Hvað í ósköpunum er að gerast?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Hvað í ósköpunum er að gerast á íslenskum fjarskiptamarkaði?

Ég hafði ekki gefið þessu mikin gaum annað en það sem flestum okkar finnst að eitthvað meira búi að baki sölu Símans á Mílu og að maðkur sé í mysunni.

Eftir að ég setti fram ályktun á fundi fulltrúaráðs Lífeyrissjóðs verslunarmanna til stjórnar um að kallað verði til hluthafafundar í Símanum vegna sölu Símans á Mílu, til að fá svör, fór ég sjálfur að kanna málið betur. Með smá vinnu og góðri hjálp frá Google komst ég að ótrúlegum “tilviljunum” um þessi viðskipti.

Og virðist málið vera miklu alvarlegra og dýpra en mig óraði fyrir.

Eins og flestir vita eiga Stoðir (gamla FL group) um 16% hlut í Símanum og eru stærsti einstaki hluthafi á eftir lífeyrissjóðunum sem eiga samanlagt um 62% hlut með beinum og óbeinum hætti.

Það er almennt vitað að Stoðir hafa stjórnað þeirri vegferð, að selja innviði Símans, sem vekur upp spurningar hvernig gamalkunnar viðskiptablokkir eru enn og aftur að gera sig gildandi í íslensku viðskiptalífi og tæma nú hvert félagið á fætur öðru af verðmætum innviðum af ástæðum sem ættu að vera okkur öllum kunnar (efnhagshrunið 2008) og mikið áhyggjuefni. Má þar nefna Skeljung og Sýn og fleiri félög.

En hvað í ósköpunum er að gerast á íslenskum fjarskiptamarkaði?

Síminn er að selja mikilvæga innviði Mílu á 78 milljarða til fjárfestingasjóðsins Ardian. Nær ómögulegt er að komast að því hverjir nákvæmlega eiga þennan franska fjárfestingasjóð. Samhliða sölunni er gerður 20 ára leigusamningur milli Mílu og Símans, samningur sem ómögulegt er að segja til um hvaða áhrif hefur á stöðu Símans til lengri tíma, hvað þá neytendur.

Við vitum þó að 80% af tekjum Mílu koma frá Símanum og við vitum að viðskiptavinir Símans, almenningur, mun borga þessa fjárfestingu upp í topp og rúmlega það. Við vitum líka að tekjur Mílu duga hvergi nærri til að greiða þessa 78 milljarða fjárfestingu Ardian.

Hvað hangir á spítunni?

Þá kemur að því sem ég rakst á við flettingar á vefnum.

Sýn og Nova seldu nýverið mikilvæga innviði er tengjast 5G uppbyggingu til Digital Colony en svo segir í frétt VB frá 11.febrúar 2021.

„Digital Colony, er langt kominn með að ljúka kaupum á svokölluðum óvirkum fjarskiptainnviðum af Sýn og Nova fyrir um 13 milljarða króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þá vinnur félagið að því að fjármagna kaupin að hluta með útgáfu skuldabréfs í krónum upp á 8 til 9 milljarða króna. Fjárfesting í skuldabréfunum hefur verið kynnt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum fjárfestum á síðustu vikum af fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur umsjón með fjármögnuninni hér á landi.

Sýn og Nova munu leigja innviðina aftur af kaupandanum. Sýn sagði fyrst frá viðræðunum með tilkynningu í október þar sem fram kom að um 6 milljarða króna söluhagnaður myndist við söluna en hefur ekki gefið upp hver kaupandinn sé.

Gangi kaupin eftir má vænta þess að innviðirnir verði endanlega í eigu sjóðs í stýringu hjá Digital Colony, sem sérhæfir sig í stýringu fjárfestinga á ýmsum stafrænum innviðum á borð við gagnaverum, fjarskiptamöstrum, ljósleiðarakerfum og öðrum sambærilegum eignum.“

Samkvæmt annari frétt VB frá 18.maí eygir Sýn á frekari sölu fjarskiptainnviða til ónefndra aðila.

Þá kemur stóra spurningin. Tengjast þessir fjárfestingasjóðir, sem eru á góðri leið með að eignast fjarskiptainnviði Íslands.

Svarið er Já.

Ef þú setur Digital Colony og Ardian inn á Google leit kemur í ljós að sjóðirnir hafa unnið náið saman í kaupum á fjárskiptainnviðum sem teygja sig til norður Ameríku og Evrópu. Digital Colony og Ardian tengjast í kringum kaupin á Zayo Group LLC. Einnig má fletta upp fleiri áhugaverðum tengslum og viðskiptasamböndum þessara sjóða.

Nú hafa báðir þessir sjóðir gert samninga um kaup á mikilvægum fjarskiptainnviðum á íslandi.

Digital Colony við Sýn og Nova sem inniheldur 20 ára leigusamning um afnot á sömu innviðum og seldir voru.

Ardian við Símann sem inniheldur 20 ára leigusamning um afnot af sömu innviðum og seldir voru.

Eftir standa stórar spurningar.

Hvaða stöðu eru íslenskra neytendur í þegar tengdir aðilar hafa með kaupum á mikilvægum fjarskiptainnviðum íslands tryggt 20 ára samninga við alla fjarskiptarisa Íslands? Hver verður samkeppnin?

Og trúir því einhver að sjóðir sem starfa náið saman á öðrum mörkuðum fari að keppa á litla Íslandi?

Eru nafntogaðar viðskiptablokkir, sem ráða í skjóli minnihlutaeignar á móti lífeyrissjóðunum, að komast yfir gríðarlega fjármuni með innviðasölu þessara fyrirtækja og fórna í leiðinni langtímahagsmunum heillar þjóðar fyrir skammtímagróða? Eitthvað sem ætti að vera landsmönnum kunnuglegt viðskiptamódel. 

Hvernig standa þessi fyrirtæki eftir viðskiptin þegar þau hafa verið tæmd að innan og læst inni í 20 ára viðskiptasambandi við fjárfestingasjóði sem engin veit hver raunverulega á.

Við hljótum að biðla til stjórnvalda, samkeppniseftirlitsins, lífeyrissjóðanna og eftirlitsaðila að hefja opinbera rannsókn á þessum viðskiptum og stoppa þau af á meðan hún stendur yfir.

Eftir // Ragnar Þór Ingólfsson – Höfundur er formaður VR

Ekki missa af...