Guðni kveður flaggskip Íslands – Lifði árás Breta: „Saga þeirra sem sinntu störfum um borð í þjóðarþágu mun lifa“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, heiðrar á Facebook minningu varðskipsins Týs sem og allra þeirra sem staðið hafa í áhöfn skipsins. Skipið hefur varið strendur Íslands í tæpa hálfa öld en Bretar voru nærri því að sökkva skipinu í fiskveiðideilunum árið 1976. Týr lauk sinni síðustu ferð í dag en varðskipið Freyja mun taka af keflinu af Tý. 

Það er vel við hæfi að Guðni heiðri minningu skipsins enda helsti sérfræðingur Íslands í sögu þorskastríðana. Guðni skrifar: „Fullkomnasta skip íslenska flotans.“ Þannig komst Guðmundur skipherra Kjærnested að orði þegar varðskipið Týr kom til landsins í mars 1975. Þetta nýja flaggskip Landhelgisgæslunnar reyndist afar vel í þeim átökum sem þá voru í vændum, síðasta þorskastríðinu þegar efnahagslögsaga Íslands var færð út í 200 sjómílur og berjast þurfti við erlenda landhelgisbrjóta. Kom þá til átaka við bresk herskip og dráttarbáta. Í þeirri orrahríð stóð áhöfn Týs fyrir sínu, rétt eins og aðrir liðsmenn Gæslunnar. Í dag lauk síðustu ferð þessa notadrjúga varðskips okkar. Saga þess og þeirra, sem sinntu sínum störfum um borð í þjóðarþágu, mun lifa.”.

T.V. Guðmundur Kjærnested og hluti af áhöfn hans árið 1975. T.H. Síðasti skipsfundurinn. Myndir: Landhelgisgæsla Íslands

Landhelgisgæslan fer yfir einnig yfir sögu þessa víðförla skips á vef sínum. Skipið lagðist að Ingólfsgarði í fyrsta skipti þann 24. mars 1975. Þá var það dýrasta skip flotans en það kostaði milljarð króna að núvirði. Ekki leið að löngu þar til skipið sannaði mikilvægi sitt því þriðja þorskastríðið skall á síðar um árið, þann 14. nóvember. Þá tók ný lögsaga gildi en Bretar og togarar þeirra héldu áfram veiðum innan hennar. Þá var tekið til ráðs sem í dag er löngu orðið þekkt, varðskipin Þór og Týr hófu að skera á víra togara.

Bretar tóku þessu herkænskubragði afar illa og urðu ryskingar skipa því stöðugt hatrammari. Varðskipið Týr slapp ekki óskaddað en stuttu eftir áramót skröpuðust Týr og HMS Andromeda saman á fullum hraða. Á íslenskum vef Wikipedia er stærstu „sjóorrustu“ þessa stríðs lýst svo:

„Í kjölfarið kom til fjölda árekstra en verður saga þeirra ekki rakin hér utan einnar og er hún hin alvarlegasta: mættu þá varðskipin Baldur, Óðinn, Týr og Ver fjórum freigátum skammt undan Austfjörðum 6. og 7. mars 1975 og slapp ekkert skipanna átta óskaddað úr þeirri viðureign. Allhvasst var og úfinn sjór þegar skipin mættust en breskir togarar voru þar að toga. Baldur sigldi á HMS Mermaid og tók hana þannig úr leik þar sem stór rifa myndaðist á síðu hennar og tók hún mikið vatn í kjölfarið.

Óðinn glímdi við HMS Gurkha en sú viðureign endaði án sigurvegara á meðan Týr sótti að togurunum með HMS Falmouth skammt á eftir sér og Ver áttist við HMS Galateu sem reyndi af fremsta megni að halda honum frá togurunum. Týr kom úr rimmunni sem hin mesta hetja eftir að HMS Falmouth klessti á hann svo litlu munaði að honum hvolfdi en þegar hann hafði rétt úr sér sigldi hann beint af augum og skar á vír togarans Carlisle.

Var HMS Falmouth þá aftur í sóknarfæri og sigldi á Tý svo enn minna munaði að honum hvolfdi. Skipverjar sem leitað höfðu skjóls í þyrluskýli skipsins voru undir í nokkurn tíma og telja má víst að þeir hefðu allir drukknað ásamt mönnum í vélarrýminu ef skipið hefði ekki rétt úr sér á undraverðan hátt. Voru bæði HMS Falmouth og Týr, auk HMS Mermaid og Óðins, úr leik það sem eftir var þorskastríðanna.“

Týr og Freyja við Faxagarð.

Háskasamt að sækja sjóinn

Sjómennskan hefur lengi verið Guðna hugleikið enda var afi hans, Guðni Thorlacius, skipstjóri og hafði verið til sjós í meira en hálfa öld. Á sínum langa ferli sinnti afi líka landhelgisgæslu og lenti þá í ýmsum svaðilförum.

„Ég var bara smástrákur þegar afi féll frá á gamals aldri. Af samtölum við móður mína og fleiri í fjölskyldunni veit ég hins vegar vel hversu þungbært það var honum þegar Hermóður fórst. Um borð voru starfsfélagar hans og vinir til margra ára,“ sagði Guðni í samtali við DV árið 2019. Þar undirstrikar Guðni að miklar líkur séu á að æviferill afa hans hafi haft áhrif á að hann hafi ákveðið að skrifa í sagnfræðinámi um landhelgisdeilur og þorskastríð. Guðni segir:

„Þar að auki hafa náfrændur mínir í föðurætt unnið hjá Landhelgisgæslunni og nefni ég þá helst þjóðhetju okkar Íslendinga, Guðmund Kjærnested. Á námsárunum ræddi ég oft við hann um átökin á miðunum og naut þess mjög.“

Á sínum langa ferli sinnti afi líka landhelgisgæslu og lenti þá í ýmsum svaðilförum. Til dæmis þráaðist einn breski togaraskipstjórinn við þegar afi vildi færa skip hans til hafnar og hugðist sigla heim á leið. Gamli Ægir þurfti að skjóta um 30 sinnum að togaranum, War Grey, uns sá breski gafst upp. Þetta var á stríðsárunum og um darraðardansinn má meðal annars lesa í Virkinu í norðri, 3. bindi,“

segir Guðni og tekur einnig fram í viðtalinu að ​hollt sé að minnast þess að háskasamt sé að sækja sjóinn en fagnar um leið þeim framförum sem hafa orðið í öryggismálum sjómanna.

Sjá einnig: „Stærsta áfall sem hefur hent íslensku vitaþjónustuna fyrr og síðar“

Ekki missa af...