Frúin er ekki til í annað veðmál! Nýtir notaða þvagflösku af LSH – Þetta svínvirkar

ÁR ÁN ÁFENGIS

Fyrir ári síðan ákvað ég að prófa að hætta alveg að drekka áfengi. Þetta byrjaði sem veðmál við frúnna, en fyrir ári voru vinkonur hennar flestar að hefja svokallaðan „Dry January“. Þetta sagði hún mig aldrei geta – og ákvað ég því að taka hana á orðinu.

Fljótlega eftir að „experimentið“ byrjaði tók ég eftir að ég fór að sofa betur og orkan jókst, bæði í íþróttum en ekki síst í vinnunni. Ekki veitir af því álagið í vinnunni hefur verið algjörlega út úr korti undanfarin misseri – iðulega tví- til þrískiptar næturvaktir ofan á fulla dagvinnu. Við slíkar aðstæður er góður nætursvefn og meiri orka gulls ígildi.

Ég hef aldrei litið svo á að áfengi væri eitthvað vandamál í mínu lífi, en á fríhelgi og jafnvel í miðri viku fékk ég mér stundum rauðvínsglas eða tvö með góðum mat. Í byrjun árs sá ég hins vegar með eigin augum hversu harður húsbóndi áfengið getur verið, en þá lutu á stuttum tíma nokkrir nátengdir vinir mínir og ættingjar í lægra haldi fyrir Bakkusi.

Í samskiptum við hann er því ágætt að hafa á hreinu hver ræður ferðinni. Þetta á ekki síst við þegar álag er mikið – hvort sem það er í vinnu eða einkalífi. Vissulega getur fylgt því söknuður að neita sér um „guðaveigar“, t.d. í veislum – en svei mér þá ef betri svefn og meiri lífsorka vegi ekki þyngra.

„Frúin er ekki til í annað veðmál!”

Sumir vina minna hafa sagt mig leiðinlegri alls gáðan – sem er misskilningur, því ég hef alltaf verið pínu „þurr“ og mat þeirra iðulega gert undir áhrifum áfengis. Hvað sem því líður hef ég ákveðið að framlengja þurrabúðina inn í árið 2022.

Sjáum svo til hversu lengi það varir – en frúin er a.m.k. ekki til í annað veðmál!

P.s.

Á Bíldudal er ég kallaður Prófessor Pilsner – enda sala á óáfengum drykkjum tekið kipp eftir að áfengisbindindi mitt hófst. Fyrir þá sem koma í heimsókn í Andahvilft bíð ég enn upp á rauðvín, en úr „notaðri“ þvagflösku af LSH.

Þetta svínvirkar sem neyslustýring og þegar hafa nokkrir af vinum mínum ákveðið að hætta eftir slíka skenkingu.

Reyndar er hvítvín ekki síður áhrifaríkt, eða blanda hvítu og rauðu saman!

Tómas Guðbjartsson er hjartaskurðlæknir á Landspítalanum

Ekki missa af...