Hið unga á móti hinu gamla

Það var hart barist um forsetasætið í Chile um helgina. Sjö buðu sig fram í fyrri umferð en aðeins tveir hlutu næg atkvæði til að fara í seinni umferðina. Tveir karlmenn sem segja má að gætu ekki verið ólíkari.

Annar var José Antonio Kast, fimmtíu og fimm ára gamall lögfræðingur og leiðtogi Repúblikanaflokks Chile. Kast er íhaldsamur markaðssinni sem studdi meðal annars einræðisstjórn Augusto Pinochet.

Hinn var Gabriel Boric, þrjátíu og sex ára gamall fyrrum leiðtogi stúdentahreyfingar. Hann hefur setið á þingi síðan 2013, fyrst sem sjálfstæður og svo fyrir Breiðfylkinguna, kosningabandalag ýmissa vinstrisinnaðra flokka.

Boric er eins konar andstæða við bæði Kast og fráfarandi forseta, Sebastián Piñera. Þegar hann tekur sæti sitt í mars á næsta ári verður hann næst yngsti þjóðkjörni leiðtogi heims.

SVAR VIÐ KRÖFUM BORGARA

Það er ekkert gripið úr lausu lofti að mennirnir tveir séu ólíkir, næstum því eins og svart og hvítt. Boric er húðflúraður, þekktur fyrir að vera þungarokksaðdáandi og talar fyrir róttækum samfélagsbreytingum.

José Kast hins vegar er hluti af íhalds- og nýfrjálshyggjumenningu hins gamla Chile.

Gabriel Boric nýtur greinilega vinsælda í landinu / Mynd: AFP

Í október árið 2019 byrjuðu Sílebúar, fyrst um sinn stúdentar, að mótmæla síhækkandi fargjaldaverðum í almenningssamgöngur. Mótmælin stigmögnuðust og dreifðust um allt land, spilling og ójöfnuður urðu aðalmálefni mótmælenda. Spjótin beindust einnig að Piñera, spilltur efnamaður sem birtist meðal annars í Pandóruskjölunum.

Kosningarnar í ár snerust að miklu leyti um svar við mótmælunum. José Kast vildi fara í hart, byggja upp lögregluna enn frekar og fjölga fangelsum.

Boric hins vegar kallaði eftir félagslegu réttlæti. Hann vill hækka skatta á tekjuhæstu einstaklinga landsins og leggja meira í félagslegu kerfin, eitthvað sem mótmælendur hafa krafist síðasta árið.

Hann hefur verið hluti af þessum mótmælum í meira en tíu ár. Hann varð forseti stúdentaráðs Háskólans í Chile árið 2011, eftir að hafa leitt stúdentaráð laganema.

INNFLYTJANDI Á MÓTI INNFLYTJENDUM

José Antonio Kast hefur verið líkt við Donald Trump í kosningabaráttunni. Hann vildi banna þungunarrof, eitthvað sem hefur bara verið löglegt í Chile í rúm fjögur ár, leggja niður ráðuneyti kvenna- og jafnréttismála og taka Chile úr Mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna. Einnig er hann mikið á móti getnaðarvörnum af öllu tagi.

Kast og fjölskylda hans var mjög viðloðin einræðisstjórn Augusto Pinochet sem var við lýði frá 1974 til 1990. Talið er að rúmlega 2,000 manns hafi verið tekin af lífi á tímum Pinochet sem réði með harðri hendi. Bróðir hans var meðal annars ráðherra í ríkisstjórn Pinochet. José sjálfur kom fram opinberlega og studdi einræðisstjórnina á sínum tíma.

José Antonio Kast er hinn póllinn í kosningunum, íhald, markaðshyggja og nýfrjálshyggja.

Í kosningabaráttunni var hann einnig mikið gagnrýndur fyrir andstöðu sína gegn innflytjendum, staða sem hann byggir mikið af orðræðu sinni á. Faðir hans, Michael Kast Schindele, var þýskur hermaður í seinni heimstyrjöld. Hann var einnig skráður í Nasistaflokkinn og flúði til Argentínu þegar Þýskaland fór í gegnum afnasismavæðingu í kringum 1950. José er því sonur innflytjenda.

NOKKUR MET SLEGIN

Nokkur met voru slegin í kosningunum. Í fyrsta lagi verður Boric yngsti leiðtogi landsins frá upphafi. Hann verður einnig á meðal yngstu þjóðkjörna leiðtoga heims.

Fjöldi atkvæða vakti einnig athygli. Í fyrri umferðinni gengu rétt rúmlega sjö milljón manns að kjörstöðum en í seinni umferðinni voru það 8,1 milljón manns. Boric hlaut 4,5 milljón atkvæði, fleiri en nokkur annar frambjóðandi hefur fengið í landinu.

Það er ómögulegt að segja hvað gerist næst, en ljóst er að almennir borgarar í landinu krefjast breytinga og réttlætis. Boric á erfitt verk fyrir höndum, að tala fyrir félagslegum kerfum í landi sem er kallað fæðingarstaður nýfrjálshyggjunnar.

Ekki missa af...