Glennugangur kvenna

Björn Birgisson skrifar:

Að gefnu tilefni.

Tiltekinn hópur kvenna þolir enga gagnrýni frá karlmönnum á athafnir kvenna.

Femínistar er líklegt samheiti á þennan hóp og hluti hans er algjörlega veruleikafirrtur.

Ég hef sem karlmaður, eiginmaður, faðir og afi, oft gagnrýnt svokallaða áhrifavalda.

Einkum ungar konur sem hika ekkert við að láta mynda sig hálfberar og í ýmsum ögrandi stellingum í sölu- og auglýsingaskyni.

Þá spretta femínistarnir upp eins og gorkúlur á mykjuhaug, þvaðra um frekju feðraveldisins og rétt þessara kvenna til að klæðast að vild og láta mynda sig að vild og nota líkama sína í auglýsingaskyni að vild.

Getur það verið?

Smá upprifjun.

Getur verið að þetta séu sömu femínistarnir og börðust gegn því að hálfnaktar konur væru alltaf að auglýsa bíla og hjólbarða og nekt þeirra og glennugangur notuð til að draga athygli að þeim varningi og reyndar ýmsu fleiru?

Getur það verið?

Hvað eru þessir svokölluðu áhrifavaldar að gera annað en að nota kroppinn sinn til að auglýsa ýmsan varning, fatnað, skartgripi, vín, snyrtivörur, gerviaugnhár, bótox fyllingar og ýmislegt fleira?

Mér finnst þetta meira og minna ógeðslegt og ónáttúrulegt.

Það er bara mín skoðun á þessu.

Snýst um siðferði

Markaðssetningin er ömurleg og val markhópanna – til að hafa áhrif á – algjörlega út úr öllu korti og afleiðingarnar gjarnan brotnar sjálfsmyndir áhrifagjarnra stúlkna.

Út á ofantalið gengur mín gagnrýni.

Ekki hver ræður yfir hverjum og gagnrýnin kemur engu karlaveldi eða feðraveldi nokkurn skapaðan hlut við.

Þetta snýst um siðferði.

Glyðru og glennugangur kvenna eflir ekki þeirra siðferðisvitund og enn síður þeirra sem vitni verða að ósómanum.

Ég er nokkuð viss um að góðir foreldrar – mæður og feður – hafa engan áhuga á að sjá börn sín í þessum aðstæðum sem hér er fjallað um.

Höfundur er kennari og fyrrverandi ritstjóri

Ekki missa af...