„Hey, þetta er eins og í Simpsons“

Bíll skrikar í gegnum snjóþungan veg, farþeginn segir ökumanninum að fara varlega. „Við höfum ekki tíma til að fara varlega, við erum sein!“ svarar ökumaðurinn og klessir bílnum í snjóskafl fyrir utan grunnskóla. Kórsöngur ómar út á bílastæði.

Svona hófst fyrsti þátturinn af The Simpsons sem var frumsýndur á þessum degi fyrir þrjátíu og tveimur árum síðan. The Simpsons er óumdeilanlega eitt áhrifamesta sjónvarpsefni allra tíma. Þó ævintýri gulu fjölskyldunnar speglast í raunveruleika millistéttar Bandaríkjamanna geta flest allir tengt á einhvern hátt við raunir þeirra og hefðir. Persónur sem fjölskyldan hittir á förnum vegi eru ýktar og staðalmyndir eru mikið notaðar til að sýna fram á fáránleika hversdagslegs lífs.

Vitnanir í Simpsons má finna víða. Andlit fjölskyldumeðlimana eru heimsþekkt og dúkka upp h+er og hvar, bæði í kvikmyndum og þáttum. Þrjátíu og þremur seríum síðar njóta þættirnir enn mikilla vinsælda þrátt fyrir eftirtektarverðan mun á gæðum.

En hvernig kom þetta allt saman til?

NÖFN ÚR EIGIN FJÖLSKYLDU

Teiknarinn Matt Groening hafði gefið út myndasögurnar Life in Hell síðan 1978. Tengingin við Simpsons er aðallega í formi teiknistíls Groening, en brandarar og mótíf sem eru staðalbúnaður Simpsons höfunda í dag koma margir hverjir beint úr Life is Hell.

Árið 1985 var James L. Brooks nokkuð farsæll framleiðandi í Hollywood, seríur hans á borð við Mary Tyler Moore Show og Taxi höfðu notið vinsælda. Einnig var hann nýkominn með tvenn Óskarsverðlaun fyrir myndina Terms of Endearment.

James L. Brooks og Matt Groening / Mynd: Getty

Þeir hittust það ár með það að markmiði að framleiða teiknaða örþætti fyrir þátt Tracey Ullman, sem Brooks var að framleiða. Upprunalega planið var að framleiða þætti úr Life in Hell myndasögunum, en aðalpersónurnar þar eru talandi kanínur sem lenda í alls kyns vitleysu. Groening bjó til myndasögurnar til að sýna vinum sínum hvernig lífið í Los Angeles var dags daglega.

Hins vegar fattaði hann að ef gera ætti þætti með kanínunum þyrfti hann að gefa frá sér allan rétt til frambúðar. Í flýti ákvað hann frekar að koma með hugmynd að þætti um fimm manna millistéttarfjölskyldu. Nöfnin tók hann frá eigin foreldrum og systkinum, sínu eigin nafni breytti hann í Bart.

Fyrstu örþættirnir voru sýndir sem hluti af Tracey Ullman þættinum árið 1987. Teiknistíllinn var mjög hrár, enda teiknaðir til lífs beint eftir frumteikningum Groening.

Tveimur árum síðar tóku þau sem unnu að örþáttunum höndum saman og framleiddu The Simpsons sem sér seríu.

MISTÖK Í TEIKNINGU

Fyrsti þátturinn fékk heitið Simpsons Roasting on an Open Fire, vitnun í lagið The Christmas Song, sem hefst á línunni chestnuts roasting on an open fire. Þátturinn var það sem kaninn kallar Christmas Special, eða jólasérþáttur. Slíkir þættir eru algengir á hátíðartímum. Hins vegar er það ekki endilega algengt að nota slíkan sérþátt sem fyrsta þátt nýrrar seríu.+

Jólin eru allsráðandi í fyrsta þætti Simpsons.

Enda átti það alls ekki að vera svo. Það sem varð svo lokaþáttur fyrstu seríu, Some Enchanted Evening, átti að vera upphaf Simpsons fjölskyldunnar á litla skjánum.

Sá þáttur fjallar í stuttu máli um hjónabandsörðugleika Homer og Marge, mjög algengt þema í þáttunum. Þau ákveða að fara út að borða og gista á hóteli á meðan barnapía passar börnin þrjú. Sú reynist vera ósvífinn innbrotsþjófur, börnin neyðast til að að sigra hana sjálf.

Mistök urðu á teikningu þáttarins, endurgera þurfti ríflega helminginn af honum þegar hann átti að vera tilbúinn til sýningar. Ágreiningur kom upp á milli teiknunarfyrirtækisins og framleiðenda og frumsýningunni var seinkað.

Þrátt fyrir að Some Enchanted Evening átti að þjóna sem kynning á öllum persónum seríunnar þá var ákveðið að breyta röðuninni og sýna jólasérþáttinn fyrst.

ÓTVÍRÆÐ ÁHRIF

Restin segir sig sjálf. Þættirnir eru enn í gangi, fyrir löngu síðan búnir að festa sig á stalli sem eitt áhrifamesta sjónvarpsefni allra tíma. Nýyrði úr þáttunum eru komin í orðabækur enskunnar, slagorð krakkaskrattans Bart voru á tímabili hrópuð eins og einkunnarorð nýrrar kynslóðar og fólk hefur speglað sig í hegðunum fjölskyldunnar – hvort sem það sé góð eða slæm hegðun.

Þá er ekki minnst á rómaða spádómshegðun handritshöfundanna. Í þætti árið 1994 var gert grín að því að hestakjöt væri notað í nautakjötskássu. Níu árum síðar komst upp að hestakjöt var að finna í miklum mæli í nautakjötsvörum í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Það er stundum sagt að listin spegli lífið. Hægt er að finna atriði úr The Simpsons sem er viðeigandi við flestar aðstæður daglegs lífs. Enn er hægt að finna áratugagamla þætti sem virðast gera fullkomið grín sem á við málefni líðandi stundar. Tímalausir þættir sem er alltaf hægt að hlæja að.

Ekki missa af...