„Hægt og bítandi þrengist hringurinn“

„Ingi Tryggvason. Sá er í vondum málum. Hann er kominn í þá stöðu sem Nixon elskaði að setja andstæðinga sína í: „Let the bastards deny it!“ Ingi þarf að neita því að hafa átt við atkvæðin.“

Þetta skrifar Björn Birgisson, fyrrverandi ritstjóri, í pistli sem 24 birtir og má lesa hér. Björn segir að Ingi sé einfaldlega í vondum málum og sé hægt og bítandi að draga Alþingi niður í svaðið, þar sem Ingi er nú þegar.

Ingi er formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi en sífellt fleiri telja þörf á því að kjósa aftur þar. Eftir endurtalningu á atkvæðum breyttust aðstæður í kjördæminu til muna. Fimm þingmenn misstu sætið sitt og komu fimm í staðinn. Öll spjót beinast að Inga enda maðurinn sem ber ábyrgð á klúðrinu.

Björn segir Inga þurfa að skýra margt: „Hann þarf útskýra þennan eina bunka Viðreisnar sem gjörbreyttist og breytti úrslitunum á örlagaríkan hátt hjá 10 þingmönnum. Bunkann sem hann rataði fyrst á þegar hefja átti endurtalninguna! Hann þarf ekki aðeins að útskýra þann bunka fyrir þjóðinni, heldur líka fyrir öðrum meðlimum kjörstjórnarinnar, fólki sem augljóslega grunar hann um græsku.“

Að sögn Björns þarf Ingi einnig að útskýra hvers vegna innsigli voru ekki notuð eins og í öðrum kjördæmum og ekki síst hvers vegna hann laug um svo margt hvað varðar geymslu atkvæða. Einnig þarf hann að gera skil á símanotkun sinni á kosninganótt og sunnudagsmorgun.

„Hægt og bítandi þrengist hringurinn. Og Ingi Tryggvason situr í honum miðjum. Það sem verra er. Hann er búinn að draga Alþingi inn í þann sama hring,“ segir Björn.

Hann segir nauðsynlegt að kjósa aftur. Annað komi ekki til greina. „Fari Alþingi að lögum þarf að kjósa aftur. Það er kosturinn sem meirihluti Alþingis vill ekki. Kjósi Alþingi að láta aðra hvora talninguna gilda er löggjafarsamkoma þjóðarinnar komin niður á sama skítaplanið og Ingi Tryggvason. Slíka lögleysu mun hugsandi hluti þjóðarinnar aldrei fyrirgefa. Hinn hlutinn er hrifinn af lögbrotum og lögleysum.“

Ekki missa af...