Hættið þessu strax áður en skaðinn verður meiri

Ég hef nú alveg jafn mikinn áhuga á cóvid og næsti maður, en mér er gersamlega ómögulegt að heillast af fréttum af illmenninu Omíkron. Samkvæmt fréttum veit enginn enn hvort fólk smitist frekar af omíkron en af öðrum afbrigðum cóvid, né hvort fólk verður veikara eða líklegra til að deyja. Samt er okkur sagt frá ferð omíkron um heiminn eins og frönsk dagblöð sögðu frá ferð Napóleon frá Elbu til Parísar; óargadýrið tekur land í Golfe-Juan, skepnan svaf í Grenoble, harðstjórinn fór um Lyons, valdaræninginn stefnir á Dijon.

Það má vera að omíkron verði fagnað á endanum, eins og raunin varð með Napóleon; ég ætla svo sem ekki að spá því. En það er eitthvað bogið við þessar fréttir, eins og gervallur fjölmiðlaheimurinn sé fastur í hamfaragír og ráði ekki við sig. Það er margt viðfangsefni samfélagsins sem er miklu stærra, mikilvægara og áhugaverðara en cóvid, málefni sem við ættum miklu heldur að ræða, greina og fjalla um.

Ef fjölmiðlar vakna ekki er hætt við að við séum að sigla inn í alheimsku þar sem yfirvöld sækja sér ótakmörkuð völd í krafti þess að þau séu að verja okkur fyrir óskilgreindri ógn; svipað og fasistarnir í Bandaríkjunum halda samfélaginu í helgreipum og réttlæta það með stríði gegn hryðjuverkum, ógninni af Kim Jong-un eða einhverju enn heimskulegra. Sá sem hallmælir stefnunni er skilgreindur sem óþjóðlegur, stuðningsmaður hryðjuverka eða eitthvað ámóta.

Það má strax sjá afleiðingar þessa hér heima á huga valdafólks. Flokksformennirnir þrír sátu til dæmis í Ráðherrabústaðnum um daginn og stokkuðu upp stjórnarráðið án þess að ræða við nokkurn mann, hvorki starfsfólk né verðandi ráðherra, alsannfærð um takmarkalaust umboð sitt, eins og Guð hefði valið þau til að stjórna. Í umhverfi þar sem sífellt er hamrað á stríðsástandi og ógn, sífellt leitað til yfirvalda um vernd og aðgerðir, þar grasserar fasisminn og valdboðið í litla heila ráðafólks, alræðið skýtur rótum.

Því segi ég við fjölmiðlafólk:

Hættið þessu strax áður en skaðinn verður meiri. Ykkar hlutverk er ekki að teikna upp ógn og selja almenningi þá hugmynd af yfirvöld eigi að vernda okkur.

Ykkar hlutverk er að greina samfélagið, rekja afleiðingar ákvarðana valdsins og gefa almenningi rödd.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokki Íslands

Ekki missa af...