Hrefnu blöskraði þegar hún sá frétt Mannlífs: Truflaði sorgarferli aðstandenda látins manns:

Það var snemma laugardagsmorguns þann 18. september í fyrra að nánustu fjölskyldu Atla Þórs Ólafssonar barst símtal sem mun líklega aldrei líða þeim úr minni. Atli Þór, sem hafði verið búsettur í Mexíkó, var látinn.

Heima á Íslandi, í annarri heimsálfu, var fjölskylda Atla í áfalli, lömuð af sorg. Þegar loks tókst, eftir miklar krókaleiðir, að fá jarðneskar leifar Atla heim til Íslands, tók önnur glíma við. Á vef Mannlífs birtist umfjöllun um Atla Þór sem fjölskyldan telur að hafi ekki átt neitt erindi í fjölmiðla. Ættingjar Atla Þórs saka Mannlíf um að hafa valdið þeim mikilli sorg á útfarardaginn.

Þetta er hluti af ítarlegri umfjöllun 24 um reynslu aðstandenda af Mannlífi.

ÞREKRAUN AÐ FÁ JARÐNESKAR LEIFAR ATLA HEIM

„Vikurnar fyrir útförina tóku virkilega mikið á okkur öll,“ segir Hrefna Höskuldsdóttir, móðursystir Atla, í samtali við 24. „Hátt í sex vikur liðu áður en við fengum Atla heim.“ 

Atli Þór féll frá í miðjum kórónaveirufaraldri, sem þýðir að fjölskyldan átti ekki þann kost að senda ættingja til Mexíkó til að sækja jarðneskar leifar hans.

Þar sem ekkert íslenskt sendiráð er í Mexíkó þurfti fjölskyldan að treysta á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Leitað var til sendiráðs Íslands í Washington sem þurfti að tala máli fjölskyldunnar og aðstoða embættismenn í Mexíkó við erfiðar aðstæður. Þær segja Borgaraþjónustuna hafa staðið sig vel.

„Í Mexíkó er ekkert einfalt, reglur samfélagsins eru allt aðrar en við eigum að venjast,“ segir Hjördís systir hans Atla, en hún er spænskumælandi og mæddi mikið á henni þessar vikur. 

Atli Þór lést í annarri heimsálfu í miðjum heimsfaraldri. Mynd / Aðsend

Um tíma leit út fyrir að ekki tækist að koma jarðneskum leifum Atla heim til Íslands.

Sex vikum síðar, eftir ótal símtöl og skeytasendingar barst loks jákvætt svar. 

„Það var því mikill léttir þegar það gerðist loksins. Fjölskyldan sá loksins fram á að geta haldið áfram, eða öllu heldur hafið sorgarúrvinnslu,“ segir Hjördís. 

Þrautagöngu fjölskyldunnar var hvergi nærri lokið. Daginn sem Atli Þór átti að vera jarðsunginn, birti Mannlíf endursögn á minningarorðum um hann sem höfðu þá birst í Morgunblaðinu. Sorgarferli aðstandenda, í jarðarför með fimmtíu manna samkomutakmörkum, eftir sex vikna óvissu og bið, truflaðist talsvert.

Hrefna segir í samtali við 24:

„Það fyrsta sem hún sagði við mig var; „Ertu búin að sjá Facebook?“ og svo sýndi hún mér „fréttina.“ Á vef Mannlífs var greint frá því að Atli Þór væri látinn. Líkt og í fjölmörgum öðrum greinum sem Mannlíf hefur birt um andlát ungs fólks, án þess að ræða við aðstandendur, hafði starfsmaður vefsíðunnar tekið afrit af minningargreinum aðstandenda og birt í flokknum fréttir.

Hrefna heldur áfram:

„Ég varð mjög reið. Það hafði aldrei hvarflað að mér að þetta gæti átt sér stað. Mér fannst traðkað á mínum tilfinningum enda mín orð notuð sem millifyrirsögn.“

Ekki missa af...