Héruð, auður og vald

Eftir Ásgeir Jónsson

Upphafleg ætlun landnámsmanna Íslands var að byggja upp hersisdæmi eða héruð. En hérað taldi 120 bændur undir stjórn hersis – eða hershöfðingja. Landnám Skallagríms í Borgarfirði, Helga magra í Eyjafirði, Auðar djúpúðgu í Dölum og Ketils hængs í Rangárvallasýslu – allt voru þetta tilvonandi héruð þar sem landi var úthlutað manna í skiptum fyrir fylgispekt. Stærð þessara svæða var því til þess að skapa vald fremur en auð.

Héraðsskipulag var ráðandi á Norðurlöndum á landnámstíma og ævaforn meðal Germana. Þegar engilsaxar tóku undir sig England var landinu skipt upp í 120 búa svæði sem kölluð voru hundred. Og raunar voru nýlendur Englendinga í N-Ameríku settar upp með sama hætti. Þegar Danir náðu undir sig Englandi – skipulögðu þeir einnig 120 búa stjórnsvæði sem hétu vopnatök. Sama skipulag lá því beint við hér- líkt og annars staðar þar sem germanskir þjóðflokkar námu land.

Héruð voru praktískar stjórnunareiningar. Allir héraðsmenn komu síðan saman einu sinni í mánuði, á opinberum stað undir beru lofti, til að fara með lög og dóma og ákvarða mál undir forustu hersis. Og hlýða herhvöt ef stríðshætta skapaðist.

Héraðssmíðin gekk misjafnlega. hjá íslenskum landnámsmönnunum. Slyngust var Auður djúpúðga – er gerði Dali að þéttri valdaeiningu. Skallagrímur spilaði illa úr sínu stóra landnámi. Sama á átti við um Ingólf í Reykjavík – sem tapaði stórum hluta af sínu svæði þar til hann fékk aðstoð frænda sinna að byggja upp valdamiðju í Kjalarnesi og Kjós.

Á endanum varð hérað ekki lögformleg stjórnunareining. Þess í stað spruttu upp goðorð tengd við persónur en ekki landsvæði – en þau urðu til í tengslum við blótsamkomur höfðingja. Hér skiptir máli að Íslendingar þurftu ekki landvarnir. Þá var heldur ekkert konungsvald til þess að styðja við hersisvald. Héraðsmyndun hófst á nýjan leik þegar goðorðin tóku að safnast saman á fárra hendur og upp risu héraðsríki sem voru á forræði ættarhöfðingja, íslenskra hersa.

Við tók tími sem er nú þekktur sem Sturlungaöld.

Höfundur er Seðlabankastjóri

Ekki missa af...