„Fyrirgefið þó ég segi það — ömurlegt. Ömurlegt“

Fleyg orð dagins á Illugi Jökulsson, rithöfundur. Þau lét hann falla um frétt Ríkisútvarpsins um Hjalteyrarmálið svokallaða. Það mál er um vistheimili sem rekið var á Hjalteyri árin 1972 til 1979. Hjónin sem ráku heimilið beittu börnin sem þar voru vistuð hrottalegu kynferðisofbeldi.

Samkvæmt RÚV þá vísa ráðherrar hvor á annan varðandi ábyrgð á málinu. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir málið vera á forræði forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir hins vegar bendir á Áslaugu. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra segir málið ekki heldur á sínu borði.

Orð Illuga féllu á Facebook um þetta samskiptaleysi ráðherra.

„Þetta er — fyrirgefið þó ég segi það — ömurlegt. Ömurlegt. Svo þetta eru hin réttu andlit ráðherranna. Þetta fólk hefur engan áhuga, vísar frá sér, glottir og fer undan í flæmingi. Engar kosningar nærri, svo viðhorfið er bara: „Ekki á mínu borði, ekki á mínu borði!“ Það virðist ekki einu sinni kunna að skammast sín.“

SANNGIRNISBÆTUR FYRIR HRYLLILEGA UPPLIFUN

Eins og áður kom fram var barnaheimili rekið á Hjalteyri yfir áttunda áratug síðustu aldar. Hjónin Einar Gíslason og Beverly Gíslason ráku heimilið fyrir börn sem barnaverndarnefnd Akureyrar sendi vegna veikinda foreldra eða annars konar aðstæðna heimavið. Þetta kemur allt fram í ítarlegri umfjöllun Vísis um málið, en þar er meðal annars rætt við þolendur hjónanna á Hjalteyri.

Þorpið liggur í rúmlega tuttugu kílómetra fjarlægð frá Akureyri. Húsið sjálft er svokallað Richardshús.

Sagt var frá málinu í DV árið 2012 en einn þolandi hjónanna kærði þau þá vegna misnotkunarinnar. Umsóknir um sanngirnisbætur eru háðar því að heimili hafi verið rannsökuð af vistheimilisnefnd en barnaheimilið á Hjalteyri var aldrei rannsakað.

Framkoma ráðherra um málið er gagnrýnisverð en það er borðliggjandi að hrósa þolendum Hjalteyris að koma fram og segja frá reynslu sinni. Svona mál hefði aldrei komið fyrir augu almennings ef ekki væri fyrir hugrekki þeirra.

Ekki missa af...