddar málunum í þætti fjögur / Mynd: Netflix

Fimmti þátturinn sýnir okkur fyrstu kynni Geralt og Yennefer, árið 1256. Barátta þeirra við djinn endar með ástarlotum.

Í sjötta þætti erum við nokkurn veginn komin í reglulega tímalínu. Geralt, Yennefer og Jaskier hjálpa ævintýramanninum Borch að veiða dreka, eða hitt þó heldur.

Svo kemur að nútímanum, sem er sagt frá í öllum átta þáttunum – innrás Nilfgaard ríkis í Cintra konungsveldið. Calanthe tekst á við afleiðingar þess að ögra örlögunum og Eist fellur í bardaga. Ciri er handsömuð af riddara Nilfgaard en tekst að sleppa. Hún er rúmar tvær vikur að flýja hingað og þangað áður en hún finnur Geralt. Á meðan hjálpar Yennefer sjálfstæðu seiðfólki að berjast við heri Nilfgaard við Sodden virki.

HVAÐ NÆST?

Þrátt fyrir ótvíræðar vinsældir þáttanna þá þótti sagnabálkur þessi vera nokkuð ruglandi. Það ætti að vera huggun til áhorfenda að næstu tvær seríur (já, það er búið að staðfesta þá þriðju) verða í réttri tímaröð.

Fyrsta serían er byggð á tveimur smásagnasöfnum Sapkowski sem eiga sér stað áður en aðalsaga Witcher seríunnar byrjar. Þetta er því góð byrjun, en búið er að mála upp ansi áhugaverðar aðstæður.

Yennefer og hitt seiðfólkið hafa gefið allt sem þau eiga til að tefja heri Nilfgaard og riddaralið Temeria er nýkomið á völlinn til að sópa upp rest. Geralt var næstum því dauður eftir að hafa barist við ódauðar skepnur (hvort ætli þetta hafi verið nekker eða ghoul?) en tekst að finna Ciri.

Hvernig fer bardaginn á milli Nilfgaard og Temeria? Hvers vegna er Nilfgaard svo sólgið í að fanga Ciri?

Bókaaðdáendur vita svörin við þessum spurningum, en hin okkar verða að bíða til 17. desember.

Ekki missa af...