Hinseginleikanum fagnað og dularfullur gripur þingmanns

Þingmenn, bæði nýir og gamlir, fagna þingsetningu í dag, þrátt fyrir dimmt og kalt veður. Setningin var í kjölfar guðsþjónustu og húmanískrar hugvekju á vegum Siðmenntar. Þingmönnum var úthlutað sætum og það verður áhugavert að sjá hvernig fer á milli sessunauta.

Sjá einnig: Alþingi sett í dag í skjóli heimsfaraldurs

Fólk var duglegt að tjá sig um daginn á samfélagsmiðlum. Myndum var deilt, sögur sagðar og áfanganum almennt fagnað. Þó er óvíst hvort þingsætaskipanin verður svona í lok vikunnar. Þingmenn kjósa um réttmæti kosninganna eftir mikla óvissu um endurtalningu í norðvesturkjördæmi.

FAGNA FJÖLBREYTILEIKANUM

Samtökin 78 vöktu athygli á því að fjórir hinsegin þingmenn sátu þingsetninguna. Það eru fleiri en hafa nokkurn tímann verið. 

Af þeim fjórum eru þrjú fyrir Vinstri Græn, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Jódís Skúladóttir og Orri Páll Jóhannsson. Sú fjórða er Hanna Katrín Friðriksson, en hún situr fyrir Viðreisn.

Guðmundur Ingi var umhverfis- og auðlindaráðherra síðasta kjörtímabil. Samkvæmt helstu spám spekúlanta mun hann halda því sæti, en auðvitað er allt mögulegt í ráðherrakapli íslenskra stjórnmála.

Jódís Skúladóttir er nýr þingmaður Vinstri Grænna í norðausturkjördæmi. Hún er lögfræðingur að mennt og var fulltrúi Vinstri Grænna í nýju sveitarfélagi á Austurlandi áður en hún kom á þing.

Þjóðgarðsvörðurinn Orri Páll Jóhannsson hefur verið varaþingmaður síðan árið 2017. Hann komst inn á þing í uppstokkuninni sem átti sér stað við endurtalningu í norðvesturkjördæmi. 

Hanna Katrín Friðriksson hefur verið þingmaður Viðreisnar síðan árið 2016. Alla þá tíð hefur hún verið formaður þingflokksins. 

Hér er tilefni til að fagna fjölbreytileikanum.

FAGNAR MEÐ ÁFENGISLAUSUM

Kristrún Frostadóttir birti mynd af sér á Facebook þar sem hún skálaði í 0% bjór til að fagna deginum. Hún er ný á þing eftir að hafa leitt lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður. 

Hún er hagfræðingur að mennt og starfaði lengi hjá Kviku fjárfestingarbanka. 

RASSINN TEIKNAÐUR Á KORTIÐ

Andrés Ingi Jónsson var þingmaður Vinstri Grænna á síðasta kjörtímabili en sagði sig úr flokknum og gekk svo í raðir Pírata. 

Hann birtir þessa mynd þar sem heldur óheppileg tala hans myndar rassafar í þingstólinn.

SYRGIR FALLNA FÉLAGA

Lilja Alfreðsdóttir Framsóknarkona segir að þó þingsetning hafi verið mikil gleðistund þá hafi Framsóknarmenn syrgt fallinn félaga.

Lilja birti þessa mynd af sér með Þórunni og Sigurði Inga / Mynd: Facebook

„Þingsetningardagur er alltaf hátíðlegur dagur í mínum huga,“ skrifar Lilja á Facebook. „ Guðsþjónustan, sparifötin og allir félagarnir úr þinginu saman á ný, þetta er mikil gleðistund! Að sama skapi var þetta sérstök stund, þar sem við vorum að minnast fráfalls Þórunnar Egilsdóttur fv. þingmanns og þingflokksformanns og Jóns Sigurðssonar fv. formanns Framsóknarflokksins og ráðherra. Blessuð sé minning þeirra. Það vill svo til að þetta er afmælisdagur Þórunnar.“

DULARFULLUR GRIPUR ÞINGMANNS

Gísli Rafn Ólafsson er nýr á þing fyrir Pírata, einn af fimm sem komst inn eftir endurtalningu í norðvesturkjördæmi. Hann heiðraði afa sína, Axel og Einar, sem báðir sátu á þingi á sínum tíma. Á barmi Gísla var heiðursmerki sem ætti í raun heima á safni.

Barmmerki Gísla sem heiðrar báða afa hans / Mynd: Facebook

„En í dag fagna ég því að vera á þingi og ákvað að nota þennan viðburð til þess að heiðra þá afa mína Axel og Einar með því að bera í barmi mínum þetta samsetta barmmerki, en þeir sátu báðir a þinginu um árabil fyrir sitt hvorn enda hins pólitíska litrófs,“ skrifar Gísli.

„Fáninn er hluti af heiðursmerki ÍSÍ sem afi minn Axel var sæmdur. Peninginn fékk afi minn Einar sem þökk fyrir að sitja í nefndinni sem uppfærði stjórnarskrána þegar Ísland varð lýðveldi 17. Júní 1944.“

Barmerkið er þó alveg einstakt að sögn Gísla. „Til gamans má geta að eftir að Einar afi og hinir í nefndinni fengu þennan pening uppgvötaðist að undir skjaldarmerkinu stendur Made in USA. Nefndarmenn voru beðnir um að skila þeim og fá nýja en afi ákvað að halda sínum. Því er þetta sennilega eina eintakið sem segir að lýðveldið hafi verið búið til í USA.“

Ekki missa af...