Hreyfing á hryggnum og íbúar varaðir við

„Íbúar á Seyðisfirði eru hvattir til varkárni á göngustígum með fram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina niður skriðustraumum. Þá eru allir þeir sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará og utan við Múla beðnir um að sýna varkárni einnig.“

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Almannavarnir sendu frá sér rétt í þessu.

Mælingar sýna að enn er hæg hreyfing á hryggnum milli stóra skriðusársins frá því í desember 2020 og Búðarár. Hryggurinn er talsvert sprunginn og mælar sýna að bútar hans færast ekki allir í sömu átt.

Því er talið líklegt að hann fari niður í pörtum en ekki allur í einu. Óvíst er hvenær það gerist. 

Vegna þessa eru íbúar sem fyrr hvattir til varkárni á göngustígum með fram Búðará og annars staðar þar sem varnargarðar beina skriðustraumum. Þá eru allir þeir sem leið eiga um Hafnargötu við Búðará og utan við Múla beðnir um að sýna varkárni einnig.

Enn er í gildi óvissustig almannavarna á Seyðisfirði. Þá minna Almannavarnir á Hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Ekki missa af...