Fyrir&eftir: Gluggar og sólbekkir fá tryllta yfirhalningu

María Pétursdóttir er mikill fagurkeri sem elskar að gefa hlutum framhaldslíf sem komnir eru til ára sinna eða orðnir lúnir. Hún fæst aðallega við að mála húsgögn, glugga, loft og veggi, innréttingar og hurðar en hún hefur verið með puttana í allskonar framkvæmdum og hönnun frá unglingsaldri.

María segir að hún er mikið fyrir að breyta til og er dugleg að deila áhugamálinu sínu á samfélagsmiðlum en hún tekur líka einstaklega flottar myndir af þeim. ,,Þetta er svo skapandi og gefandi áhugamál og gott fyrir umhverfið að nýta það sem til er.“

Ég vildi deila með ykkur myndum af gluggum og sólbekkjum (gluggakistum) á heimili Maríu en mér finnst þetta alveg sjúklega töff og enginn smáræðis munur!

,,Ég byrjaði á að pússa gluggana og þreif svo allt ryk eftir það. Ég vildi ganga úr skugga um að engin fita eða óheinindi væru á gluggunum svo ég fór yfir þá með spritti í lokin,“ María notaði matt Super Finish lakkið frá Nordsjö á gluggana en það fæst í Sérefnum. ,,Liturinn heitir Mystical calais og skilar æðislega fallegri, mattri áferð og er virkilega gott að vinna með það lakk,“ segir María.

María filmaði síðan sólbekkina. ,,Ég notaði matta, svarta viðarfilmu en hana fékk ég í Enso.“

Það leynir sér ekki hversu mikla ástríðu María hefur á verkefnavinnu eins og þessari, enda er hún augljóslega mjög klár og veit hvað hún er að gera. ,,Það er svo margt hægt að laga og gera upp frekar en að henda öllu og kaupa nýtt. Það er líka alltaf jafn spennandi að sjá lokaútkomuna, hvort sem verið er að gera stórt eða lítið verkefni. Þetta gefur manni svo mikið.“

Að lokum spurði ég hana hvort hún gæti ráðlagt því fólki sem ætlar að taka sín fyrstu skref í svipuðum verkefnum og hún er að fást við. „Ég mæli fyrst og fremst með að leita ráða ef þið eruð ekki viss um hvað sé best að gera. Það er ekki gaman að enda með verkefnið í verra ástandi en það var í byrjun og að sjálfsögðu vanda til verka.“

Svartur glugginn og svartfilmaður sólbekkurinn kemur einstaklega vel út með dökkum gardínum og sófanum.

Gangi þér vel María í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Þú ert DIY-rokkari!

Hægt að fylgjast með Maríu og verkum hennar á Instagram.

Ekki missa af...