Huginn Þór kærir 24: „Ég er gjörsamlega brjálaður. Algjör aumingjaskapur. Lúffarar“

24 hefur verið kært til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun sína um Karlmennskuspjallið. Kærandi er Huginn Þór Grétarsson, barnabókahöfundur, en hann var virkur meðlimur hópsins allt þar til honum var lokað.

Huginn Þór var á samsettri mynd yfir meðlimi hópsins en var ekki nefndur á nafn í umfjölluninni sjálfri. Huginn var mjög virkur á karlmennskuspjallinu og alltaf stóð til að birta hin ýmsu ummæli eftir Huginn í umfjölluninni enda af nægu að taka.

Í kæru sinni segir Huginn Þór víða ráðist á sig vegna myndbirtingarinnar.

„Ég hyggst ekki eyða miklum tíma í kvörtun sem þarf ekki mörg orð, er augljóslega siðlaus árás á hóp einstaklinga sem eru eins ólíkir og þeir eru margir, þó fáeinir kunni að láta óheppileg orð falla, þá smyrja blaðamenn mig við slík ummæli með myndbirtingu.“


VIRKUR MEÐLIMUR HÓPSINS

24 harmar það að ummæli Hugins hafi ekki birst í upprunalegu umfjölluninni. Huginn var mjög virkur meðlimur hópsins og tjáði sig um alls kyns málefni. Þess vegna þótti full ástæða til að myndbirta hann sem og vitna í skrif hans. Alltaf stóð til að birta hin ýmsu ummæli eftir Huginn í umfjölluninni enda af nægu að taka.

Á meðal þess sem hann tjáði sig um nýlega er mál landsliðsmanna í fótbolta.

Þann 26. ágúst tók Sigríður Hagalín Björnsdóttir viðtal við Guðna Bergsson, þáverandi formann KSÍ. Þá sagði Huginn:

„Sést alveg hvers konar áróður hún stundar og vitnar í Hönnu, kennara í Borgarholtsskóla. Tanja Ísfjörð forsvarskona Öfgar segist hafa orðið femínisti í náminu hjá henni, en áður glímdi sú unga og ómótaða kona við mikil andleg veikindi. Ekki gott ef Hanna er að ala upp fólk sem forherðist í að úthrópa fólk án þess að veita því rétt til andsvara.“

Athugasemd Hugins er hér eins og hún birtist á hópnum.

Þess má geta að Guðni sagði ósatt í viðtalinu. Hann fullyrti að engin erindi vegna ofbeldis landsliðsmanna hefðu borist inn á borð sambandsins.

Aron Einar Gunnarsson varð til umræðu á sama tímabili varðandi mál sem átti sér stað árið 2010. Aron þvertók fyrir að eitthvað ofbeldisfullt hefði átt sér stað og vildi mæta í skýrslutöku.

Huginn Þór var mjög ósáttur við þá umfjöllun og sagði í Karlmennskuspjallinu. „Ég er gjörsamlega búinn að fá nóg,“ sagði hann í færslu þar sem hann deilir frétt um málið. „Í dag fékk ég enn einn úrskurð frá eftirlitsnefnd á Íslandi sem starfar í anda femíniskra áhrifahópa.“

Hann heldur áfram og tekur fram að ef Aron verði dæmdur fyrir brot; „þá gott og vel, en þangað til þá er þetta klikkun.“

Í annarri athugasemd við sína færslu segir hann:

„Ég er gjörsamlega brjálaður. algjör aumingjaskapur. Lúffarar. Þvílíkir aumingjar að standa ekki í lappirnar. Dómstóll götunnar hefur tekið völdin. “

Hann er líka einn meðlima sem tjáði sig um Þorsteinn V. Einarsson, kynjafræðing sem heldur úti aðgerðasíðunni Karlmennskan. Þorsteinn deildi í vor færslu þar sem hann talaði um jákvæða karlmennsku. Huginn deildi færslunni og hafði þetta að segja:

„Nú er Þorsteinn eitthvað að reyna að draga sig frá upphaflegri neikvæðri umræðu, „eitruð karlmennska“ o.s.frv. og talar um jákvæða karlmennsku. Vissulega strax skárra en ristir ekki djúpt á þeirri gleði, UN Women ummæli bera með sér að feðraveldið verði fyrst að bæla niður svo jákvæð karlmennska fái að þrífast … “

Ummælin hans eru í heild í skáskotinu hér að neðan.


FORRÆÐISDEILA OG DADDYTOO

Huginn Þór hefur oft komið fyrir í fréttum og þjóðfélagsumræðu. Hann hefur verið einn af forsvarsmönnum DaddyToo hreyfingarinnar Forræðisdeila hans og Maariu Päivinen var gerð skil í grein Stundarinnar þann 23. desember árið 2017.

Umræður sköpuðust víða um greinina en Huginn taldi umfjöllunina einhliða í þágu Maariu. Málinu lauk árið 2019, Maariu í vil. Hún fékk að snúa aftur til Finnlands með barnið.

Huginn hefur að eigin sögn unnið þrjá meiðyrðadóma, en þar á meðal stefndi hann Gyðu Dröfn Laaigaili Hannesdóttur fyrir ummæli sem hún lét falla í umræðum um þetta mál.

Einnig stefndi hann Önnu Þórey Arnardóttur fyrir ummæli sem hún lét falla í umræðu um málið.

Hann er einn af stofnendum DaddyToo hreyfingarinnar. Hún leit dagsins ljós árið 2018 sem einskonar mótsvar við byltingunni sem hófst með myllumerkinu #metoo. Sú bylting varð til þess að konur deildu sögum af kynferðislegri misnotkun til að sýna fram á fjölda slíkra atvika í daglegu lífi.

DaddyToo hafði það að markmiði að sýna fram á hve mörgum feðrum er meinað að hitta börn sín af barnsmæðrum.

24 – ÞÍNAR FRÉTTIR biður Huginn Þór afsökunar á að ummæli hans hafi ekki birst í afhjúpun um Karlmennskuspjallið og harmar um leið ef það hefur valdið honum skaða. Ritstjórn 24.is telur rétt að bregðast við á þann hátt að birta hluta þeirra ummæla sem Huginn hefur látið falla um konur og femínista á Karlmennskuspjallinu og áttu að standa upphaflega í greininni.

Greinin hefur verið leiðrétt í samræmi við það.

Arnór Grjót Ívarsson blaðamaður og Kristjón Kormákur, ritstjóri 24.

Ekki missa af...