Fullveldisdagur í skjóli hamfara

Í dag er Fullveldisdagur. Við fögnum því að hafa slitið sambandslagasamning okkar við danska konungsríkið og urðum frjálst og fullvalda ríki. Vissulega vorum við enn undir krúnunni en við fengum þjóðfánann okkar og frelsi.

Það var sögulega árið 1918 sem við fengum fullveldi. Árið var þó ekki gott neinsstaðar á jarðarkringlunni. Heimstyrjöldin fyrri var nýlega búin og heimurinn allur var ennþá að kljást við eftirmála þess að um 20 milljón manns höfðu fallið sökum stríðsins.

Á Íslandi var einmitt engin ástæða til að fagna. Næg vandræði innanlands höfðu gert Íslendingum lífið leitt.

FROSTAVETUR, SPÆNSKA VEIKIN OG KATLA

Margir vilja meina að árið 2020 hafi verið afspyrnu slakt af mörgum ástæðum. Ef heimsfaraldur af völdum COVID-19 sjúkdómsins er tekinn fyrir utan sviga þá voru margir aðrir atburðir þar sem drógu talsvert úr gleði.

Það er þó erfitt að bera það saman við reynslu Íslendinga af hinu herrans ári 1918.

Frostaveturinn mikli náði hámarki í janúar en víða fór hitastig niður í -30°. Hafís hindraði skipaumferð til landsins sem þýðir að vöruskortur var mikill.

Fyrirfram var vöruskortur sökum heimstyrjaldarinnar og verð hækkaði upp úr öllu.

Ekki batnaði úr þegar Katla byrjaði að gjósa í október. Gosið varði til nóvember mánaðar en olli ekki eins miklum hamförum og fyrri gos höfðu gert. Mikið hlaup varð þó sem setti sinn svip á suðurlandið.

Til að bæta kolgráu ofan á svart þá barst spænska veikin til Íslands og herjaði á landann. Á fyrsta mánuði er sagt að tveir af hverjum þremur Reykvíkingum hafi verið rúmliggjandi sökum faraldursins. Í kringum 500 manns áttu eftir að deyja úr faraldrinum.

HÁTÍÐ Í BÆ

Þrátt fyrir þetta þótti alveg einhver ástæða til að safnast saman fyrir utan Stjórnarráðið og fagna frelsi og fullveldi.

Í dagblaðinu Fréttir segir:

„Í gær var uppi fótur og fit hér í borginni. Menn vörpuðu af sér pestarmörunni og tóku fagnaði þeim tveim höndum, er dagurinn hafði að flytja.“

Samvæmt umfjöllunum þess tíma var fínt veður, sólríkt og heiðskýrt.

Danskir hermenn gengu af herskipi sínu um morguninn en á skipinu var að finna bæði danskan og íslenskan fána. Fjármálaráðherra, Sigurður Eggerz, hélt erindi þar sem hann fagnaði ákvörðuninni og frelsinu.

Konungurinn sjálfur, Kristján, skrifaði skeyti til þingsins.

„Drottningin og ég flytjum alþingi hjartanlegt þakklæti með hlýjustu óskum um hamingju og gengi til handa Íslandi og þjóðinni.“

Ekki amalegt það.

Þrátt fyrir ömurlegt ár fyrir margar sakir er fallegt að vita til þess að á einum degi hristu menn og konur af sér pestarmörunni og hittust til að fagna fullveldinu. Árinu var ekki lokið, pestin gekk aðeins lengur og það var vissulega kalt. En þarna var kominn þjóðhátíðardagur, frelsi og fyrst og fremst framtíð. Íslendingar áttu eftir að verða eitthvað meira en bara sýsla Danmerkur.

Það átti bara eftir að koma aðeins síðar.

Ekki missa af...