Guðni hefur gefið 15 milljónir af umdeildri launahækkun: Hvetur alla til að láta gott af sér leiða

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur frá árinu 2016 gefið launahækkun sína frá Kjararáði til góðgerðarmála. Upphæðin sem Guðni hefur látið af hendi rakna nemur nú um fimmtán og hálfri milljón króna.

Það var í nóvembermánuði árið 2016, aðeins degi eftir alþingiskosningar, að Kjararáð hækkaði laun þingmanna um við kaldar móttökur landsmanna. Þingmenn hækkuðu um 390 þúsund krónur eða 44.3% á einu bretti. Ráðherrar fengu í sinn hlut 570 þúsund krónur og forsetinn um hálfa milljón.

Á blaðamannafundi þann 2. nóvember árið 2016, stuttu eftir tilkynningu Kjararáðs, greindi Guðni frá því að hann myndi gefa launahækkunina til góðgerðarmála. Fréttamaður spurði hvert mismunurinn myndi fara og forsetinn svaraði með þessum fleygu ummælum:

„Þarf ég að segja það? Á ég að vera einhver Móðir Theresa hérna sem gortir sig af því?“

Í skriflegu svari til 24 segir forsetaritari að Guðni hafi ekki tekið saman hversu há upphæðin er sem hann hafi látið af hendi rakna til góðgerðarmála. Í apríl 2020 greindi Hringbraut frá því að upphæðin næmi um 12 milljónum. Miðað við þær tölur er forsetinn í dag búinn að gefa af launahækkun sinni eingöngu í kringum 15.5 milljónir króna.

Kveðst forsetinn leitast við að láta gott af sér leiða án þess að það sé talið honum til tekna í fjölmiðlum. Í svari forseta til 24 segir að Guðni „[hafi] ekki áhuga á að varpað verði sérstöku ljósi á þessar greiðslur hans til góðgerðarmála en hann hvetur alla sem á því hafa tök að gera slíkt hið sama.“

Ekki missa af...