Grímuskylda og hámark 500 manns saman: „Þetta mun hafa einhver áhrif á jólatónleika“

Grímuskylda verður sett á að nýju, fjöldatakmörkun fer í 500 og opnunartími skemmtistaða verður skertur um tvo tíma. Frá þessu greindi Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fyrir utan ráðherrabústaðinn rétt í þessu. Ríkisstjórn fundaði um tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og lauk fundinum á ellefta tímanum í dag.

„Minnisblaðið var öðruvísi en venjulega,“ sagði Svandís. „Hann fór yfir reglugerðina frá því í ágúst, september og október og sagði að það væri hægt að líta til þeirra allra.“

Aðgerðirnar munu vera í fjórar vikur og taka gildi á miðvikudaginn næsta. Grímuskyldan tekur gildi á miðnætti.

Sjá einnig: Þetta þarft þú að vita um grímur

Finnst þér eiga að létta af öllum takmörkunum?

SAMFÉLAGIÐ VEL VARIÐ AF BÓLUSETNINGUM

Hún sagði takmarkanirnar tiltölulega vægar. Þórólfur hafi sett upp þrjá möguleika eins og venjulega, óbreyttar aðgerðir, mun hertari aðgerðir eða að fara á bil beggja.

Aðspurð hvort hún haldi að aðgerðirnar dugi til að stöðva útbreiðslu faraldursins segist Svandís vona það. „Samfélagið er mjög vel varið af bólusetningum og þau sem eru að verða veik og leggjast inn og eru bólusett, þau verða minna veik en þau sem eru óbólusett. Þannig að enn og aftur hvet ég fólk til að fara í bólusetningar. “

Grímuskyldan á ekki við grunnskólabörn en tekur við á næstu skólastigum. Eins og hefur verið þá er grímuskyldan á sitjandi viðburðum þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.

„Þetta mun hafa einhver áhrif á jólatónleika,“ segir Svandís en minnist á að það gæti verið auðveldara að notast við hraðpróf. „Ég hvet eindregið þau sem eru að bjóða upp á tónleika að nota hraðprófin. “

Aðrir ráðherrar vildu ekki tjá sig um aðgerðirnar og vísuðu á Svandísi. Hún segir að það hafi ekki verið einhugur um aðgerðirnar. „Já það hafa alltaf verið skiptar skoðanir um þessi mál.“ Hún vildi ekki segja til um hvað var ágreiningsmál og vísaði á hina ráðherrana.

ALDREI FLEIRI UTAN SÓTTKVÍAR OG METFJÖLDI SMITA

Metfjöldi kórónaveirusmita greindust hér á landi í gær, alls 167. Smitum fer ört fjölgandi en í fyrradag voru 144 smit. Alls eru 1.096 manns í einangrun og 16 liggja inni á sjúkrahúsi.

Smittölur sýna að veiran er mjög útbreidd um allt land. Síðustu tvo daga hefur metfjöldi verið utan sóttkvíar við greiningu. Á miðvikudag voru 108 utan sóttkvíar og í gær voru 122. Slíkt hlutfall hefur aldrei greinst frá upphafi faraldursins.

Ekki missa af...