Hvað á að vera í sjúkrakassanum þínum?

Það er mismunandi eftir heimilum hvað er talið staðalbúnaður. Fólk og fjölskyldugerðir af öllu tagi eru með mismunandi heimilishald og þarfir. Við getum allavega haldið því fram að það er ekki hægt að hafa nákvæmlega sömu hluti á tveimur mismunandi heimilum.

Hvað hins vegar er hægt að telja sem viðurkenndan staðalbúnað fyrir öll heimili? Það eru venjulega hlutir sem hafa að gera með öryggi. Lang flesta af þessum hlutum er nokkuð auðvelt að finna og hafa við hendi, eins og slökkvitæki, reykskynjara eða eldvarnarteppi.

Annað öryggistengt er eitthvað sem er aðeins erfiðara að finna og setja saman, en það er sjúkrakassi. Mælt er með því að hafa alltaf sjúkrakassa á þekktum stað á heimilinu og í bílnum. En hvað viljum við hafa í þessum kössum?


Plástrar og sáraumbúðir

Það er hægt að slasast á marga vegu innan veggja heimilisins. Skrámur og smáskurðir geta myndast við minnstu óhöpp, þá er gott að hafa plástra.

Pakki af plástrum, annað hvort aðskildir í mismunandi stærðum eða ein rúlla sem hægt er að klippa niður, er eitt það mikilvægasta sem hægt er að hafa í sjúkrakassa. Ef margir eru á heimilinu, þá sérstaklega börn, getur pakkinn klárast ansi hratt. Þú gerir þér ekki grein fyrir mikilvægi plástra fyrr en það er smáskurður á heimilinu og tómur plástrapakki í kassanum. Fyllum reglulega á þetta.

Plástrar koma í mismunandi pakkningum

Eins og fyrr segir eru plástrar góðir fyrir skrámur og smáskurði, en fyrir stærri sár og meiri blæðingu þarf eitthvað stærra. Til þess þurfum við sáraumbúðir, en þær koma í nokkrum gerðum. Sárabindi í rúllum eða innpakkaðar grisjur geta skipt sköpum með að loka sárum og stöðva blæðingar.

Grisjur eru innpakkaðar og dauðhreinsaðar umbúðir, oft ferhyrningslaga í ýmsum stærðum. Grisjan þarf að vera stærri en sárið sem binda á um. Sáraumbúðir eru þykkari og draga í sig raka, ef stöðva þarf blæðingu eða loka á stærra sári.

Til eru fleiri tegundir af sárabindum

Sárabindi koma í handhægum rúllum og er gott að nota til að binda utan um umbúið sár, til að festa grisjur eða jafnvel þrýsta á þær til að stöðva blæðingu frekar.


Mismunandi áhöld en mikilvæg

Það er varla hægt að vera með alla þessa plástra og öll þessi bindi án verkfæra. Ýmis tól þarf fyrir ýmis verk.

Það getur til dæmis verið vesen að þurfa að hlaupa fram í eldhús að finna skæri til að geta unnið með sárabindi og plástra. Góð skæri í kassanum geta sparað tíma og tár þegar verið er að loka sárum.

Það er ekki eina tólið sem er mikilvægt að hafa. Flísatöng er fjölhæft áhald sem þú vilt ekki vera án.

Meðhöndlun sára er líka ekki eitthvað sjálfsagt, óhreinar hendur geta gert illt verra. Hægt er að nota sáraservíettur, eða þurrkur með sótthreinsivökva, til að hreinsa sár áður en bundið er um það. Einnig er bara hægt að nota plasthanska eða latex hanska. Það er einnig eitthvað sem þarf að passa að klárist ekki.

Ef það þarf að fínhreinsa eitthvað sár er einnig gott að hafa eyrnapinna eða bómullarpúða í kassanum.

Til að festa umbúðir gæti þurft öryggisnælur, sem sakar ekki að hafa með.


Teygjubindi og spelkur

Sum meiðsl eru ekki með opnu sári. Ef útlimir eða liðir verða fyrir hnjaski er gott að hafa við hendi teygjubindi sem styður við snúna liði – allavega á leiðinni upp á slysadeild.

Þau eru líka mikilvæg fyrir áunnin meiðsl eins og sinaskeiðabólgu. Það er nokkuð þægileg tilfinning að geta teygt sig í kassann og fundið teygjubindi þegar einhver úlnliður á heimilinu fer að láta illa. Annars þarf að hlaupa út í apótek.

Ef bein brotnar á heimilinu þarf oftar en ekki að fara rakleiðis á slysadeild. Það gæti linað þjáningar aðeins að hafa spelku í kassanum, en til eru handhægar spelkur sem eru fyrirferðarlitlar þangað til það þarf að nota þær. Þetta er ekki endilega staðalbúnaður í hefðbundnum sjúkrakassa á fjölskylduheimili, en samt eitthvað sem er gott að hafa.

Einn góður kassi

Eins og með spelkuna er hægt að bæta ýmsu við eða taka ýmist út, eftir því sem hentar hverri og einni fjölskyldu. Sumum hentar að hafa skolglas fyrir augu, ef einhver óþverri berst í augu heimilisverja. Aðrir hafa mismunandi tegundir af töngum og einnig er hægt að hafa algjört Hagkaups úrval af sárabindum og grisjum.

Það sem við höfum talið upp hér að ofan er þó hægt að kalla algjöran staðalbúnað. Efni sem þarf klárlega að hafa og er hægt að nota í mörgum mismunandi aðstæðum.

Hægt er að finna sér útbúna kassa í apótekum eða einfaldlega finna ílát í hæfilegri stærð og kaupa sjálf inn það sem þið teljið mikilvægast. Hér að neðan er það talið upp í handhægum lista.

  • Plástrar, annað hvort í ýmsum stærðum eða rúllu
  • Sáraumbúðir, þá helst grisjur eða sárabindi
  • Skæri og flísatöng
  • Sáraservíettur
  • Einnota latex hanskar
  • Eyrnapinnar í lokuðum umbúðum
  • Öryggisnælur
  • Teygjubindi

Ekki missa af...