Helgi lengdur um rúma 40 sentímetra: „Þeir reyndu að ná um tveimur millimetrum á dag“

Árin 1982 og 1984 fór íslenskur drengur, Helgi Óskarsson, í lengingaraðgerðir til Síberíu. Lengdist hann þá alls um 31 sentimetra, og var orðinn 148 sentimetrar að hæð að þeim loknum.

Helgi er fæddur í maí 1969 og ólst upp í Hlíðunum. Hann átti að mörgu leyti góða æsku en varð þó fyrir aðkasti og stríðni sökum litningagalla sem olli dvergvexti hjá Helga. Þessi fæðingargalli olli dvergvexti hjá Helga en eftir þrjár aðgerðir á rúmum þremur árum hafði hann stækkað um rúma 40 sentímetra. Bein hans voru brotin með meitli og strekkt í sundur sem olli honum óbærilegum kvölum.

Í ítarlegu viðtali við DV 12. apríl árið 2016 sagði Helgi skólagönguna hafa verið erfiða í æsku. Þetta er hermt eftir Helga:

Af því að ég var öðruvísi þá var ég sendur í Öskjuhlíðarskóla sem reyndist mér mjög þungbært. Þar fékk ég engan veginn þá örvun sem að ég þurfti. Þjóðfélagið var einfaldlega ekki upplýstara á þessum tíma, sem afsakar þó ekki hvernig komið var fram við mig.“

Norska vikublaðið sem öllu breytti

Frumkvöðullinn Gavriil Abramovich Ilizarov.

Árið 1981 keypti móðir Helga fyrir tilviljun norskt vikublað sem reyndust örlagarík kaup. „Í því var grein um ítalskan dreng sem einnig var dvergvaxinn. Hann fór í byltingarkennda meðferð sem að snerist um að lengja beinin í líkamanum og þannig bætti hann við sig þónokkrum sentimetrum.

Það var frumkvöðullinn Gavriil Abramovich Ilizarov sem hafði umsjón með aðgerðum Helga í borginni Kurgan í Síberíu í þáverandi Sovétríkjunum. Í fyrra skiptið var hann lengdur um 18 sentimetra og 13 í seinna. Ilizarov þróaði sérstaka aðferð og búnað til þess að lengja fólk en mikil tortryggni mætti sovéska lækninum til að byrja með.

Aðgerðirnar voru mjög sársaukafullar og var Helgi til dæmis hengdur upp á nóttunni, of sársaukafullt var að liggja alla nóttina. Spítalinn í Kurgan sérhæfði sig í þessum aðgerðum og voru fjöldi barna frá ýmsum Evrópuríkjum þar, þar á meðal 19 ára íslensk stúlka, Valgerður Hansdóttir.

Mynd: DV – 21. desember, 1984

Járnhringir settir utan um beinið

Sjúkrahúsið sem Helgi fór á var umdeilt með afbrigðum. Á ensku hét það Kurgan Research Institute for Experimental and Clinical Orthopaedics and Traumatology og í forsvari fyrir það var læknirinn og frumkvöðullinn dr. Gavriil Abramovich Ilizarov. Hann þróaði sérstaka aðferð og búnað til þess að lengja fólk en mikil tortryggni mætti sovéska lækninum til að byrja með. 

Andúð læknayfirvalda í Moskvu sem og alþjóðasamfélagsins var mikil en smám saman fór árangur aðgerðanna að tala sínu máli og hróður dr. Ilizarovs barst víða. Aðferðir hans voru teknar upp um allan heim og meðal annars hafa slíkar aðgerðir verið framkvæmdar hér á landi. Eins og nafnið gefur til kynna var spítalinn í borginni Kurgan, sem er ein elsta borgin í gjörvallri Síberíu, í 2.000 kílómetra fjarlægð frá Moskvu.

Aðgerðin sem Helgi undirgekkst og byggði á uppgötvunum Ilizarov fólst í því að bein hans voru brotin með eins konar meitli og síðan voru langir naglar boraðir í gegnum beinið á nokkrum stöðum. Því næst voru staðboltar og járnhringir settir utan um beinið til þess að geta skrúfað beinbrotin í sundur, fjórum sinnum á dag. „Þeir reyndu að ná um tveimur millimetrum á dag. Utan um leggina var síðan grind, eins konar spelkur, sem hélt öllu í stað,“ sagði Helgi.


Helgi fór út í sína aðra aðgerð árið 1983, þá á fjórtánda aldursári. Ætlunin var að lengja lærbeinin og laga beinin sem voru nokkuð bogin sem þýddi að Helgi var æði fattur. „Aðgerðin á lærunum var langverst. Þetta var gjörsamlega óbærilegur sársauki og reglulega öskraði ég og grét til skiptis. Ég hélt á tímabili að ég væri hreinlega að deyja,“ sagði Helgi. 

Hann var svæfður þegar beinin voru brotin og búnaðinum komið fyrir en að öðru leyti var lítið um að hann honum væru gefin verkjalyf. „Þeir sem önnuðust mig voru sparir á verkjalyfin, aðallega svo að ég yrði ekki háður þeim en eflaust líka út af kostnaði,“ sagði Helgi. Kvalirnar gerðu að verkum að fljótlega byrjaði hann að deyfa sársaukann með því, sem er líklega einkennandi fyrir ímynd Sovétríkjanna í Vesturlöndum, vodka.

Drakk mjólk af áfergju

Helgi fór í þriðju og síðustu aðgerðina árið 1989 þegar upphandleggirnir voru lengdir. Sú aðgerð var auðveld miðað við það sem á undan var gengið. Vel hafði gengið að lengja fótleggina og þegar þarna var komið sögu hafði Helgi því lengst um tæpa fjörtíu sentimetra. Við upphaf fyrstu aðgerðarinnar var hann 114 sentimetrar á hæð en við lok annarrar aðgerðarinnar var hann orðin 155 sentimetrar.

Helgi vakti mikla athygli ytra fyrir þá staðreynd að líkami hans var óvenju fljótur að mynda bein. Ungur aldur hans hjálpaði eflaust til en aðalástæðan var leynivopn sem að faðir hans bar í son sinn daglega. „Pabbi keypti daglega ferska mjólk sem ég drakk af áfergju. Ég held að það hafi verið lykilatriðið sem og lýsið sem pabbi kom með að heiman,“ segir Helgi. Það var svo sannreynt þegar feðgarnir tóku Ítala á fertugsaldri undir sinn verndarvæng.

„Beinin mynduðust mjög hægt í honum, það gerðist eiginlega ekki neitt. Pabbi fór þá að kaupa aukaskammt af mjólk handa honum og píndi ofan í þennan vin okkar,“ segir Helgi. Árangurinn lét ekki á sér standa og fljótlega fóru bein Ítalans að vaxa og gróa.

Þá einkenndi matarskortur veruna í Kurgan. Erfitt var að fá máltíðir á spítalanum og þegar mat var að fá á annað borð þá var hann gjörsamlega óætur að mati Helga. „Pabbi lét sig stundum hafa það. Hann fór hins vegar alla daga út í bæ til þess að kaupa ætan mat handa mér,“ sagði Helgi.

Ekki missa af...