Hildur semur tónlist fyrir nýjustu mynd Cate Blanchett

Tónskáldið og Óskarsverðlaunahafinn Hildur Guðnadóttir mun semja tónlistina fyrir kvikmyndina TÁR með stórleikkonunni Cate Blanchett í aðalhlutverki. Frá þessu var fyrst greint á vef Dresdner fílharmóníunnar í Þýskalandi en tökur á TÁR fóru fram í Berlín og hófust í lok ágúst síðastliðinn. 

Kvikmyndin fjallar um brautryðjandann Lydiu Tár, fyrstu konuna til að gerast stjórnandi veigamiklar sinfóníuhljómsveitar í Þýskalandi, og fer Blanchett með sjálft titilhlutverkið. Myndin kemur úr smiðju hins margverðlaunaða Todd Field, sem áður vakti mikla hylli gagnrýnenda og áhorfenda með kvikmyndunum In the Bedroom og Little Children.

Þess ber að geta að TÁR er hans fyrsta kvikmynd í fimmtán ár en myndin er framleidd af Focus Features og væntanleg árið 2022. Auk Cate Blanchett fara Nina Hoss, Sydney Lemmon og Noémie Merlant með helstu hlutverk.

Nýjungar í spilum

Á undanförnum árum hefur Hildur Guðnadóttir verið ein sú eftirsóttasta í kvikmyndabransanum undanfarin ár og með þeim virtari, með mörg járn í eldinum og vænt safn af verðlaunastyttum. Vorið 2020 varð Hildur fyrsti Íslendingurinn til að hljóta hin eftirsóttu Óskarsverðlaun. Þetta var hápunkturinn á ótrúlegri sigurgöngu tónskáldsins en frá því í september 2019 hefur hún unnið Emmy, Golden Globe, Grammy og BAFTA auk Óskarsins. Hefur Hildur notið mikillar hylli, þá fyrir tónlistina í þáttunum Chernobyl og kvikmyndinni Joker.

Í nóvember 2020 var Hildur orðuð við að semja tónlistina fyrir nýjustu kvikmynd leikstjórans David O’Russell, með Margot Robbie, Christian Bale og John David Washington í aðalhlutverkum. Fréttamiðlar höfðu staðfest ráðningu Hildar en samkvæmt heimildum gekk það samstarf ekki upp.

Annars vegar er Hildur jafnframt fyrsti Íslendingurinn til að semja tónlist fyrir tölvuleik, en það er fjölspilunarskotleikurinn Battlefield 2042 sem gefinn verður út 22. október. Leikurinn er framleiddur af sænska leikjafyrirtækinu Dice og er gefinn út af Electronic Arts á PC, Playstation og XBox. Tónlistina samdi Hildur í samstarfi við Sam Slater, eiginmann sinn sem einnig er tónskáld. Þau unnu saman að gerð tónlistarinnar fyrir Joker.

Ekki missa af...