Góður félagi til margra áratuga kvaddur

Anna Kristjánsdóttir skrifar:

Dagur 824 – Veðurfræðingar ljúga (aftur).

Ég hefi einhverntímann notað þessa fyrirsögn áður, þegar veðurfræðingarnir spáðu rigningu en svo var glampandi sól. Og það var glampandi sól í gærmorgun þrátt fyrir rigningarspá. Um hádegið leit ég á veðurspána í símanum mínum og gladdist mjög því veðurfræðingarnir voru hættir að spá rigningu heldur átti nú að vera léttskýjað það sem eftir lifði dagsins.

Glöð í bragði fór ég á hinn Önnubarinn (Ann&Annas café) til að hitta nokkra Íslendinga sem dvelja hér, sumir langdvölum og til að kynnast nýkomnum Íslendingum til Los Cristianos. Þar sem við sátum og spjölluðum gerðist hið óvænta. Það byrjaði að rigna, kannski engin stórrigning, frekar léttur regnskúr, en rigning samt. Sem betur fer stóð hann stutt yfir og ég gat haldið heim á leið í þurru veðri.

Þetta minnir mig á það þegar jarðfræðingarnir á Veðurstofunni voru nýbúnir að afskrifa hugsanlegt eldgos á Reykjanesi þegar byrjaði að gjósa í Geldingadal sama kvöld. Allt í lagi, allt í lagi, jarðfræðingar eru ekki veðurfræðingar, en þeir eru samt flottir náttúrufræðingar allir með tölu og eiga allt gott skilið þótt ég hafi stundum gaman af að stríða þeim.

En mér þykir vænt um ykkur samt.

—–

Í dag mun vinum mínum á Facebook fækka um einn, en þegar ég frétti af andláti vina sem einnig eru á Facebook bíð ég með af fjarlægja þá af vinalistanum uns eftir útförina. Nú verður til moldar borinn Guðni Már Henningsson góður félagi minn til margra áratuga.

Hann hafði mörg störf á hendi um ævina, hafnarverkamaður, þjófapassari, starfsmaður á akstursdeild Eimskips, umönnum fatlaðra, rithöfundur, listmálari, ljóðskáld og svo auðvitað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 2, það starf sem hann varð hvað þekktastur fyrir og þá sérstaklega næturvaktirnar um helgar þar sem hann með sinni hlýlegu röddu náði að heilla íslensku þjóðina og ekki má gleyma þáttum hans á Rás 2 á milli 16 og 18 á aðfangadag jóla sem voru hrein unun að hlusta á í aðdraganda jólanna.

Síðustu árin dvaldi hann hér á Tenerife, einn þriggja sem ég þekkti á þessari fallegu eyju þegar ég flutti hingað ári rúmu ári á eftir honum.

Með þessum fátæklegu orðum mínum vil ég votta fjölskyldu hans, fyrrum sambýliskonum og dætrum mínar innilegustu samúðarkveðjur

Eftir Önnu Kristjánsdóttur þjóðfélagsrýni

Ekki missa af...