Heimsmálin rædd og leyst

Dagur 817 – Fjör á Önnubar.

Það var haldinn Íslendingadagur á Önnubar í gær, reyndar ekki á mínum Önnubar heldur á Ann & Annas, sænskum bar sem er vestast í Los Cristianos og er síðasta hálmstrá okkar sem búum í Los Cristianos, enda löng leið héðan til Adeje þar sem opinberir Íslendingabarir eru til húsa, Nostalgia, Bambú og einhverjir fleiri sem ég kann ekki að nefna, allir fyrir túrhestana og fjarri okkur sem búum hér. Ég komst ekki, of mikið að gerast á mínum Önnubar, nánar tiltekið á svölunum heima hjá mér.

Um hádegið fékk ég skilaboð. Við viljum færa þér bók, sagði röddin. Þarna voru mætt heiðurshjónin frá Dalvík, Svanfríður og Jóhann, hún fyrrum alþingismaður og síðar bæjarstýra Dalvíkurbyggðar, hann frábær penni og höfundur nýju bókarinnar.

Það var mikið spjallað og mörg heimsmálin rædd og leyst á Önnubar en svo þurftu þau að gera annað og ég hélt til Golf del Sur að sækja næstu hjón sem biðu mín. Brynja og Þorvaldur búandi á Kalastöðum í Hvalfjarðarsveit, biðu mín þar. Hún fyrrum útibússtjóri gamla Íslandsbanka á Akranesi, síðar í öllum nefndum og ráðum sem fyrirfinnast í Hvalfirði, hann vélvirki og fyrrum bóndi á Kalastöðum í sömu sveit, foreldrar vina minna, Rakel Báru, Bjarka Þórs og Írisar Bjargar sem öll eru vinir mínir á Facebook og í persónu.

Við fórum saman út að borða og þar sem ég nennti ekki með þau á La Casa í gamla bænum fóru við á The Treasure, kínverskan veitingastað á næsta götuhorni. Þar sem við sátum þar og nutum veitinganna rak ég augun í hjón á næsta borði. Voru þar komin hjónin frá Dalvík og urðu þar fagnaðarfundir.

Eftir kvöldverðinn á Kínastaðnum og síðan stuttrar viðkomu á Þarnæstabar hélt hver til síns heima, en í dag efni ég loforð mín um kaup á fleiri tappatogurum og vonast til að hitta þau aftur sem fyrst.

Síðast keypti ég tólf, jafnmarga tappatogurum sem voru smíðaðir í Stralsund í Austur-Þýskalandi fyrir 1960 (Flott skip). Nú nokkra fleiri sem mega alls ekki kenna sig við Boizenburg enda alvöru tappatogarar og þá meina ég tappatogara til að toga tappa úr flösku.

Í dag á ég von á einni frænkunni til Paradísar, en Unnur frænka og Páll maður hennar eru væntanleg hingað í dag. Ég reikna fastlega með því að þau líti við á Önnubar ef þau eiga leið um Los Cristianos.

Eitt að lokum. Vinsamlegast réttið upp hönd sem aldrei hafið komið til Tenerife!

Eftir // Önnu Kristjánsdóttur.

Ekki missa af...