Hættulegur innflutningur frá Íslandi

Dagur 811 – Litla Klif.

Ég hafði ekki reynt á mig um skeið er ég ákvað að láta 1. nóvember verða að tímamótum enn á ný. Að undanförnu hafði ég verið dálítið of dugleg við brauðát og bjórdrykkju án nokkurrar hreyfingar nema þá undir stýri á Mjallhvíti og kominn tími til að snúa þróuninni við svo ég færi ekki aftur upp að þriðju tölunni í þyngdinni. Rykið var dustað af MyFitnessPal og af baðvigtinni sem og af stuttbuxunum, gönguskónum og stöfunum.

Það var lítið um brauðát í morgunmat og þess í stað hlaupið upp Litlu-Klif og allt gekk ljómandi vel þar til ég fór að nálgast vitringana mína sem er klettur uppi á Litlu-Klif. Er þangað var komið var mér orðið verulega flökurt og var því ekki farið lengra, heldur farið niður aftur og heim.

Er heim var komið var flökurleikinn farinn, en vottaði fyrir höfuðverk. Það var því ekki farið lengra í gær, en bætt verður úr þessu í dag, en fjallið fær að hvíla til morguns.

Takmarkið er enn á ný, í kjólinn fyrir jólin.

—–

Nú er slíkur fjöldi gamalla skólafélaga kominn til Paradísar að við sem vorum saman í barnaskóla að Brúarlandi í Mosfellssveit getum farið að halda bekkjarmót. Þannig mun ég hitta tvö bekkjarsystkini mín í dag í Kofanum (The Cottage). Þetta voru gáfuðustu börnin í bekknum og skiptust iðulega á um að vera efst á öllum prófum og fengu ekkert nema öfund af minni hálfu sem kunni ekki neitt. Annað gáfnaljósanna mátti svo eiga það að þegar ég skildi ekki hlutina í heimalærdómnum tók viðkomandi að sér að útskýra fyrir mér hlutina á barnamáli, svo vel að ég sit að stærðfræðikunnáttunni enn í dag. Ég vil þó taka fram að aðalkennarinn okkar er uppáhaldskennarinn minn í gegnum lífið, en hann kenndi okkur frá hausti 1960 og þar til ég fór til Reykjavíkur haustið 1963 og stóð sig frábærlega vel í kennslunni og síðan hinum einu ári betur.

Reyndar er svo einn gamall kennari í gaggó Mos hér einnig og ég vil endilega hitta hann áður en hann fer til Íslands um helgina.

—–

Ég heyrði í fréttum frá Íslandi að sóttvarnalæknir ætli að leggja til hertar aðgerðir á landamærum. Mér líst vel á það og að lokað verði fyrir útflutning smita frá Íslands hingað til Paradísar. Smitin á Íslandi eru að nálgast það að verða sexfalt fleiri miðað við íbúafjölda en á Tenerife svo að við verðum að loka fyrir þennan hættulega innflutning á smitum frá Íslandi. Annars verður allt í tómu tjóni í Paradís.

Amen.

Eftir // Önnu Kristjánsdóttur.

Ekki missa af...