Gleðja fátæk börn með jólagjöfum

„Megintilgangur þess er að fá börn jafnt sem fullorðna til að hjálpa og gleðja börn í Úkraínu sem búa við sára fátækt, sjúkdóma og aðra erfiðleika,“ segir Ástríður Elsa Þorvaldsdóttir en hún stendur að verkefninu Jól í skókassa.

Verkefnið hefur verið starfrækt á vegum KFUM og KFUK síðan árið 2004. Kórónaveirufaraldurinn stöðvaði því miður skókassagjöf í fyrra. Í staðinn fóru þeir í febrúar. „Við hvetjum fólk til að koma með skókassa til okkar á Holtaveg 28,“ segir Ástríður. „Tekið er á móti kössum alla þessa viku frá kl 9 til 19 og svo á laugardaginn frá 11 til 16.“

Krakkarnir hæstánægðir með pakkana / Mynd: Jól í skókassa

SENDA FJÖGUR TIL FIMM ÞÚSUND GJAFIR Á ÁRI

„Megintilgangur þess er að fá börn jafnt sem fullorðna til að hjálpa og gleðja börn í Úkraínu sem búa við sára fátækt, sjúkdóma og aðra erfiðleika,“ segir Ástríður. „Á hverju ári eru sendar um 4-5 þúsund gjafir sem er svo dreift af KFUM þar í landi á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og annarra staða þar sem þörfin er mest.“

Búið er að taka á móti fjölda skókassa og í gær var búið að fara yfir 1640 gjafir. Þær komu frá öllum landshornum, Vestmannaeyjum, Keflavík, Egilsstöðum og Tálknafirði.

Það er margt sem getur farið í kassann, en börnin þurfa leikföng jafnt og það þarf hreinlætisvörur. / Mynd: Jól í skókassa

„Sendinefnd frá Íslandi fylgir skókössunum eftir og fór ég með til Úkraínu árið 2019,“ heldur hún áfram. „Það hreyfði mikið við mér að sjá við hversu mikla fátækt fólk þarna býr og hvað þörfin er mikil. Við fengum tækifæri til að hitta mörg börn og það var ómetanlegt að sjá hversu mikið gjafirnar frá Íslandi glöddu þau. Börn sem eiga ekkert og voru jafnvel að fá sitt fyrsta leikfang.“

Á vefsíðu Jóla í Skókassa er hægt að sjá hvað þarf til að taka þátt. Það þarf skókassa og skóbúðir eru oftar en ekki meira en til í að láta þá af hendi, gegn því að þeir séu tómir. Svo þarf að ákveða fyrir hvaða kyn og aldursflokk gjöfin á að vera.

Í kassann fer svo að minnsta kosti einn hlutur af hverjum þessara flokka; leikfang, skóladót, hreinlætisvörur, sælgæti og föt. Af hreinlætisvörum er sérstaklega óskað eftir því að allir láti tannbursta, tannkrem og sápustykki í kassann.

Svo þarf seðil af annað hvort 500 eða 1000 krónum. Það er fyrir kostnaðinn sem fylgir verkefninu.

Ekki missa af...